Tor Arne Berg er nýtekinn við sem forstjóri Fjarðaáls, en stýrði áður öðru álveri Alcoa í Lista í No…
Tor Arne Berg er nýtekinn við sem forstjóri Fjarðaáls, en stýrði áður öðru álveri Alcoa í Lista í Noregi.

Ál, jól og takkaskór í viðtali við nýjan forstjóra Fjarðaáls í Fjarðaálsfréttum

Haustið 2019 tók Tor Arne Berg við stöðu forstjóra Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Í nýrri útgáfu Fjarðaálsfrétta gefst færi á að fræðast um bakgrunn og áhugamál þessa nýja forstjóra sem fluttist hingað frá suðurhluta Noregs. Þar gegndi hann góðri stöðu forstjóra annars álvers í eigu Alcoa, Lista, en þegar móðurfélagið óskaði þess að hann pakkaði niður og flyttist til Íslands til að leiða fólkið og ferlana þar, sló hann til.

Nýi forstjórinn kemur frá Lista í Noregi þar sem hann er fæddur og uppalinn. „Þetta er eiginlega svæði innan héraðsins Farsund. Þaðan dregur Alcoa Lista nafnið sitt.“ Í sveitarfélaginu Farsund eru um það bil tíu þúsund íbúar sem er álíka og á Austurlandi. Búa þá allir starfsmenn Lista álversins í Farsund? „Flestir þeirra búa þar á meðan aðrir koma frá stöðum sem eru lengra í burtu, sérstaklega frá bænum Lyngdal sem er í um tuttugu kílómetra fjarlægð,“ segir Tor Arne.

Æskuárin á sveitabæ

Við byrjum á æsku Tors Arne og uppruna: í hvers konar umhverfi eyddi hann bernskuárunum? „Ég er uppalinn á sveitabæ, sem var svona meðalstór miðað við aðra bæi í héraðinu. Ég fæddist árið 1967 og foreldrar mínir festu kaup á sveitabænum 1969. Á þeim tíma var varla hægt að lifa á búrekstri einum enda sér maður í dag að allir þessir litlu sveitabæir eru algerlega horfnir. Nú eru bara risastór og tæknivædd býli. Mamma vann fulla vinnu utan heimilis og ól okkur krakkana upp vegna þess að pabbi var svo sjaldan heima. Hann sá um rekstur búsins en rak líka eigið verktakafyrirtæki sem var ekki stórt í sniðum, og var að vinna á gröfum og vörubíl. Hann var að mestu leyti í vegavinnu og þess háttar. Ég á ennþá erfitt með að skilja hvernig mömmu tókst þetta, að vinna fulla vinnu og hugsa um börnin.“

Hvaða vinnu stundaði hún? „Þetta var í gamla daga þegar ennþá voru símstöðvar og hún var „símastúlka“. Ég er með óljósa minningu um heimsókn til hennar þar sem hún sat með símavírana og tengla. Pabbi var sjómaður áður en þau kynntust. Hann byrjaði á sjónum fjórtán ára og sigldi í mörg ár frá Suður-Afríku á risastórum norskum vöruflutningaskipum. En mörgum árum seinna, eftir að hann kynntist mömmu, kom hann í land.“

Þið eruð fjögur systkinin - hvar ert þú í röðinni? „Ég er sá þriðji í röðinni, það eru tvær eldri systur og svo á ég yngri bróður.“ Voruð þið systkinin náin? „Já, mjög svo. En seinna fóru systur mínar í burtu vegna náms og þær sneru ekki aftur til baka. Önnur þeirra býr í Stavangri og hin í Horten. Við hittumst, svona eins og fólk gerir, þegar þær koma heim í fríum eða skreppa í helgarferð á æskuslóðirnar. Þær eru báðar komnar með fjölskyldu. Bróðir minn býr ennþá í sama sveitarfélaginu og vinnur í byggingarvöruverslun. Þannig að hann hefur búið þar alla tíð.“

Í sumarvinnu hjá Lista

Framhalds- og háskólanemar á Íslandi treysta á sumarvinnu til þess að framfleyta sér yfir veturinn og það sama gildir um Tor Arme, sem vann í mörg sumur í Lista álverinu.„Ég byrjaði þar í sumarvinnu þegar ég var átján ára og vann mér inn peninga til að geta haldið áfram í skóla. Ég vann í skólafríi: á sumrin, um jól, páska og svo framvegis.“

