- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Mikið yfirflæði er af íþyngjandi reglugerðum frá Brussel þessi misserin. Svo virðist sem hver stofnunin togi í sína áttina og vart þarf að koma á óvart að í slíku reiptogi verði mönnum lítt ágengt. Markaðar eru stefnur í ólíkum málaflokkum, sem ganga þó hver gegn annarri. Í einu orðinu er allt kapp lagt á að efla samkeppnishæfni iðnaðar í Evrópu á meðan í öðru virðist helst lagt upp úr því að hækka framleiðslukostnað iðnfyrirtækja.
Margar eiga þessar stefnur sammerkt að bera skammstafanir sem nánast ómögulegt er að ráða í. Ein þeirra er CBAM sem stendur fyrir „carbon border adjustment mechanism“. Skilst mér að þar sé verið að sneiða hjá því að tala um innflutningstolla, þar sem slíkt eigi ekki upp á pallborðið hjá WTO eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
Í raun snýst CBAM um kolefnisgjöld á innflutning til Evrópu, en með þeim er ætlunin að jafna samkeppnisstöðuna gagnvart evrópskum iðnaði, sem ber nú þegar há kolefnisgjöld í ETS-kerfinu, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og fara þau gjöld ört hækkandi. Þannig var kostnaður vegna losunar á tonni af CO2 innan ETS-kerfisins 5 evrur árið 2017, en núna er verðið komið í um 80 evrur, og hefur kostnaður við losun innan ETS-kerfisins því sextánfaldast á sex árum.
Uppleggið með CBAM er að jafna kolefnisgjöld yfir landamæri þannig að allir standi jafnt að vígi á evrópskum markaði, en miðað við þau drög sem liggja fyrir stefnir þvert á móti í að samkeppnisstaðan skekkist enn frekar. Í þeim er gert ráð fyrir að nota tækifærið og hækka kolefnisgjöld enn frekar á iðnað í Evrópu, en það hefur óhjákvæmilega í för með sér að framleiðslukostnaður fer upp úr rjáfrinu, og um leið skapast hætta á að evrópsk framleiðslufyrirtæki hrekist til annarra heimsálfa.
Af hverju er það vandamál, gæti einhver spurt. Jú, ef það gerist, þá dregur það ekki aðeins úr verðmætasköpun og þar með velferð í Evrópu, heldur dýpkar það einnig loftslagsvandann, því kolefnisspor framleiðsluiðnaðar er almennt lægra innan Evrópu en utan.
Ljóst er að þessar aðgerðir ESB geta haft í för með sér alvarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þannig heyra æ fleiri greinar undir ETS-kerfið og þurfa að greiða fyrir losun. Íslensk stjórnvöld hafa lýst áhyggjum af samkeppnisstöðu millilandaflugs til og frá Íslandi ef flugfélög þurfa að greiða að fullu fyrir sína losun og eins er ljóst að kostnaður við skipaflutninga til og frá Íslandi mun hækka verulega þegar þeir falla undir ETS-kerfið. Eylandið Ísland, sem byggir afkomu sína á útflutningi, er eðlilega viðkvæmt fyrir skattlagningu á samgöngur í lofti og á legi.
Hagsmunirnir eru ekki síður stórir þegar kemur að álframleiðslu. Ljóst er að framleiðslukostnaður áls í Evrópu mun hækka með CBAM, en um leið hefur evrópskur áliðnaður lýst áhyggjum af glufum í kerfinu, sem geri álframleiðendum utan Evrópu kleift að komast hjá kolefnisgjöldum. Íslenskir álframleiðendur fara ekki fram á neina sérmeðferð, en gera kröfu um að allir sitji við sama borð. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld standi vaktina og hugi að samkeppnisstöðu íslensks áliðnaðar. Nú þegar nema gjöld íslenskra álvera fyrir losun á annan milljarð og ef áætlanir vegna CBAM og ETS ganga eftir mun sá kostnaður margfaldast á næstu árum.
Vart þarf að orðlengja, hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið. Ef horft er til ársins 2022, þá skapaði íslensk álframleiðsla fjórðung gjaldeyristekna Íslands og námu þær um 400 milljörðum. Innlendur kostnaður álfyrirtækjanna þriggja nam 176 milljörðum, þau keyptu vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja og má rekja methagnað íslenskra orkufyrirtækja til góðrar afkomu íslenskra álvera. Það er því til mikils að vinna, að viðhalda samkeppnishæfni íslensks áliðnaðar, enda sést það vel á stórum fjárfestingum íslenskra álvera hér á landi að þar er horft til langrar framtíðar.
Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst 2023