- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Blikur eru á lofti í álframleiðslu á heimsvísu og margvíslegar áskoranir sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir. Tækifærin eru þó að sama skapi til staðar, segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í samtali við Morgunblaðið. Hér má lesa viðtalið:
Áskoranir í álframleiðslu á heimsvísu
Álframleiðsla í heiminum stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum. Ál, eins og aðrar hrávörur, lækkaði talsvert í verði á síðasta ári eða um 18,7%. Verðið hefur ekki verið lægra síðan í efnahagshruninu 2008. Aukið framboð á ódýru áli frá Kína er talið eiga talsverðan hlut að máli en eftirspurnin, sem hefur aukist verulega undanfarin ár, hefur þó ekki náð að halda verðinu uppi. Þetta hefur skilað sér í lækkandi verði hlutabréfa í álfyrirtækjum og erfiðum rekstri. Þetta er ekki bara að gerast úti í hinum stóra heimi. Þetta skilar sér til Íslands og hefur áhrif á íslenskt efnahagslíf en álframleiðsla hefur staðið undir drjúgum hluta af útflutningstekjum þjóðarinnar um árabil. Vinnudeila starfsmanna álversins í Straumsvík hefur verið áberandi í fréttum og virðist í algjörum hnút. Staðan í greininni virðist því vera nokkuð dökk ef marka má þennan inngang og því nærtækast að spyrja hvort það séu tækifæri í stöðunni fyrir álfyrirtækin og í hverju þau liggja? Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, fær það erfiða hlutverk að finna björtu litina til að fylla myndina.
„Það er rétt að það eru áskoranir í álframleiðslu á heimsvísu,“ segir Pétur. „Þar munar mestu um að hægst hefur á vexti eftirspurnar í Kína, en á sama tíma hefur ekki dregið úr aukningu framboðs í þessu miðstýrða hagkerfi. Kína framleiðir yfir helminga af öllu áli í heiminum, þannig að um munar þegar flæðir upp úr því baðkari. Það er áhyggjuefni að stærstur hluti álframleiðslunnar þar er knúinn af kolaverum, þannig að losun gróðurhúsaloftegunda á hvert framleitt tonn er allt að tífalt meiri en hérlendis. Almennt gildir raunar um álframleiðslu í heiminum að losunin er mun meiri af orkuvinnslu en sjálfri álframleiðslunni. Losun á hvert framleitt tonn er því hvergi minni en hér á landi.
Það jákvæða við stöðuna á álmörkuðum er að eftirspurn fer ört vaxandi í heiminum og má fyrst og fremst rekja það til æ meiri notkunar áls í farartækjum. Ástæðan er sú að með því er dregið úr eldsneytisbrennslu og um leið úr losun gróðurhúsalofttegunda, en bílaframleiðendur eru undir sífellt meiri þrýstingi frá stjórnvöldum um að mæta markmiðum í loftslagsmálum. Þar er ál hluti af lausninni, þar sem það er léttur og um leið sterkur málmur, og mikil þróun hefur orðið í álblöndum sem nýttar eru með fjölbreyttum hætti í bílaframleiðslu. Þá varðar miklu í rafbílavæðingunni að létta rafbílana, þannig að þeir komist lengra á rafhlöðunni, og þar gegnir ál mikilvægu hlutverki. Til marks um það má nefna að grind Teslunnar er nánast eingöngu úr áli.
Viðvarandi vöxtur eftirspurnar eftir áli í heiminum þýðir að ef meira jafnvægi kemst á framleiðslu og eftirspurn í Kína, þá eru markaðir fljótir að jafna sig.“
Hver eru þjóðhagsleg áhrif áliðnaðar?
„Árlega verða eftir á Íslandi um 80 til 100 milljarðar í gjaldeyristekjum. Um 40 milljarða fara í raforkukaup, á bilinu 25 til 40 milljarðar í kaup á vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja, um 15 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld til um 1.500 starfsmanna og auk þess greiddu álver á Íslandi um 7 milljarða í opinber gjöld árið 2014. Til þess að setja þessar tölur í samhengi má nefna að stærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum er Landspítalinn og nema framlög til hans um 45 milljörðum.
Byggst hefur upp öflugur klasi í áliðnaði og á grunni hans var Álklasanaum hleypt af stokkunum í fyrravor. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar sem kom út í fyrravor nam heildarframlag áliðnaðar og klasans sem myndast hefur í greininni nálægt 6,8% af landsframleiðslu á árunum 2011 og 2012. Ef horft er til eftirspurnaráhrifa var framlagið tæp 9% árið 2012.“
Hver er staðan í kjaradeilunni í Straumsvík?
„Deilan þar snýst fyrst og fremst um að verkalýðsfélögin hafa þvertekið fyrir að ÍSAL sitji við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu varðandi heimildir til útvistunar á verkefnum. ÍSAL hefur boðið sömu launahækkanir og aðrir og gott betur, auk þess sem fram hefur komið að þegar viðræðurnar hófust voru dagvinnulaun verkamanna í Straumsvík 25% yfir landsmeðaltali. Vonandi eiga þessar deilur ekki eftir að dragast meira á langinn, enda efalaust að allir eru af vilja gerðir að semja og aflétta því óvissuástandi sem skapast hefur.“