- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Að hugsa í annaðhvort eða...
Eitt af einkennum þjóðmálaumræðunnar er að fólki hættir til að hugsa í annaðhvort eða...
Nú er Boris Johnson þingmaður og borgarstjóri Lundúna með meiru kominn í fylkingarbrjóst þeirra sem vilja að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Gott og vel, en það þýðir samt ekki að honum sé í nöp við Evrópusambandið. Eitt sinn tók hann sérstaklega fram í viðtali að hann væri Evrópusinni: „Ég vil sannarlega evrópskt samfélag þar sem maður getur hámað í sig croissant, drukkið dýrindiskaffi, lært erlend tungumál og almennt notið ásta með erlendum konum.“
Þegar uppgangur bankanna var hvað mestur í aðdraganda hrunsins birtist viðtal við einn framámanna bankanna sem sagði áliðnað og sjávarútveg óspennandi, þar sem arðsemin væri lítil. En fyrirtæki í áliðnaði og sjávarútvegi stóðu bankakreppuna af sér og skiluðu miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið þegar mest lá við. Í Egilssögu er traustri afkomu Skallagríms lýst þannig: „Stóð þá mörgum fótum fjárafli Skallagríms.“
Nú er uppgangur í ferðaþjónustu og er það vel. Þar varðar miklu að innviðir hafa byggst upp á liðnum áratugum í kringum grunnatvinnuvegi á borð við sjávarútveg og orkuiðnað. En gróskan í ferðaþjónustu dregur ekki úr vægi annarra greina. Þvert á móti styrkir það og breikkar grundvöll efnahagslífsins að hafa margar stoðir undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2009 segir: „Áratuga reynsla Íslendinga af einhæfum útflutningi sjávarafurða með tilheyrandi sveiflum, bæði vegna aflabrests heima og verðsveiflna á erlendum mörkuðum, undirstrikar mikilvægi þess að búa við stöðugt gengi. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er því minni verða ófyrirséðar sveiflur á verðmæti hans.”
Hvort tveggja og rúmlega það.
Pétur Blöndal