- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Það má með sanni segja að árið 2021 hafi verið viðburðaríkt í áliðnaði á heimsvísu. Munar þar mestu um verulega hækkun álverðs á heimsvísu. Má rekja það til þess að eftirspurn óx verulega þegar hjól atvinnulífsins fóru aftur að snúast af krafti um leið og hægði á heimsfaraldrinum. En það gerðist með svo skjótum hætti, að það olli orkuskorti víða um heim.
Orkuskortur og hærra álverð
Við höfum ekki farið varhluta af fréttum af orkuskorti í Evrópu, en svo alvarlegur var skorturinn í Kína að í búðum loguðu kertaljós og ljósin slokknuði í heilu hverfunum. Stjórnvöld urðu því að grípa til margvíslegra ráðstafana, m.a. að skrúfa niður í framleiðslu á áli. Ekki er búist við því að jafnvægi komist aftur á orkumarkaðinn þar fyrr en um mitt næsta ár, en samkvæmt greiningaraðilum mun á næstu árum heldur hægja á vexti álframleiðslu í Kína.
Hækkandi álverð hefur verið mikilvæg innspýting í rekstur álvera hér á landi eftir taprekstur síðustu ára og greiningaraðilar telja horfur góðar á mörkuðum að minnsta kosti út næsta ár. Áhrifanna er þegar farið að gæta verulega hér á landi. Ekki aðeins í stórbættri afkomu álvera, heldur er ábati hérlendra orkufyrirtækja verulegur, m.a. vegna álverðstengingar raforkuverðs, eins og sjá má á nýlegum uppgjörum þeirra, en orkufyrirtækin eru sem kunnugt er að mestu í opinberri eigu.
Verðmætasköpun og áframvinnsla
Þá er þegar ljóst að áhrifin verða víðtæk á þann klasa fyrirtækja sem þjónustar álverin, en í fyrra keyptu álverin vörur og þjónustu fyrir um 25 milljarða af hundruðum fyrirtækja og er þá raforka ekki meðtalin. Nú þegar hefur Norðurál hafist handa við fjárfestingarverkefni upp á 17 milljarða í nýjum steypuskála, en með frekari áframvinnslu er ekki aðeins stigið skref í virðiskeðjunni, heldur einnig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Öll álverin hér á landi hafa stigið þýðingarmikil skref í áframvinnslu áls og er álið frá Íslandi nýtt í fjölbreytta framleiðslu á meginlandi Evrópu.
Eftir sem áður eru mikilvægustu verkefnin á sviði loftslagsmála. Það er þar sem á eftir að skilja á milli í álframleiðslu á heimsvísu, þeirra sem taka forystu og hinna sem dragast aftur úr. Íslenskur áliðnaður hefur nú þegar dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990 og hvergi í heiminum er kolefnisfótspor álframleiðslu lægra. En krafan er á að ná enn meiri árangri og má segja að kapphlaupið sé hafið. Til marks um það skrifuðu forstjórar íslenskra stóriðjufyrirtækja, þar á meðal allra álveranna þriggja, undir viljayfirlýsingu með stjórnvöldum sumarið 2019 um að stefna að kolefnishlutleysi árið 2040.
Þróunarverkefni og grænt bókhald
Öll hafa álverin gert aðgerðaáætlun til að draga úr losun af venjulegri starfsemi, eins og kemur fram í sameiginlegri stefnumörkun íslensks atvinnulífs á vettvangi Grænvangs, en einnig eru margvísleg þróunarverkefni í gangi hjá öllum álverunum á nýrri tækni til að draga úr losun frá framleiðsluferlinu sjálfu. Það er fyrir löngu orðin kjarnastarfsemi í álverum hér á landi að draga úr áhrifum á umhverfið og má m.a. fræðast um það í grænu bókhaldi álveranna á vef Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Samáls.
Nú þegar er ál sem framleitt er á Íslandi markaðssett sem loftslagsvænt ál af öllum álfyrirtækjunum þremur og var ánægjulegt að í upphafi árs gerði Norðurál gerði stóran sölusamning á Natur‐Al™ áli til austurrísks framleiðslufyrirtækis. Það mun hraða þróuninni á heimsvísu í loftslagsmálum þegar viðskiptavinir álvera fara almennt að líta kolefnisfótspors áls í sínum innkaupum. Þar hefur Ísland samkeppnisforskot – og þar stefnir íslenskur áliðnaður á að gera enn betur.