- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Undanfarin ár og áratugi hefur byggst upp öflugur álklasi með hundruðum fyrirtækja og stofnana á Íslandi og nam heildarframlag klasans til landsframleiðslu nálægt 6,8% á árunum 2011 til 2012 eða um 120 milljörðum hvort ár. Ef horft er til eftirspurnaráhrifa var framlagið tæp 9% árið 2012 eða um 210 milljarðar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega stöðu og þróun íslensks áliðnaðar sem kom út vorið 2015.
Stofnað var til klasaframtaks á grunni þess álklasa sem myndast hefur hér á landi með formlegri stofnun Álklasans í júní 2015, en áður hafði framtíðarsýn klasaframtaksins verið mótuð á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi vorið 2014. Álklasinn hafði raunar fengið bronsmerkingu Evrópskrifstofu um klasagreiningu ásamt átta öðrum klösum haustið 2013.
Að stofnun Álklasans standa á fjórða tug fyrirtækja og stofnana. Fræðast má frekar um starf Álklasans á heimasíðu klasans sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2015.
Í fyrrgreindri skýrslu Hagfræðistofnunar er lagt mat á efnahagslegt umfang áliðnaðarins og tengdrar starfsemi og segir þar meðal annars: „Álfyrirtækin skipta árlega við hundruð annarra íslenska fyrirtækja og hafa ný fyrirtæki sprottið upp í kringum áliðnaðinn. Þannig má ætla að hér hafi myndast svokallaður álklasi, þ.e. hópur efnahagslega tengdra fyrirtækja sem eru samkeppnishæfari en ef klasans nyti ekki við.“
Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls fjallaði um Álklasann í grein á Vísi.is í júlí árið 2015: „Hérlendis hefur klasasamstarf haslað sér völl á sviði jarðvarma, sjávarútvegs og ferðaþjónustu með góðum árangri. Nýlega bættist mikilvægur klasi í hópinn þegar tugir fyrirtækja og stofnana stóðu að vel sóttum stofnfundi íslenska álklasans. Á meðal stofnenda eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk allra álveranna á Íslandi. Nýir aðilar bætast við klasann á næstu misserum enda skipta þau fyrirtæki hundruðum sem hafa hag af álframleiðslu á Íslandi.“
Í skýrslu Gamma frá árinu 2010 segir um áhrif orkuiðnaðar á íslenskt efnahagslíf (s. 48-49): „Hins vegar hefur uppbygging í orkuframleiðslu og stóriðju skilað mun dýpri áhrifum á íslenskt efnahagslíf en margfeldisáhrifin ein og sér. Hér á landi hefur myndast töluverð starfsemi í aðfangaiðnaði í kringum orku og iðnað, bæði á framkvæmdatíma sem og á rekstrartíma. Hér mætti nefna að um 1.300 manns starfa á verkfræðistofum á Íslandi og rúmlega þriðjungur þeirra vinnur að orku- og iðnaðartengdum verkefnum. Þekking og reynsla íslenskra verkfræðinga af virkjanaframkvæmdum, hvort sem er vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum, hefur aukist ár frá ári og svo má segja að þar hafi myndast vaxandi klasi þar sem íslenskar verkfræðistofur eru farnar að sinna verkefnum utan landsteinanna og þannig hafið útflutning á orkuþekkingu sinni. Metið er að íslenskar verkfræði- og jarðvísindastofur hafi haft um kr. 1,5 ma í erlendar tekjur árið 2009. Aukin þekking og tækni hefur líka þróast í kringum þjónustu við álverin sjálf og er nú svo komið að íslenskar verkfræðistofur sem og önnur fyrirtæki flytja út þekkingu og vörur tengdar álverum. Það er því ljóst að áframhaldandi fjárfestingar í iðnaði og stóriðju munu styðja við þessa klasamyndun sem felur í sér sjálfstæða verðmætasköpun með íslensku hugviti.“
Í skýrslunni segir ennfremur: „Þegar litið er til lengri tíma skiptir samtakamáttur fjöldans eða svokölluð klasaáhrif töluverðu máli. Það er því fleira fólk sem vinnur að svipuðum verkefnum, á einum stað og í sama atvinnugeira, þeim mun meiri samkeppnihæfni skapast. Litlar þjóðir með takmarkaðan mannafla verða því að velja sérhæfingu sína vel til þess að ná samkeppnishæfni, en sérhæfa sig verða þær til að geta náð árangri. Orkugeirinn íslenski felur í sér þann möguleika að geta orðið öflugur klasi á erlendan mælikvarða er geti hafið útflutning á íslensku hugviti og fallið þar í sama flokk og íslenskur sjávarútvegur og flugþjónusta. Í þessu ljósi er mjög jákvætt að haldið sé áfram uppbyggingarferli í orkuiðnaði hérlendis og áfram sé stutt við hinn upprennandi íslenska orkuklasa.“ (s. 42)
Hér má lesa útgáfu Samtaka iðnaðarins og Samáls með framtíðarsýn Álklasans frá stefnumótunarfundinum í Borgarnesi vorið 2014.