- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Álverð hefur nú hækkað um liðlega 11% frá áramótum. Er þetta nokkur viðsnúningur frá þróun á síðari hluta ársins 2011 en álverð lækkaði umtalsvert síðustu mánuði ársins. Við lokun markaða í gær nam álverð 2.218 bandaríkjadölum á tonn, samanborið við 1.992 bandaríkjadali á tonn um síðustu áramót.
Helstu ástæður hækkana á undanförnum dögum er aukin almenn bjartsýni fjárfesta, sterkari eftirspurn eftir áli en ráð var fyrir gert. Þá hafa álfyrirtæki tilkynnt um samdrátt í framleiðslu sinni í upphafi þessa árs með lokun eldri og óhagkvæmra álvera. Búist er við því að fleiri fyrirtæki kunni að tilkynna um samdrátt í framleiðslu á þessu ári, en sem kunnugt er tilkynnti Alcoa um 12% samdrátt í framleiðslu fyrir skömmu. Ekki er gert ráð fyrir að dregið verði úr álframleiðslu hér á landi.
Álverð er enn nokkuð frá hápunkti sínum á síðasta ári. Meðalverð áls á síðastliðnu ári nam 2,420 bandaríkjadölum á tonn en hæst fór álverð innan ársins í um 2.800 bandaríkjadali. Verð við lokun markaða í gær var um 8% undir meðalverði síðasta árs.