Á hvaða framleiðslusvæði? „Aðallega í kerskálanum. Ég var heppinn að fá vinnu þar. Á níunda og tíunda áratugnum voru um 700 manns í vinnu hjá verksmiðjunni og það þurfti að ráða mikinn fjölda sumarstarfsmanna til að fylla í skarðið yfir fríum. Í dag eru bara 270 starfsmenn í allt í Lista og það er mjög erfitt að fá vinnu þar.“

Það hefur sem sagt margt breyst? „Já, en samt framleiðir Lista meira af áli með 270 starfsmenn.“ Er það vegna tækniframfara? „Nei, í grunninn er enn sama tæknin notuð en það er meira um sjálfvirkni, sérstaklega í steypuskálanum. Það er líka endurvinnsla á áli í Lista, og um 40.000 tonn af köldu áli eru brædd þar á ári.“ Hver er framleiðslugeta álversins? „Þetta er lítið álver. Um miðjan níunda áratuginn var verið að framleiða um 80.000-85.000 tonn á ári en núna eru framleidd rúmlega 90.000 tonn. Við höfum verið að endurbæta hitt og þetta og líka að auka straumnýtnina.“

Námsár í Bergen og leiðin til Alcoa

Hvaða menntun hefur þú hlotið? „Fyrstu tvö háskólaárin var ég í Grimstad, skammt frá Kristiansand, og svo fjögur ár í verslunarháskólanum í Bergen, það er Norwegian school of Economics and Business Administration. Þannig að ég var í hagfræðinámi í sex ár - og er með meistaragráðu í fjármálum með sérfræðiþekkingu á afleiðum. Sem sagt: ég stefndi beint í kauphöllina.“

En hvernig stóð á því að þú fórst á hrávörumarkaðinn? „Það var hrein tilviljun og helst vegna þess að Bente, konan mín, var á undan mér að ljúka námi. Við voru bæði í verslunarháskóla, hún í Bodø sem er norðarlega í Noregi og ég í Bergen, á vesturströndinni. Hennar nám tók fjögur ár og mitt sex ár. Strax eftir útskriftina fékk hún starf í Farsund hjá fyrirtækinu Bredero. Það er fyrirtæki sem lagði gasleiðslur frá Norðursjó til meginlands Evrópu og setti upp risastóra múrhúðunarverksmiðju
í Farsund. Þannig að hún fékk starf þar og ég var óviss um hvað mig langaði að gera. Svo, sumarið eftir mína útskrift kom ég heim. Við giftum okkur reyndar það ár. Og svo fyrir algera tilviljun hitti ég yfirmann hennar og við fórum að spjalla og eitt leiddi af öðru og svo var ég bara allt í einu kominn með starf! Þannig að við unnum bæði fyrir sama fyrirtækið. Ég var þar í þrjú ár en Bente var þar mun lengur. Svo var ég að dútla í hinu og þessu, sem allt tengdist rekstri og fékk loks starf sem innkaupastjóri hjá Lista árið 2011. Seinna gegndi ég starfi framkvæmdastjóra fjárfestinga og svo yfirmanns steypuskála. Á tímabili var ég ábyrgur fyrir öllum steypuskálum Alcoa í Evrópu, svo
varð ég forstjóri og núna er ég kominn hingað. Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag.“

Grunaði þig nokkurn tíma að það myndi leiða þig svona víða? „Nei! Það er skemmtilegt að rifja upp að árið 2010 kom ég í heimsókn í Alcoa Lista. Ég man ekki af hverju. Það hafði ekkert að gera með vinnuna eða neitt slíkt. Ég leit í kringum mig og hugsaði að það væri frábært að koma til baka og vinna þar. Og bara örfáum mánuðum eftir það var staða innkaupastjóra í Alcoa Lista auglýst og ég fékk starfið. En ég var bara í því starfi í hálft ár og fór svo í steypuskálann. Ég er mun hrifnari af framleiðslu og rekstri.“

Einkalíf og fjölskylda

Þú nefndir áðan konuna þína og námsárin ykkar. Hvar hittirðu hana fyrst? „Við hittumst fyrst í menntaskóla. Í raun erum við fjórmenningar! En ég vissi það ekki þá. Ég hafði ekki séð hana fyrr eða vitað af henni fyrr en við hittumst. Hún var sextán ára og ég sautján. Við byrjuðum saman á fyrsta ári í menntó. Nú eru komin 35 ár!“

