- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í áramótablaði Viðskiptablaðsins skrifar Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, um kolefnislágt ál:
Eitt af því sem stendur upp úr á árinu er krafa stjórnvalda og almennings, einkum á Vesturlöndum, um kolefnislágar afurðir. Þar er sóknarfæri fyrir íslenskan orkuiðnað. Það er engin tilviljun að á stærstu álsýningu heims, sem haldin er í Dusseldorf annað hvert ár og fór fram í lok nóvember, var Fjarðaál áberandi í kynningu Alcoa. Þar var hleypt af stokkunum kolefnislágum vörum, Sustana, annarsvegar áli sem framleitt er með vatnsafli og hinsvegar endurunnu áli. Það eru tíðindi að slík aðgreining sé gerð á hrávörumarkaði og tákn nýrra tíma.
Eins og komið hefur fram er ál hvergi framleitt í heiminum með lægra kolefnisfótspori en hér á landi. Ef horft er til Kína þar sem álframleiðsla er einkum að byggjast upp, þá er 90% áls framleitt með kolum og losun gróðurhúsalofttegunda því tífalt meiri en hér á landi. Ál er því ekki sama og ál. Ef horft verður í ríkari mæli til kolefnisfótspors áls getur það tryggt samkeppnis hæfni íslensks áliðnaðar.
Íslensk og norsk álver leggja sitt af mörkum til loftslagsmála með þátttöku í ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir fyrir iðnað og flug. Um 55% af allri losun í Evrópu er í þeim potti og umhverfis verndarsamtök eru farin að berjast fyrir því að fleiri iðngreinar falli þar undir, enda er það skilvirkasta leiðin til að draga úr losun.
Í nýjum drögum að stefnumörkun ETS til ársins 2030 felst að losunarheimildir verða skornar niður jöfnum skrefum um 43% miðað við árið 2005. Ef atvinnulífinu tekst ekki að draga úr losun sem því nemur, má búast við að verð á losunarheimildum rjúki upp, og er kerfið hugsað þannig að með því skapist hvati til rannsókna og þróunar á nýjum leiðum til að mæta losunarmarkmiðum.
Það neikvæða við þetta fyrirkomulag er að það nær ekki til iðnaðar utan Evrópu, sem getur skekkt samkeppnisstöðuna og hrakið framleiðsluna til landa sem huga lítið að loftslagsmálum eða kolefnisgjöldum. Þetta kallast kolefnisleki á máli bjúrókratans. Þess vegna er mikilvægt er að bregðast við losun með hnattrænum hætti, ekki staðbundnum, þannig að þjóðir utan Evrópu axli einnig ábyrgð.
Það vakti nokkurn ugg á fundi Evrópsku álsamtakanna í fyrrahaust þegar fregnir bárust af því að álverð hefði farið niður fyrir 1.500 dollara á tonnið. Rofað hefur til síðan þá og er verðið komið í um 1.750 dollara þegar þetta er skrifað. Það sem einkum þrýsti álverði niður er óvissa um hvort og þá hversu mikið Kínverjar hyggjast auka útflutning, en dregið hefur úr vexti eftirspurnar þar í landi án þess að dregið hafi að ráði úr aukningu framleiðslunnar og fyrir vikið safnast upp birgðir.
Það er hinsvegar heilbrigðismerki að eftirspurn eftir áli eykst í öllum heimsálfum á árinu 2016, þó að það hægi á vextinum í Kína. Náðst hefur jafnvægi á heimsmarkaði og er útlit fyrir litla umframeftir spurn á þessu ári. CRU spáir því að eftirspurnin nemi 59,1 milljón tonna en framboðið 58,95 milljónum tonna. Þá er jákvætt að birgðir utan Kína fara minnkandi.
Á móti lágu álverði á þessu ári kemur að verð á aðföngum til álvera lækkaði á heimsvísu og er þar einkum horft til súráls, rafskauta og raforku. Verð á súráli hefur þó hækkað verulega á undanförnum vikum.
Umræður skapast reglulega um það hér á landi hvort verð á raforku til álvera hér á landi sé sanngjarnt. Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlega greiningarfyrirtækinu CRU, sem sérhæfir sig í orkumörkuðum og álmörkuðum, er vegið meðtaltal raforkuverðs sem greitt er af íslenskum álverum samkeppnishæft en þó ekki í lægsta þriðjungi þegar litið er til álvera utan Kína. Nánar tilgreint eru „um 34% áls sem framleitt er utan Kína framleitt við lægra orkuverð en hið vegna meðaltal á Íslandi.“
Ef litið er til afkomu íslenskra orkufyrirtækja er ekki annað að sjá, en að arðsemin sé vel ásættanleg fyrir Íslendinga, enda óx eigið fé þeirra um hátt í 200 milljarða frá árinu 2006 til 2015. Það segir sína sögu að fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar tala um að fyrirtækið muni skila árlegum arðgreiðslum til þjóðarbúsins innan fárra ára upp á 10–20 milljarða, án þess að dregið verði úr getu þess til frekari fjárfestinga. Til að setja það í samhengi, þá setti ríkið um 25 milljarða í rekstur háskóla og rannsóknir samkvæmt fjárlögum ársins 2015.
Í nýrri skoðanakönnun Capacent sem gerð var fyrir Samál kemur fram að 57 ,6% þjóðarinnar telja að íslenskur áliðnaður skipti miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf en 23,4% eru á öndverðum meiði. Og tölurnar tala sínu máli. Um 92 milljarðar af gjaldeyristekjum eða rúm 38,7% af heildarútflutningi álvera á Íslandi streymdu inn í íslenskt hagkerfi árið 2015. Það er í takt við þróunina síðustu ár, en innlendur kostnaður hefur að jafnaði numið á bilinu 80–100 milljörðum eftir því hvernig staðið hefur á fjárfestingum.
Það eru ekki aðeins raforkufyrirtækin sem njóta góðs af. Tæpir 30 milljarðar fóru í kaup á vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja og er þá raforka undanskilin. Um 16 milljarðar fóru í laun og launatengd gjöld en viðurkennt er að álverin greiða hærri laun en almennt tíðkast á vinnumarkaði. Loks námu skattar og opinber gjöld um fimm milljörðum og styrkir til samfélagsmála um 200 milljónum.
Íslenskur áliðnaður skiptir miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf.
Viðskiptablaðið, 29. desember 2016.