Gefum jólaljósum lengra líf - endurvinnum álið í sprittkertunum

Frábærar undirtektir voru við tilraunaátaki um söfnun áls í sprittkertum, sem stóð yfir í desember og janúar. Yfirskrift átaksins var „Gefum jólaljósum lengra líf“. Tilgangurinn með átakinu var að efla vitund þjóðarinnar um mikilvægi þess að flokka og endurvinna það ál sem fellur til hjá heimilum og fyrirtækjum.

Skemmst er frá því að segja að þau fyrirtæki og samtök sem stóðu að endurvinnsluátakinu hafa ákveðið að halda áfram söfnun áls í sprittkertum og gera þetta að varanlegum kosti í flokkun og endurvinnslu hér á landi. Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samtök iðnaðarins, Samál og Sorpa.  

Skila má álinu í sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land.

Einnig má setja álið í endurvinnslutunnur sem eru í boði hjá Gámaþjónustunni og grænar tunnur Íslenska gámafélagsins.

Þá gefst kostur á að setja álið í sprittkertunum í 120 söfnunargáma Grænna skáta fyrir dósir á höfuðborgarsvæðinu. 

Tilgangurinn er sem áður segir að fá almenning til að skila álinu í sprittkertunum til endurvinnslu og efla vitund þjóðarinnar um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.

Hér er spurt & svarað þar sem fræðast má um átakið og hér má fylgjast með átakinu á facebook. 

Þúsund sprittkerti í reiðhjól

Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – Samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. Til að setja hlutina í samhengi, þá þarf einungis um þúsund sprittkerti til að búa til reiðhjól.

Álið sem safnast verður pressað hjá Furu og endurunnið hér á landi, en nánar verður tilkynnt um útfærslu þess á næstu vikum.

Bylgjuhreyfing í samfélaginu að flokka og endurvinna

Frumkvæðið að átakinu kom frá Samáli, en álframleiðendur hafa í samstarfi við endurvinnslustöðvar staðið fyrir sambærilegum átaksverkefnum í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi.

„Það finna allir að bylgjuhreyfinguna í samfélaginu, fólk vill leggja sitt af mörkum til að draga úr sóun, flokka og skila til endurvinnslu,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls. „Öll þau góðu fyrirtæki og samtök sem standa að átakinu tóku strax vel í hugmyndina og þá var ekki eftir neinu að bíða!“

Endurvinnsla áls dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Ál hefur þá sérstöðu að það má nýta aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Einungis þarf um 5% af orkunni sem fór upphaflega í að framleiða álið til að endurvinna það.

Það þýðir að mikil verðmæti leysast úr læðingi við endurvinnslu álsins og færir það stoðir undir rekstur endurvinnslufyrirtækja víða um Evrópu. 

Þá dregur orkusparnaður vegna endurvinnslu áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda verður almennt mest losun frá orkuvinnslunni við framleiðslu áls í heiminum.

Mikilvægt að allir leggist á eitt

Til þess að átakið verði að veruleika er mikilvægt að allir leggist á eitt og láti gott af sér leiða, jafnt almenningur og fyrirtæki.  

„Hlutverk Gámaþjónustunnar í söfnunarátakinu er að safna saman þessum álbikurum undan sprittkertunum. Við verðum með ílát undir þá á okkar móttökustöðvum um allt land. Við hvetjum líka þá viðskiptavini okkar sem eru með Endurvinnslutunnuna að safna álbökkunum í hana. Þeir skilar sér til okkar og við komum þeim á áfangastað,” segir Hannes Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, um aðkomu fyrirtæksins að verkefninu.

Kertaafgangar endurunnir hjá Plastiðjunni Bjargi

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, fagnar þessu endurvinnsluátaki. „Endurvinnslan fagnar framtaki Samáls í því að endurvinna sprittkertabikara. Fyrirtækið þekkir vel umhverfisávinning þess að ál sé endurunnið enda hefur það safnað áldósum til endurvinnslu í nær 30 ár.

Auk þess munu þeir kertaafgangar sem fylgja með verða endurunnir hjá Plastiðjunni Bjargi. Þar með nýtast kertaafgangar og vinna skapast fyrir einstaklinga á vernduðum vinnustað. Þetta verkefni upplýsir íslendinga um mikilvægi endurvinnslu og þess að draga úr sóun. Því styður Endurvinnslan þetta verkefni heilshugar og mun hvetja alla sína umboðsmenn til að vera með í þessu þarfa átaki,”  segir Helgi.

Við bendum á Facebook-síðu átaksins #endurvinnumalid og hér má nálgast spurt og svarað um endurvinnsluátakið