Bente og Tor Arne eiga tvö börn: drenginn Christer Andre, sem er 22ja ára og stúlkuna Iselin sem er 19 ára. Christer Andre er að læra verkfræði í háskóla í grennd við Osló og þannig vill til að Iselin vinnur í Alcoa Lista. Heldurðu að börnin muni feta í þín fótspor? „Ekki sonur minn. Sjáðu til, sveitarfélagið sem álverið er í, er mjög lítið og það er ekkert háskólanám í boði þar. Þau störf sem krefjast háskólanáms eru fá og mjög umsetin. Við Bente, sem er með sömu menntun og ég, vorum alveg sérstaklega heppin að fá starf í okkar heimabyggð, þar sem samkeppnin um þau er svo hörð.“

Er þá líklegra að dóttir þín feti í í fótsporin þín, þar sem hún er þegar komin í vinnu hjá Lista? „Já, en hún valdi aðra námsleið. Ég valdi verslunarskóla en hún kaus iðnskóla. Hún fær sveinspróf í vélvirkjun ef hún stenst lokaprófið. Það mun standa yfir í tvo eða þrjá daga í maí á næsta ári og eftir það fær hún sveinsbréfið. Hún vinnur núna á kranaverkstæðinu í Lista.“ Gott, það veitir ekki af fleiri konum í þeirri grein, skýtur spyrillinn inn í. „Já, einmitt. Ég man að það voru 22 strákar í bekknum hennar og hún var eina stelpan.“

Heldurðu að það sé möguleiki að hún komi hingað til að vinna? „Já, það er aldrei að vita. Þetta umhverfi er henni vel kunnugt. Hún er líka með mikla ævintýraþrá, miklu meiri en ég bý yfir.“

Að setjast að á Austurlandi

Þú komst hingað einn, hvernig gengur það? „Sko, börnin mín eru uppkomin og konan mín er í góðu starfi svo ég flutti hingað einn. Bente og ég, við veltum því ekki einu sinni fyrir okkur sem möguleika að hún segði upp starfinu sínu til að koma hingað með mér. Hvað ætti hún að gera? Ég er í vinnunni frá mánudegi til föstudags, og stundum um helgar líka, og tíminn líður bara svo ótrúlega hratt.“ 

Finnst þér að þú hafir verið fljótur að aðlagast bæði vinnunni og samfélaginu? „Já. Ég vissi á hverju ég mætti eiga von, þar sem ég hef flust milli starfa hjá Alcoa og gegnt fjórum eða fimm stöðum á undanförnum átta árum. Lærdómsferlið er oft erfitt í upphafi en maður verður bara að láta sig hafa það. Það er ekki átakalaust fyrir einhvern utanaðkomandi að koma inn í svona margþætt fyrirtæki eins og Alcoa. Ég öfunda ekki þann sem kemur utan frá til þess að setjast í forstjórastólinn hérna án þess að þekkja þá formgerð og kerfi sem stórfyrirtækið byggir á. Maður væri hlaupandi um eins og höfuðlaus hæna að spyrja fólk og skilja ekki nokkurn skapaðan hlut. Alla vega, þá þekki ég formgerðina og fólk er alls staðar fólk. En hvert af dótturfyrirtækjunum getur haft sína sérstöðu. Það er alltaf einhver menningarmismunur en maður venst honum smám saman. Þetta var alla vega ekki erfitt fyrir mig, hreinskilnislega sagt.“

Talandi um menningarmun, hefurðu fundið fyrir honumvið að flytja frá Noregi til Íslands? Var eitthvað sem kom  þér á óvart? „Nei, eiginlega ekki. Það er mjög margt sem norsk og íslensk menning eiga sameiginlegt. Ef ég ætti að bera saman menninguna í þessum tveimur löndum, gæti ég ekki bent á einhvern sérstakan hlut. Hins vegar, ef ég ber saman þessi tvö álver, Lista og Fjarðaál, þá liggur meginmismunurinn í meðalaldri starfsmanna - hann er svo miklu lægri hérna. Í Lista er hann í kringum fimmtugt. Starfsreynsla fólksins í Lista er að meðaltali um tuttugu störf hjá fyrirtækinu þegar þeir voru átján ára og eru nú komin yfir sextugt. Það er sem sagt til fólk sem hefur unnið þar í fjörutíu ár. En er það öðruvísi menning? Ég veit það ekki. Hjá Lista telur meirihluti starfsmanna að þeir „eigi“ álverið. Ég veit ekki með íslenska starfsmenn. Eftir þessi tólf ár, finnst þeim álverið vera „sitt“?Starfsmannaveltan hér hjá Fjarðaáli hefur verið í kringum tíu prósent en það er allt annað í Lista. Ef einn starfsmaður hættir á ári, væri það aðalumræðuefnið í heilan mánuð. En í alvörunni, það gerist mjög sjaldan.“

