- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Heilbrigðan vöxt í eftirspurn eftir áli má rekja til álbyltingar í bílaframleiðslu, en ál léttir bílana, minnkar eldsneytisnotkun og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kom fram hjá Pétri Blöndal framkvæmdastjóra Samáls í viðtali sem Agnes Bragadóttir tók við hann fyrir Morgunblaðið.
„Spurn eftir áli jókst um 5,3%,“ segir í yfirskrift fréttarinnar, sem er svohljóðandi:
Meðalverð á áli var 1.600 dollarar í fyrra en er núna rétt um 1.900 dollarar, samkvæmt upplýsingum Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls.
Pétur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ljóst væri að til lengri tíma væri æskilegt að jafnvægi væri í gengi krónunnar, en líkt og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag hefur gengisvísitalan ekki verið lægri síðan í júlí 2008. Bandaríkjadalur var skráður á tæpar 107 krónur í gær.
„Sveiflur eru ekki góðar og vissulega finna álverin fyrir hækkun á launakostnaði og sterkara gengi. Það hafa verið gríðarlegar hækkanir á launakostnaði undanfarið samfara því að krónan er að styrkjast, þannig að það má segja að þetta komi með tvöföldum þunga á álverin,“ sagði Pétur.
„Ástæðuna fyrir hækkandi álverði má m.a. rekja til þess að eftirspurn jókst um 5,3% í heiminum í fyrra. Eftirspurn heldur því áfram að vaxa ört. Þar munar mest um vaxandi notkun áls í bílaiðnaði, en með því eru bílaframleiðendur að koma til móts við kröfur stjórnvalda um sparneytnari farartæki og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Ál er einnig lykilefni í rafbílum vegna léttleikans, sem vegur á móti þungum rafhlöðum og eykur vegalengdina sem þeir komast á hleðslunni,“ sagði Pétur.
Pétur segir að ef til vill spili líka inn í að eitt af síðustu verkum fráfarandi Bandaríkjastjórnar hafi verið að senda kæru á hendur Kínverjum fyrir ólögmætar niðurgreiðslur á aðföngum til áliðnaðar. Þegar hafi Evrópusambandið, Rússland, Japan og Kanada tekið undir það. Þessi ríki muni ræða saman um lausn vandans á þessu ári. Það kunni að hafa áhrif á væntingar á markaðnum og spila inn í hækkun álverðs.