- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Samál, samtök álframleiðenda á Íslandi, fagna frumkvæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að skýrslu um samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar með tilliti til raforkuverðs. Samál bendir þó á að ekki er tekin afstaða til þess orkuverðs sem býðst í dag og að óvissu er lýst um samkeppnisstöðu til framtíðar. Samál lýsir ánægju með að endurskoða eigi flutningskerfi raforku með samkeppnishæfni að leiðarljósi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samáli í dag. Þar segir ennfremur:
Niðurstaða skýrslu greiningarfyrirtækisins Fraunhofer virðist vera að meðalorkuverð til orkusækins iðnaðar hafi almennt verið samkeppnishæft hér á landi, en tekið er fram að það eigi þó ekki við um alla samninga. Í því felst að sumir samningar geti ekki talist samkeppnishæfir og er það áhyggjuefni.
Samál bendir á að Landsvirkjun hefur gefið út að fyrirtækið sé bundið „kostnaðarverði“, en í því er m.a. tekið tilllit til 7,5% arðsemiskröfu ríkisins. Það kostnaðarverð sé á bilinu 28 til 35 dollarar á MWst og því mun hærra en það meðalorkuverð sem stuðst er við í skýrslu Fraunhofer. Samkeppnishæfni hlýtur að taka mið af núverandi stöðu og framtíðarhorfum. Í kjölfarið á skýrslunni hljóta því að vakna spurningar um hvort orkuverðið sem býðst í dag sé samkeppnishæft.
Í skýrslunni er Ísland borið saman við Noreg, Kanada og Þýskaland. Samál bendir á að í slíkum samanburði verði einnig að horfa til þess, að öfugt við Ísland búa öll þessi ríki yfir öflugum heimamarkaði, sem skapar skilyrði fyrir öfluga virðisaukandi áframvinnslu. Tekið er fram í skýrslunni að ekki sé horft til stærðarhagkvæmni, nálægðar við markaði, ríkisstyrkja eða styrkja vegna fjárfestinga, rannsókna og þróunar, en allt hafi það áhrif á samkeppnishæfni.
Auk þess kemur fram í skýrslunni að hjá álverum í Noregi og Þýskalandi muni verulega um endurgreiðslur á á ETS-kostnaði raforkuverðsins. Slíkar endurgreiðslur eru heimilar í öllum ríkjum ESB og einnig í Noregi. Í skýrslunni segir að endurgreiðslur hafi hækkað verulega á árinu 2019, líklegt sé að þær hækki enn frekar, það geti dregið úr framleiðsluskostnaði í Noregi og Þýskalandi og ógni samkeppnishæfni álvera á Íslandi.
Það er áhyggjuefni að á undanförnum mánuðum hafa fyrirtæki í orkusæknum iðnaði og jafnvel orkufyrirtæki stigið fram og lýst því yfir að orkuverð til stóriðju sé ekki samkeppnishæft á Íslandi. Afkomutölur hafa verið neikvæðar og fyrirtæki starfa ekki á fullum afköstum. Ljóst má vera að vandinn er djúpstæðari en svo að upphafið megi rekja til Covid-19, þó að víst hafi heimsfaraldurinn dýpkað hann enn frekar.
Samál fagnar því að iðnaðarráðherra hafi lýst því yfir í kjölfarið á útgáfu skýrslunnar að til standi að endurskoða flutningskerfi raforku, m.a. með tilliti til samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar. Ljóst er að grundvöllur þeirrar samkeppnishæfni byggist á heildarverði raforku og flutningskostnaður raforku er þar ekki undanskilinn.
Mikið er í húfi að stjórnvöld leitist áfram við að bæta samkeppnisstöðu íslenskrar álframleiðslu, enda er það ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. Álframleiðsla hefur byggst upp á Íslandi í rúma hálfa öld og stuðlað að bættum lífskjörum, hagkvæmri og loftslagsvænni orkunýtingu, bættu raforkuöryggi, verðmætum og fjölbreyttum störfum og skapað hundruðum fyrirtækja rekstrargrundvöll.
Nánari upplýsingar veitir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í síma 663-5300 og netfanginu pebl@samal.is.