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs

Hvað með að aðlagast samfélaginu: heldurðu að það sé auðvelt fyrir þig? „Ég byrja á því að taka fram að ég er mjög innhverf manneskja. Þegar vinnudeginum lýkur finnst mér rosalega gott að vera einn.“ Verðurðu aldrei einmana? „Nei, aldrei. Ekki nokkurn tímann. Ég nýt einverunnar í botn. Það hljómar undarlega, ég veit það. Þegar ég er kominn heim í íbúðina mína byrja ég að hlaða batteríin. Ég fer kannski í sund og ræktina eða rúnta svolítið um á bílnum mínum. Ég veit ekki hvernig Íslendingar myndu bregðast við ef ég væri rosalega úthverfur einstaklingur sem væri æstur í að
kynnast sem flestum utan vinnu. Ég kann vel við ástandið eins og það er.“
Þú talar um sund og ræktina, hvar liggja áhugamálin þín? „Mér finnst mjög gott að hreyfa mig, og sérstaklega utandyra. Gönguferðir og hlaup heilla mig og þegar það er ekki allt á kafi í snjó fylgi ég góðum göngustíg sem er stutt frá íbúðinni minni. Á næsta ári ætla ég að leggja meiri áherslu á útiveru. Árið sem er að líða hefur verið átakaríkt og kallað á mikla vinnu og orku.“ Þannig að núna er vinnan í fyrsta sæti? „Já, þess vegna kom ég hingað. Mér var falið verkefni og ég vissi við hverju var búist af mér, frá utanaðkomandi hagsmunaaðilum. Ég vona að allir séu sáttir við mig, bæði framkvæmdastjórn álversins, annað starfsfólk og fólkið úti í samfélaginu sem ég hitti við störf fyrir hönd fyrirtækisins. Þetta hefur allt tekist mjög vel.“

Fjarðaál - stór vinnustaður

Kom þér á óvart að komast að því að Fjarðaál sé fjórða stærsta fyrirtækið á Íslandi? „Þú meinar þá tölfræðilega séð? Hvort sem fyrirtæki veltir 300 milljörðum á ári eða
800 milljörðum, gilda sömu reglurnar. Það kom sér vel fyrir mig að hafa oft komið hingað áður. Þannig að ég þekki strúktúrinn en það hjálpar mér vonandi til að gera hlutina rétt. Þetta var ekkert áfall að komast að þessu með stærðina. Versta tímabilið fyrir mig var reyndar eftir að ég hafði samþykkt að taka við stöðunni og þangað til ég
kom hingað.“ Hvernig þá? „Það var undirbúningurinn, því ég byrjaði strax að undirbúa mig fyrir þetta starf og átti samtal við ýmsa aðila út af því. Ég vildi vera á tánum. Ég varð að vita hvað biði mín. Og svo var þetta eiginlega tvöföld vinna vegna þess að ég var að reyna að stjórna Lista eins vel og  ég gat og afhenda stjórnartaumana til annars aðila og svo um leið að skipuleggja starfið hérna, hvað ég þyrfti að gera. Þess vegna var álagið mikið.“

Fannst þér vel tekið á móti þér á vinnustaðnum hérna? „Já. Fólkið heima hefur spurt hvernig tekið var á móti mér og ég segi eins og satt er að mér var tekið opnum örmum. Þau spyrja hvort það sé í einlægni eða hvort það sé bara, æ, hann er kominn hingað og við þurfum bara að gera það besta úr því. Ég get sagt beint frá hjartanu að það sé af einlægni. Mér var falið verk, ég tók boðinu og þá verður maður bara að kasta sér í það. Ef maður gerir það ekki, verður maður bara undir. Sumir voru kannski skeptískari en aðrir og það tekur bara tíma og tiltrú að fá þá á sitt band. Í heildina séð virðast níu af hverjum tíu starfsmönnum vera tiltölulega sáttir við
stöðuna.“

