- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Ál er hluti af lausninni“ var yfirskrift vel sótts ársfundar Samáls sem haldinn var í Kaldalóni í Hörpu að morgni 9. maí. Loftslagsmálin voru í brennidepli og hér má sjá stutta samantekt frá fundinum um þau.
Fundargestum gafst kostur á að skoða nýjan rafbíl Jaguar I-Pace og eins spreyta sig á öryggisþjálfun í sýndarveruleika, en öryggismálin eru jafnan í forgrunni í álverum eins og fræðast má um hér.
Innlendur kostnaður 86 milljarðar
Útflutningsverðmæti áls námu um 230 milljörðum og innlendur kostnaður um 86 milljörðum. Þetta kom fram í upphafserindi Magnúsar Þórs Ásmundssonar stjórnarformanns Samáls og forstjóra Fjarðaáls.
Hér má hlýða á það.
Af innlendum kostnaði nam raforka um 40 milljörðum og er þá miðað við raforkunotkun álvera og meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar. Þá keyptu álverin innlendar vörur og þjónustu fyrir 23 milljarða, laun og launatengd gjöld námu um 19 milljörðum, opinber gjöld um 4 milljörðum og styrkir til samfélagsmála 185 milljónum.
Magnús rifjaði upp að álverið í Straumsvík hefði aðeins verið 33 þúsund tonn þegar það hóf starfsemi árið 1969, en í dag væri framleiðslugetan komin yfir 200 þúsund tonn og afurðirnar sérhæfðar málmblöndur fyrir um 100 viðskiptavini í um 20 löndum. Ljóst væri að ef ekkert hefði verið fjárfest í álverinu frá stofnun þess, þá væri það ekki starfandi í dag. Það undirstrikaði mikilvægi stöðugra fjárfestinga og uppbyggingar í áliðnaði, ekkert síður en í sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum.
En til þess þyrfti rekstrarumhverfið hér á landi að vera samkeppnishæft.
Magnús benti á að í nýrri skýrslu OECD kæmi fram að álframleiðsla væri niðurgreidd af stjórnvöldum allt í kringum okkur, Kína, Mið-Austurlöndum og jafnvel Kanada. Og ef við horfum til Noregs, þá greiða stjórnvöld niður það orkuverð sem uppgefið er til stóriðju, og þannig er það líka í Þýskalandi og Frakklandi. Hann sagði því mikilvægt að stjórnvöld legðu raunsætt mat á samkeppnisstöðu íslensks orkuiðnaðar – nú þegar unnið væri að mótun orkustefnu fyrir Ísland.
Horft til framtíðar á tímamótum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á ársfundinum. Í erindi sínu hrósaði hún frumkvæði álvera og fleiri fyrirtækja í MeToo-umræðunni, en Magnús hafði komið inn á þau mál í sínu erindi og lýst hvernig tekið hefði verið á þeim hjá Fjarðaáli. „Ég vil nota tækifærið hér í upphafi míns stutta ávarps til að þakka ykkur fyrir þau viðbrögð, því það er gríðarlega mikilvægt hverju samfélagi að tryggja það að bæði karlar og konur upplifi öruggt samfélag – að við þurfum ekki að óttast það að verða fyrir áreitni eða ofbeldi á okkar vinnustöðum,“ sagði Katrín.
Hún bætti við að mikilvægt skref væri að jafna hlut kvenna og karla á vinnustöðum, sem gerði alla vinnustaði betri, að hafa bæði karla og konur við borðið – og helst í eins jöfnum mæli og unnt er því það breytti ákvarðanatökunni. Hún sagði að ráðstefna yrði haldin í haust um þessi efni og það væri áhugavert að fá þangað inn sögur um hvernig brugðist hefði verið við í atvinnulífinu.
Hér má hlýða á erindi Katrínar.
