- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í ógnunum felast tækifæri. Sjaldan hefur það átt betur við en núna þegar heimsbyggðin leggst á eitt við að finna lausnir á aðsteðjandi loftslagsvanda. Það verður ekki einhver ein aðferð sem dugar, heldur þarf ógrynni lausna til að mæta vandanum. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld bindi sig ekki við eina ríkislausn eða Evrópusambandslausn, heldur séu opin fyrir nýjum nálgunum. Jafnframt má draga þann lærdóm af viðbrögðum við heimsfaraldrinum og efalaust fyrri krísum líka, að hlutverk stjórnvalda er að marka stefnu og ryðja hindrunum úr vegi, en við reiðum okkur á að atvinnulífið hugsi í lausnum.
Tæknihlutleysi mikilvægt
Það eru sannarlega áskoranir framundan í áliðnaði á heimsvísu, enda er verkefnið risavaxið að ná fram kolefnishlutleysi – algjör umbylting í framleiðsluferlum með nýjum tæknilausnum sem enn eru í þróun. Nú þegar er ljóst að klæðskerasníða þarf lausnir eftir aðstæðum á hverjum stað – þess vegna er hugtakið tæknihlutleysi mikilvægt. Stuðningur stjórnvalda þarf að vera óháður fyrirframgefnum hugmyndum um hvað virkar. Það er enn að koma í ljós.
Í þessu felast bæði ógnanir og tækifæri fyrir íslenskan áliðnað. Ef við tökum ekki þátt í kapphlaupinu og setjum krafta okkar í nýsköpun, rannsóknir og þróun, þá heltumst við óhjákvæmilega úr lestinni. En það jákvæða er að við höfum alla burði til að vera í fararbroddi. Ekki aðeins vegna forskotsins sem í því felst að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi, heldur einnig vegna þess að við framleiðum næstmest af áli í Evrópu á eftir Noregi. Við höfum því alla burði til að sækja fram af fullum þunga og álfyrirtækin sem starfa hér á landi eru í forystu á heimsvísu í þróun nýrra lausna á þessu sviði.
Nýr rannsóknarkjarni í Tæknisetri
Fyrir liggur að álverin þrjú sem starfa á Íslandi stefna öll að því að ná kolefnishlutleysi árið 2040, hafa gert aðgerðaáætlun um að kolefnisjafna hefðbundna starfsemi og vinna að nýjum tæknilausnum til að draga úr losun frá sínum framleiðsluferlum. Til þess að íslenskur áliðnaður nýti styrkleika sína til fulls er mikilvægt að ört vaxandi kostnaður álvera vegna kaupa á losunarheimildum innan ETS-kerfisins renni aftur til þróunar á lausnum hér á landi í loftslagsmálum. Það má hverjum ljóst vera að það vinnur gegn markmiðum sínum að skattleggja áliðnaðinn í nafni loftslagsmála, án þess að nokkuð skili sér til baka í fjárfestingar og þróun á lausnum í loftslagsmálum – einmitt þegar áliðnaðurinn þarf mest á því að halda.
Þrátt fyrir að áliðnaður sé enn ungur að árum á Íslandi í samanburði við nágrannaþjóðir okkar Noreg og Kanada, þá hefur þegar skapast mikil gróska í klasanum í kringum álverin. Á hverju ári kaupa álverin vörur og þjónustu fyrir á þriðja tug milljarða af hundruðum fyrirtækja, og er það fyrir utan tuga milljarða raforkukaup. Öflugur kjarni er að myndast í nýstofnuðu Tæknisetri, þar sem unnið er að fjölþættum rannsóknar- og þróunarverkefnum á sviði áliðnaðar, m.a. þróun á nýrri rafgreiningartækni sem hefur í för með sér að álframleiðsla losar súrefni en ekki koldíoxíð og umhverfislausnum þar sem verðmæti eru unnin úr afgangsvarma/affallsefnum. Álklasinn er einmitt til húsa í Tæknisetrinu, en aðild að honum eiga hátt í 40 fyrirtæki, og þar er einnig vaxandi flóra sprotafyrirtækja í áliðnaði.
Stuðningur við sprotafyrirtæki
Hér á landi stendur það hinsvegar rannsóknum og þróun í áliðnaði fyrir þrifum, að það vantar þrep í fjármögnun verkefna áður en hægt er að sækja um í loftslagssjóð ESB. „Innovation Fund“. Sá sjóður er hugsaður sem hvatning til iðnaðarins að taka inn grænar tæknilausnir sem enn eru í þróun og greiðir 60% af kostnaðinum við það. En til þess að komast að hjá sjóðnum þarf tæknin að vera komin á það stig að vera tilbúin til uppsetningar í raunumhverfi. Sprotafyrirtæki þurfa að geta reitt sig á samfelldan stuðning í þróunarferlinu fram að því og sérstakur sjóður sem einblínir á grænar lausnir fyrir orkusækinn iðnað yrði mikilvægur hlekkur fyrir slík verkefni hér á landi.
Ljóst er að fjármunirnir eru til staðar, því tekjur íslenska ríkisins af ETS-kerfinu voru um 1,3 milljarðar árið 2020 og má gera ráð fyrir að sú fjárhæð hækki verulega á þessu ári samhliða hækkandi verði á losunarheimildum til atvinnulífsins. En hugsunin með ETS-kerfinu er einmitt sú að þessir fjármunir skili sér aftur til loftslagsvænna verkefna í atvinnulífinu. Við getum ýmislegt lært af samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda í nágrannalöndunum, hvort sem litið er til samstarfsvettvangsins Elysis í Kanada eða Enova-sjóðsins í Noregi. En til þess að breyta ógnunum í tækifæri þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman. Þannig náum við árangri í loftslagsmálum og sköpum grunn að samkeppnisforskoti til framtíðar.