- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Óhætt er að segja að tækninni fleygi fram í rafhlöðum í heiminum, en samkvæmt spám World Bank á eftirspurn eftir að fimmfaldast á næstu árum. Nú síðast í gær gaf Elon Musk það út að fyrirsjáanlegur væri skortur á rafhlöðum á næstu misserum.
Þar er ál í lykilhlutverki.
Síðustu áratugi hefur vöxtur eftirspurnar áls verið viðvarandi, enda hefur það marga eiginleika sem ýta undir framþróun í heiminum. Nefna má að álklæðningar draga úr orkusóun í byggingum, umbúðir úr áli draga úr matarsóun og lengja endingartíma lyfja, auk þess sem ál er kjörið til endurvinnslu, þar sem það það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Þá spilar það stórt hlutverk í uppbyggingu flutningskerfisins vegna orkuskipta í heiminum og í léttingu farartækja, sem aftur dregur úr brennslu jarðefnaeldsneytis og gerir rafbílum kleift að komast lengra á hleðslunni.
Markaðir að taka við sér
Engu að síður á álframleiðsla í Evrópu undir högg að sækja. Skýringarnar má að hluta rekja til útbreiðslu Covid-19, en heimsfaraldurinn ýmist leiddi til lokunar eða hægði á framleiðslu víða í Evrópu, svo sem bílaframleiðslu og byggingaframkvæmdum, og fyrir vikið lækkaði ál í verði. Það er því jákvætt að þó að markaðir hafi ekki að fullu tekið við sér, þá hefur verð þokast upp á við aftur og er nær meðalverði ársins 2019.
En vandinn til langs tíma lýtur að framleiðslukostnaði í Evrópu. Nú hefur ESB nýlokið vinnu við endurskoðun á regluverki vegna niðurgreiðslna til orkusækins iðnaðar í Evrópu fyrir árið 2021-2030. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að álframleiðsla verður áfram á kolefnislekalista á sameiginlegum orkumarkaði ESB, en í því felst að framkvæmdastjórn ESB metur stöðuna þannig að hætta sé á að álframleiðsla hrekist frá Evrópu ef of miklum kostnaði er velt á greinina.
Röksemdirnar eru margvíslegar. Mestu varðar að verð á áli ræðst á heimsmarkaði og að álið er eins óháð því hvar það er framleitt. Það þýðir að ef framleiðslukostnaður áls hækkar á einum stað, þá skapast samkeppnisforskot annars staðar.
Niðurgreiðsla ríkja ESB
Í könnun sem CEPS gerði fyrir framkvæmdastjórn ESB í árslok 2013 kom fram að regluverk ESB bætti að meðaltali 8% ofan á framleiðslukostnað áls í Evrópu og jafnframt að raforka væri stærsti kostnaðarliðurinn við framleiðslu áls. Fram kom að 86% af kostnaðinum við regluverk ESB tengdist raforkuverði, annaðhvort beint eða í gegnum ETS, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Til þess að mæta þessu hefur einstökum ríkjum innan ESB verið gert kleift að niðurgreiða raforku til álframleiðslu svo um munar, en það á að mæta kostnaði sem hleðst ofan á orkuverðið vegna kaupa orkuvera á losunarheimildum. Það gefur auga leið að sá kostnaður er verulegur í þeim tilfellum þar sem orkan er sótt í jarðefnaeldsneyti á borð við kol eða gas. Það hefur því orðið grundvallarbreyting á verðlagningu orku til álvera á sameiginlegum orkumarkaði ESB frá árinu 2013, ekki síst á undanförnum árum þar sem verð á losunarheimildum hefur fimmfaldast.
Nú er orðið ljóst að þetta niðurgreiðslukerfi verður við lýði til ársins 2030 og er það undir stjórnvöldum hvers ríkis innan ESB komið hvort þau nýta sér þessa heimild, en hingað til hefur það tíðkast í samkeppnislöndum okkar, svo sem Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Þar sem Ísland er ekki aðili að sameiginlega orkumarkaðnum leyfast slíkar niðurgreiðslur ekki hér. Mikilvægt er að stjórnvöld hér á landi hafi þetta í huga þegar þau bera saman orkuverð hér á landi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Sjálfbærni til framtíðar
Evrópusambandið er að skoða fleiri leiðir til að viðhalda samkeppnishæfni álframleiðslu og annars orkusækins iðnaðar í Evrópu. Á meðal þess sem er til skoðunar hjá ESB er kolefnisskattur á innflutning til Evrópu, enda er kolefnisfótspor evrópskrar álframleiðslu lægra en í öðrum heimsálfum og gjöld vegna losunar hvergi hærri. Stingur það einkum í stúf hér á landi, þar sem álframleiðsla losar hvergi minna.
Ál er á lista ESB yfir hráefni sem eru mikilvæg „græna samkomulaginu“ sem felur í sér að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050, eins og fram kom hjá Hilde Merete Aasheim forstjóra Norsk Hydro í gær þegar hún fagnaði ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB. Það skiptir því máli fyrir loftslagið í heiminum að álframleiðsla haldist í Evrópu, auk þess sem hún skapar störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið. En til þess að álframleiðsla í Evrópu eigi sér sjálfbæra framtíð til langs tíma, þarf að tryggja samkeppnishæfnina. Framkvæmdastjórn ESB sýndi með ákvörðun sinni í vikunni að hún er meðvituð um það.
Pétur Blöndal
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. september 2020