- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Óhætt er að segja að árið 2018 hafi verið viðburðaríkt í áliðnaði. Það má segja að togstreita stórveldanna í heiminum hafi hverfst um álið. Og þar sem verð á áli ræðst á heimsmarkaði hefur það áhrif á íslenska álframleiðslu. Tollahækkanir Bandaríkjanna á ál hafa einkum beinst að Kínverjum, enda hefur verið sýnt fram á að ríkisstuðningur við álframleiðslu þar í landi skekki samkeppnisstöðuna á heimsvísu. En tollar á álinnflutning hafa einnig náð til Evrópuríkja og nágrannaríkjanna Kanada og Mexíkó og hefur tollastríðið valdið spennu á álmörkuðum.
Áfram stefnir í heilbrigðan vöxt í eftirspurn áls upp á 4-5% á næstu árum. Umframeftirspurn er eftir áli á heimsvísu á þessu ári og útlit fyrir að svo verði áfram á því næsta. Birgðir dragast því saman, einkum í heiminum utan Kína, sem mun til lengri tíma leiða til hækkunar álverðs, samkvæmt greiningarfyrirtækinu CRU. Á móti kemur að verð á aðföngum til álframleiðslu hefur hækkað verulega, bæði á súráli og rafskautum. Útlit er fyrir að jafnvægi komist á súrálsmarkaði á næsta ári, samkvæmt CRU.
Það sætir tíðindum að álframleiðsla á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Framleidd voru yfir 880 þúsund tonn árið 2017 og þegar talið er úr steypuskálum, þar sem búnar eru til flóknari og virðismeiri afurðir með því að blanda álinu við önnur efni, þá fór framleiðslan í fyrsta skipti yfir 900 þúsund tonn. Það eru fjárfestingar í frekari áframvinnslu sem skapa þennan árangur ásamt bættri straumnýtingu.
Ísland er næststærsti álframleiðandi í Evrópu og er Evrópa helsti markaður fyrir álafurðir íslenskra álvera. EES-samningurinn hefur mikla þýðingu, enda eru íslenskir álframleiðendur þar innan tollamúra. Um 16% af heimsframleiðslunni eru framleidd í Evrópu, þar af er hvorki meira né minna en helmingurinn endurunninn. Um 90% alls áls sem fer í byggingar og farartæki í Evrópu skila sér til endurvinnslu, enda þarf til þess einungis 5% orkunnar sem fer í að frumframleiða álið. Það er því verulegur fjárhagslegur ávinningur, sem treystir rekstrargrunn endurvinnslufyrirtækja um allan heim. Þar sem losunin í álframleiðslu á heimsvísu er einkum vegna orkuvinnslunnar, þá minnkar kolefnisfótspor áls margfalt í hvert sinn sem það er endurunnið.
Ísland er enginn eftirbátur annarra Evrópuríkja þegar kemur að endurvinnslu og má nefna sem dæmi hátt endurvinnsluhlutfall drykkjardósa úr áli, en það er yfir 90% og með því hæsta í Evrópu. Samál hefur tekið þátt í átaksverkefnum til að ýta undir endurvinnslu áls hér á landi, bæði á Fiskideginum mikla á Dalvík síðasta sumar og eins með söfnunarátaki sprittkerta síðustu jól. Undirtektir hafa verið frábærar og getur fólk áfram skilað álinu til endurvinnslustöðva, í söfnunargáma Grænna skáta og í tunnur Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins.
Fjögur teymi hönnuðu vörur til framleiðslu úr sprittkertum í samvinnu við Málmsteypuna Hellu og voru þær sýndar á afmælisopnun Hönnunarmars fyrr á þessu ári. Þar á meðal var stóll sem hannaður var af Sölva Kristjánssyni hjá Studio Portland og var hann valinn til sýningar á loftslagsráðstefnunni í Póllandi fyrr í desember. Þar með var hringrásin orðin að veruleika.
Pétur Blöndal
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls. Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. desember 2018.