Katrín óskaði álfyrirtækjum til hamingju með 50 ára afmælið og sagði það merkilegan áfanga í sögu þeirra. „En það sem mér finnst mikilvægt að fagna er að þið eruð að horfa til framtíðar. Og ég held það sé gríðarlega mikilvægt að við gerum það saman eins og kom fram í máli Magnúsar hér áðan, þar sem þið eruð að setja umhverfis- og öryggismálin í brennidepil. Það er ekki bara góð áhersla á þessum tímamótum, heldur líka lífsnauðsynleg.“
Hún sagðist ætla að nýta tíma sinn á fundinum til að tala um loftslagsmálin. „Ég hitti ekki það unga fólk í dag sem ekki vill tala um loftslagsmál. Og ekki bara tala um þau, heldur segir: „Nú er ykkar að bregðast við og grípa til aðgerða.“ Þetta er ekki bara hreyfing hjá ungu fólki á Íslandi, þetta er hreyfing um allan heim. Ég var í Bretlandi í síðustu viku og þar var ekki talað um neitt annað en loftslagsmál. En kannski eru þau líka fegin að þurfa þá ekki að tala um Brexit, að fá hvíld frá því umræðuefni.“
Katrín sagði að fyrstu áþreifanlegu aðgerðirnar í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum yrði kynntar í maí, annarsvegar um hvernig ráðist yrði í orkuskipti í samgöngum og hinsvegar um aukna kolefnisbindingu. Markmiðið væri að Ísland yrði kolefnishlutlaust árið 2040. Hún fagnaði þeirri áherslu sem sett væri fram með yfirskrift ársfundarins, að ál væri hluti af lausninni í loftslagsmálum. „Við þurfum að setja okkur í sóknarstellingar. Og við þurfum að setja okkur metnaðarfull markmið. Og við munum aldrei ná markmiðinu um kolefnislaust Ísland 2040 nema við gerum það saman. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á það að stjórnvöld og atvinnurekendur nái saman um að setja sér markmið og vinna að aðgerðum til að ná þeim markmiðum. Ég hef fundið fyrir miklum áhuga atvinnulífsins á loftslagsmálum. Og ég vil ítreka að það sama á við þar og þegar kemur að kynjajafnrétti að það er mjög ánægjulegt og það skiptir öllu.“
Hún sagði ánægjulegt að segja frá því að undirbúningur stofnunar samráðsvettvangs stjórnvalda og atvinulífs um loftslagsmál og útflutning grænna lausna væri langt kominn og þar hefðu stjórnvöld lagt ríka áherslu á að fyrirtæki mörkuðu sér stefnu um samdrátt í losun og kolefnishlutleysi. Í salnum væru forsvarsmenn fyrirtækja sem hefðu mikið að segja um hvort árangur næðist á næstu árum. Tæknilausnir til að draga frekar úr losun varðandi flug væru skammt á veg komnar, en þegar kæmi að lausnum sem gætu nýst stóriðjunni værum við lengra á veg komin. „Við eygjum í sjónmáli lausnir sem munu í framtíðinni geta þýtt kolefnishlutlaus álver. Okkur ber skylda til að nýta þær lausnir, sýna fram á að okkar litla land geti verið í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“
Katrín sagði kostnaðinn við losunarheimildir hafa hækkað verulega í ETS-viðskiptakerfinu og umhugsunarefni ef hann jafnaðist á við kostnaðinn við að dæla koltvísýringi niður í basaltrík jarðlög og binda hann þar um aldur og ævi, eins og gert væri í Carbfix-verkefninu á Hellisheiði. „Ég nefni þetta dæmi því að verðþróunin og hinar öru tæknibreytingar beinlínis kalla á okkur og þessa lausn þarf að skoða gaumgæfilega fyrir áliðnaðinn sem og aðrar mögulegar lausnir.“
Hún sagði að fjórða iðnbyltingin ásamt loftslagsbreytingum væru líklega tvær stærstu áskoranir sem blöstu við íslensku samfélagi. „Þar held ég líka að lausnirnar muni fara saman. Tæknibreytingar munu skipta máli í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Stjórnvöld munu setja aukið fé í rannsóknir og nýsköpunar í verkefni sem munu skipta máli fyrir loftslagið. Og þar skiptir öllu einmitt að við setjum okkur í sóknarhug og tryggjum það að tæknibreytingarnar muni ekki stýra okkur heldur að við munum nýta tæknibreytingarnar til framfara fyrir okkur öll.“
Heildarframlag áliðnaðar 1.150 milljarðar
„Verðmætasköpun í hálfa öld“ var yfirskrift erindis Ingólfs Benders, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, þar sem hann gerði skil þeim framförum sem orðið hafa í íslensku samfélagi frá því álframleiðsla hófst á Íslandi.
