Miklar sviptingar hafa verið á alþjóðlegum álmörkuðum á þessu ári, en áfram stefnir þó í heilbrigðan vöxt í eftirspurn áls upp á 4-5% á næstu árum. Áætlað er að eftirspurn á heimsvísu nemi um 66 milljónum tonna af frumframleiddu áli á þessu ári og er það um milljón tonnum meira en framleitt er, sem þýðir að birgðir dragast saman í heiminum. Útlit er fyrir að áfram verði umframeftirspurn á næsta ári.
Ál notað til léttingar bílaflotans
Það sem knýr áfram eftirspurnina er léttleiki álsins með stöðugt hærra hlutfalli áls í bifreiðum, en það er leið bílaframleiðenda til að létta bílaflotann og mæta kröfum stjórnvalda um minni brennslu eldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig er ál hluti af lausninni í loftslagsmálum. Það gerir líka rafbílum á borð við Teslu kleift að komast lengra á hleðslunni, álklæðningar einangra byggingar og draga úr orkunotkun og álumbúðir lengja endingartíma matvæla. Þá leiðir rafmagn vel og nýtist í að tengja nýja endurnýjanlega orkukosti við raforkukerfið.
Árið fór vel af stað, en róðurinn hefur verið þungur í rekstri álvera á seinni hluta ársins. Það hleypti spennu í markaðinn þegar Bandaríkin lögðu tolla á innflutning á áli. Aðgerðirnar beindust fyrst og fremst að Kína, enda hefur verið sýnt fram á að stuðningur kínverskra stjórnvalda við álframleiðendur þar í landi skekki samkeppnisstöðuna á heimsvísu. Framleiðsluaukningin þar á þessari öld er mikið áhyggjuefni, enda er álframleiðslan þar í landi að langmestu leyti drifin af kolum og losunin því tífalt meiri en hér á landi. Það verður líka seint sagt að í Kína gildi lögmál framboðs og eftirspurnar.
Óvissa á súrálsmörkuðum
Enn hefur aukið á óvissuna að Bandaríkjamenn hafa beitt refsiaðgerðum gegnum Rusal og krafist þess að Oleg Deripaska losi um tök sín á fyrirtækinu. Deripaska hefur orðið við því og er það síðast að frétta af málinu að bandarísk stjórnvöld hafa tekið sér frekari umþóttunartíma fram í janúar. Óvissan hefur valdið rússneska álrisanum erfiðleikum og m.a. haft áhrif á rekstur Rusal á álverinu Kubal í Svíþjóð og súrálsverksmiðjum á Írlandi og í Jamaíka.
Það hefur átt þátt í hækkun á súrálsverði, en til framleiðslu á einu tonni af áli eru notuð tvö tonn af súráli. Ofan á það bætast námaverkföll í Ástralíu og miklar rigningar í Brasilíu fyrr á þessu ári, sem leiddu til þess að AluNorte, stærsta súrálsverksmiðja í heiminum, sem er í eigu Norsk Hydro, starfar einungis á hálfum afköstum. Í upphafi var óttast að þar hefði orðið mengunarslys, en fljótlega leiddi óháð úttekt annað í ljós og er búist við að verksmiðjan komist aftur í fullan gang á næsta ári. Er leitt líkum að því að það muni m.a. leiða til þess að jafnvægi komist aftur á súrálsmarkaðinn.
Bjartari horfur fyrir næsta ár
Einnig er notað hálft tonn af rafskautum fyrir hvert tonn af áli sem framleitt er og hefur verð á rafskautum hækkað verulega á þessu ári. Þegar horft er til langtímaþróunar á innlendum kostnaði hefur hann einnig hækkað. Þá hefur verð á losunarheimildum innan ETS, viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir, margfaldast. Mikilvægt er að þeir fjármunir skili sér aftur til Íslands til verkefna á sviði loftslagsmála.
Bjart var yfir álmörkuðum framan af ári, en álverð hefur lækkað á síðustu vikum og mánuðum og er nú komið undir 2 þúsund dollara á tonnið. Til lengri tíma litið telja greiningaraðilar líklegt að álverð muni hækka aftur og horfa þeir þá til umframeftirspurnar á mörkuðum. Það mun þá vonandi leiða til þess að róðurinn verði léttari árið 2019, en í sumar verða 50 ár eru liðin frá því álframleiðsla hófst á Íslandi. Engin leið er að hugsa sér efnahagslífið á Íslandi án þeirrar uppbyggingar í orkumálum og iðnaði sem sú iðnbylting skapaði.
Horft til langs tíma með þjóðarsjóði
Og það er fagnaðarefni að þjóðarsjóður skuli verða að veruleika á þessum tímamótum, þar sem arðurinn af orkuauðlindinni safnast fyrir. Eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst, þá er þjóðarsjóðnum ætlað að mæta sambærilegum áföllum eða harðindum og þjóðin varð fyrir á fullveldisárinu 1918, en þá dundu yfir spænska veikin, eitt stærsta Kötlugos síðan land byggðist og frostaveturinn mikli.
Með þjóðarsjóðnum er horft til langs tíma. Að nýta beri hagstæð skilyrði í þjóðarbúskapnum sem skapast hefur með farsælli nýtingu auðlinda til að sýna fyrirhyggju og ábyrgð í ríkisfjármálum og búa þannig í haginn fyrir framtíðina. Það er við hæfi á 100 ára fullveldisafmælinu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2018. Netfangið er pebl@samal.is.