Jól í Noregi

Þar sem jólin eru á næsta leiti viljum við fræðast um jólahefðir Tor Arne. Nú ferðu heim til Noregs yfir hátíðirnar til þess að eyða tíma með fjölskyldunni. Hvernig haldið þið upp á jólin á þínu heimili? „Mér sýnist það vera ósköp svipað því sem þið gerið á Íslandi. Við skráum hjá okkur hvar við verðum að mæta svo við vitum á hvaða dögum við erum laus. Það eru auðvitað fjölskylduboð og þannig, en eftir því sem við höfum elst höfum við viljað draga úr félagslífinu og kunnað betur að meta þann tíma sem við höfum fyrir okkur. Þá á ég við hluti eins og að þurfa ekki að klæða sig upp, heldur vera bara í náttfötunum allan daginn! Ég nýt þess að líta í kringum mig, njóta þagnarinnar og gera eins lítið og ég mögulega kemst upp með.“

Svo þú notar tímann til að hlaða batteríin? „Já, algerlega. Þessi jól verða svolítið öðru vísi vegna þess að þegar ég kem heim, hef ég ekki komið þangað í tæpa þrjá mánuði. Heimsóknarúnturinn verður því stærri en vanalega, svo við getum heilsað upp á fólkið okkar og ég hlakka mikið til að hitta það. Konan mín kemur til Íslands þann 19. desember. Við stoppum í þrjá daga í Reykjavík. Þá heimsæki ég allar
túristagildrurnar sem ég hef ekki haft tækifæri til á viðskiptaferðalögum. Ég hef alltaf farið beint upp á flugvöll. Svo förum við saman heim á sunnudeginum og ég verð úti í tvær vikur.“

Þið eruð með mjög svipað jólahald í Noregi eins og við á Íslandi. Hvað verður í jólamatinn hjá ykkur? „Já, aðalhátíðin er á aðfangadagskvöld eins og á Íslandi. Matarhefðirnar fara svolítið eftir landshlutum í Noregi. Í sunnanverðum Noregi er oft fiskur á borðum, yfirleitt þorskur, eða jafnvel kalkúnn. Á vesturströndinni borða flestir lambakjöt. Í austurhlutanum, nær Osló, er rifjasteik vinsæl – hún kallast ribbe á norsku. Heima hjá mér höfum við rifjasteik á aðfangadagskvöld og kalkún á gamlárskvöld, eða öfugt.“

Hvað með jólagjafirnar í þinni fjölskyldu. Er eitthvað sérstakt á óskalistanum hjá þér varðandi jólagjöf? „Ég fæ alltaf sokkapar og geri reyndar engar kröfur. Konan mín sér um öll jólagjafainnkaupin svo ég slepp vel fyrir horn.“ En þarftu ekki að kaupa jólagjöf handa henni? „Það er eina gjöfin sem ég kaupi á hverju ári. Mér finnst alltaf hræðilega erfitt að velja gjöf og er alltaf á síðustu stundu en þetta reddast alltaf. Við töpum okkur ekki í gjafakaupum. Jólin snúast frekar um frið og ró og að njóta samveru með öðrum. Aðaláherslan var alltaf lögð á börnin en nú eru þau vaxin úr grasi. Yngsta barnið í fjölskyldunni minni er orðið fjórtán ára gamalt svo við erum ekki lengur í þeim æsingi sem einkenndi jólin í gamla daga þegar allir voru með lítil börn.“

Er einhver jólagjöf sem þú manst eftir sem er virkilega eftirminnileg? „Þá þarf ég að hugsa mjög langt aftur í tímann. Ég man þegar ég fékk fyrstu fótboltaskóna mína sem keyptir voru í búð. Þarna í lok sjöunda áratugarins og í byrjun þess áttunda, þegar ég var strákur, vorum við ekki vel efnum búin. Við vorum ekki fátæk en við áttum ekki mikið af peningum og foreldrar mínir þurftu að forgangsraða. En þessi jól eru eftirminnileg, þegar ég fékk fyrstu alvöru fótboltaskóna. Minningin situr eftir í huga mér
því ég vissi að þeir voru dýrir.“ Á þeim nostalgísku nótum kveðjum við Tor Arne og óskum honum og fjölskyldu hans gleðilegra jóla.

Sjá einnig