Hér má hlýða á erindi Ingólfs.
Landsframleiðsla á mann hefur vaxið úr því að vera í meðallagi í Evrópu í að vera helmingi meiri en almennt tíðkast – og hafa þó lífskjör batnað verulega um alla álfuna. Íslendingar hafa með útflutningi á áli fengið nýja stoð í efnahagslífið sem dregur verulega úr sveiflum og skapar dýrmætan gjaldeyri, auk þess sem laun í áliðnaði eru vel yfir meðallagi og spennandi tækifæri hafa skapast í orkuiðnaði.
Í samantekt sem Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, teflir fram á ársfundinum kemur m.a. fram að útflutningur á iðnaðarvörum hefur vaxið úr 11 milljörðum í 321 milljarð á föstu verðlagi, sem er aukning upp á hvorki meira né minna en 2.660% og munar þar mestu um álið. Alls reiknast honum svo til að með óbeinu framlagi hafi heildarframlag áliðnaðar til innlendrar verðmætasköpunar verið 1.150 milljarðar á þeirri hálfu öld sem liðin er. En þar munar auðvitað mest um framlagið síðasta áratuginn eða frá því Fjarðaál hóf starfsemi árið 2008.
Ef við horfum til dæmis á launakostnað, þá féllu 140 milljarðar í hlut starfsmanna í áliðnaði frá 2008 til 2017, en upphæðin tvöfaldast ef við horfum alveg aftur til ársins 1973. Ástæðan er sú að áliðnaðurinn var auðvitað mun smærri í sniðum fyrstu áratugina.
Mikilvægt að horfa hnattrænt á loftslagsmálin
En það voru loftslagsmál og umhverfismál sem voru í forgrunni á fundinum, en þau eru kjarnastarfsemi álvera þar sem mikil áhersla er lögð á að lágmarka áhrif á umhverfið. Steinunn Dögg Steinsen framkvæmdastjóri umhverfis- og öryggismála hjá Norðuráli gerði skil þeim árangri sem náðst hefur, en kolefnislosun álvera hefur dregist saman um 75% frá árinu 1990.
Hér má hlýða á erindi Steinunnar.
Hún sagði að það gleymdist oft í umræðunni að loftslagsmálin væru hnattræn í eðli sínu. Það gerði því bara illt verra að draga úr losun á einum stað, til þess eins að hún ykist á öðrum. Stærsta framlag álframleiðslu á Íslandi fælist í að notuð væri endurnýjanleg orka til að knýja framleiðsluna. Ástæðan er sú að almennt er það orkuvinnslan sjálf sem losar mest þegar ál er framleitt.
Ef við horfum út fyrir landsteinana, þá er álframleiðsla í Kína að mestu knúin með kolum og losunin því allt að tífalt meiri og í Mið-Austurlöndum er hún knúin með gasi sem losar um sexfalt meira. Það kom fram í máli Steinunnar að ef allt ál væri framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og hér á Íslandi, þá myndi sparast losun upp á 550 milljónir tonna á ári af CO2 ígildum. Til samanburðar er heildarlosun Íslands um 4,5 milljónir tonna.
Öryggisþjálfun í sýndarveruleika
Nýsköpun í öryggismálum var umfjöllunarefni Kristínar Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra AMS, sem er rannsóknarstofnun álvera á Norðurlöndum í öryggis-, heilsu og umhverfismálum. Fyrr í vikunni var aðalfundur AMS einmitt haldinn hér á landi og vinnustofa í áhættustýringu.
Hér má hlýða á erindi Kristínar.
Það má heita nýstárlegt í uppbyggingu samtakanna að í stjórn og í verkefnum á vegum samtakanna er jafnt hlutfall stjórnenda og starfsmanna álvera og sagði Kristín það lykilinn að því að ná árangri í þessum málum. Hún sagði öruggan vinnustað fela í sér að stjórnkerfið og vinnustaðamenningin væru í jafnvægi og styddu hvort annað. „Til þess að það geti gerst er mjög mikilvægt að starfsmenn séu hluti af því að setja upp stjórnkerfið. Ef þeir taka þátt í því, þá geta þeir svarað af hverju stjórnkerfið er eins og það er.“
Öryggismálin eru einn helsti vaxtarbroddur í nýsköpun og snjallvæðingu í álverum, en til þess eru m.a. notuð öpp, farsímaleikir og sýndarveruleiki. „Við getum þjálfað starfsmenn í hættulegum aðstæðum án þess að setja þá í aðstæðurnar,“ sagði hún. „Sýnt hefur verið fram á að 33% meiri upplýsingar sitja eftir við að ganga í gegnum aðstæður í sýndarveruleika heldur en að horfa á myndbönd.“
Hún kynnti m.a. þjálfunarbúnað í sýndarveruleika sem hannaður var af Statnett, landsneti þeirra Norðmanna, en ársfundargestum gafst kostur á að prófa þann búnað að fundi loknum.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Þá rýndi Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, í íslenskan áliðnað og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hún sagði heimsmarkmiðin fjárfestingu í stórum draumum. Til þess að þau gengju upp þyrftu þau að vera leiðarljós í stefnumótun, nýsköpun, vísindaþekkingu og tækniþróun samfélaga. Einnig kom hún inn á sjálfbæra orku og nýsköpun og uppbyggingu og nefndi sem dæmi um sjálfbæra þróun endurvinnslu áls og hringrásarhagkerfið.
Hér má hlýða á erindi Hrundar.
„Það er margt til eftirbreytni í áliðnaði þegar kemur að því að endurvinna ál,“ sagði Hrund og nefndi að hann væri innblástur fyrir nýsköpun og tækniþróun og vísindi í tengslum við plast. „Það er það sem skiptir svo miklu máli, að við hugsum hvern iðnað þannig að við erum líka að blása öðrum í brjóst í öðrum geirum, til að breyta og bæta hvernig við gerum hlutina.“
Hún sagði spennandi að fylgjast með Elysis, þróunarverkefni á kolefnislausum skautum sem er í farvegi hjá Rio Tinto, Alcoa, Apple og kanadískum stjórnvöldum. En að lokum lagði hún áherslu á heimsmarkmiðið um nýsköpun og uppbyggingu. „Það er nýsköpun og tækniþróun og vísindaþekking sem mun hjálpa okkur að mæta heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og gæta þess að jörðin okkar verði ekki steikt á pönnu.“ Hún klykkti út með að víst gætum við haft áhrif sem einstaklingar, svo sem á aðra geira og menntun, - „allt sem við gerum hefur áhrif.“
Afrakstur sprittkertaátaks á loftslagsráðstefnu
Í lok fundar fór Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, yfir endurvinnslu áls og hringrásarhagkerfið með því að segja sögu, þar sem öll þjóðin kom við
Hann rifjaði upp söfnunarátak sprittkerta, sem Samál átti frumkvæði að, en því átaki var hleypt af stokkunum fyrir jólin 2017. Undirtektir almennings voru frábærar og varð það til þess að söfnun áls í sprittkertum varð varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna. Í kjölfarið var álið brætt af Al álvinnslu, en það það fyrirtæki endurvinnur álgjallið sem til fellur í álverum, breytir úrgangi í hráefni. Svo voru fjögur hönnunarteymi fengin til að hanna hversdagsmuni í tilveruna úr endurunnu áli í samstarfi við Málmsteypuna Hellu, en það voru Sigga Heimis, Ingibjörg Hanna, Olga Ósk og Studio Portland. Var það efniviður sýningarinnar #Endurvinnumálið á afmælisopnun Hönnunarmars.
Um sumarið vann svo stóll af sýningunni, sem hannaður er af Sölva Kristjánssyni hjá Studio Portland, hönnunarsamkeppni um sjálfbæra stóla á vegum Norræna ráðherraráðsins. Sigurstólar frá hverju Norðurlandanna voru svo sýndir á loftslagsráðstefnunni í Katowice í desember og í Norræna húsinu á Hönnunarmars fyrr á þessu ári. Þetta var því saga sem fór í hring hjá Pétri og gott dæmi um það þegar vel tekst til með hringrásarhagkerfið.
Í lok fundar afhenti svo Pétur aðstandendum Studio Portland 340 þúsund króna styrk til gerðar listaverks sem rísa mun við vaðlaugina í Hljómskálagarðinum, en það verður framleitt úr áli af Málmsteypunni Hellu.