- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, setur jafnrétti í forgrunn í sínu fyrirtæki og hefur m.a. staðið fyrir #metoo-fundum þar sem konur sögðu sína sögu á kvennafundum og karlar fengu fræðslu á sínum fundum. Í samtali við Elínrós Líndal í Morgunblaðinu segir hann 4. iðnbyltinguna mikilvæga og sjálfvirkni í brennidepli. Hér má lesa viðtal Elínrósar:
Magnús er uppalinn í Reykjavík og gekk þar í mennta- og háskóla en fór síðan til Danmerkur í áframhaldandi nám í rafmagnsverkfræði. Hann starfaði í 19 ár hjá Marel áður en hann flutti með fjölskyldunni til Egilsstaða og hóf störf hjá Alcoa Fjarðaáli árið 2009.
Hvað getur þú sagt mér um Alcoa Fjarðaál?
„Við erum fyrirtæki sem hefur það markmið að bæta hag viðskiptavina, starfsfólks, samfélags og eigenda með því að framleiða eins umhverfisvænt ál og hægt er að framleiða í heiminum í dag. Við leggjum mikla áherslu á að sinna starfsfólkinu okkar vel, til dæmis með því að hafa öryggi ávallt í fyrsta sæti og tryggja góða líðan á vinnustaðnum. Þá er samfélagsábyrgð í víðari skilningi okkur hugleikin og við gerum okkar besta á því sviði, til dæmis hvað varðar umhverfismál og jafnréttismál.“
Hvaða þýðingu hefur viðurkenningin framúrskarandi fyrirtæki fyrir þig sem stjórnanda?
„Það er gott að fá staðfestingu á því að sú stefna sem við höfum sett í fyrirtækinu skilar sér meðal annars með þessari viðurkenningu.
Hvað hefur gerst á liðnu ári í rekstri fyrirtækisins?
„Við áttum gott rekstrarár árið 2017. Árið var metár í framleiddu magni af málmi og á sama tíma náðum við afbragðsárangri í umhverfis- og öryggismálum. Við jukum framleiðni á árinu umtalsvert sem er mikilvægur árangur á tímum mikilla kostnaðarhækkana.“
Hverjar eru framtíðarhorfurnar?
„Eftirspurn eftir áli hefur aukist um 5-6% á ári undanfarin ár og gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Ál er umhverfisvænt efni sem stöðugt er hægt að endurvinna og í dag eru um 75% af því áli sem framleitt hefur verið í heiminum enn í notkun. Framleiðendur farartækja nota ál í ríkari mæli en áður til að létta farartækin, minnka eldsneytiseyðslu og kolefnisfótspor. Umbúðir úr áli eru léttar og endurvinnanlegar og svo mætti áfram telja. Á Íslandi er ál framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum sem gefur okkur enn frekari sérstöðu og mun skipta meira máli í framtíðinni.“
Magnús útskýrir að hvað varðar rekstrarumhverfi fyrirtækisins á Íslandi þá valdi sveiflur á gengi íslenskrar krónu erfiðleikum fyrir alþjóðlegt fyrirtæki. „Launakostnaðarhækkanir hafa einnig verið mun meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum og hefur því samkeppnishæfni iðnaðarins versnað til muna. Við reynum að mæta kostnaðarhækkunum með framleiðniaukningu og gerum það bæði með aukinni sjálfvirkni og hagræðingu í okkar rekstri. Aukin sjálfvirkni mun verða í brennidepli hjá Fjarðaáli á næstu árum.“
Hver er megináherslan í mannauðsmálum um þessar mundir hjá þér?
„Við leggjum alltaf áherslu á helgun starfsfólks og að við náum markmiðum okkar sameiginlega, fyrirtæki og starfsfólk. Stöðug þjálfun og þróun starfsfólks, jafnrétti og fjölbreytni er alltaf í brennidepli. Við höfum lagt áherslu á góða vinnustaðarmenningu á þessu ári og það er reyndar eitt af okkar helstu markmiðum fyrir árið 2018. Við höfum unnið mikið í þessum málaflokki, stóðum fyrir #metoo-fundum fyrir starfsmenn í upphafi árs þar sem konur gátu sagt sögur sínar á kvennafundum og karlar fengu fræðslu á sínum fundum. Þá höfum við gert með okkur vinnustaðarsáttmála á vinnustaðnum og aukið fræðslu í þessum málaflokki fyrir stjórnendur.“
Hvað gerir einstakling að góðum stjórnanda að þínu mati?
„Ég held að það sé ýmislegt en nefni kannski sérstaklega hér hversu mikilvæg heiðarleg samskipti og jákvæð endurgjöf eru á vinnustaðnum.“
Hvað er gott við að starfrækja fyrirtæki í landinu?
„Á Íslandi er hæft og gott starfsfólk og við stöndum framarlega í jafnréttismálum. Endurnýjanlegir orkugjafar og metnaður í umhverfismálum skipta mitt fyrirtæki jafnframt miklu máli.“
Hvað mætti betur fara?
„Sveiflur á gengi íslenskrar krónu eru erfiðar fyrir alþjóðlegt fyrirtæki. Skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki getur staðið nýsköpun og uppbyggingu fyrir þrifum og við þurfum að skapa umhverfi þar sem bæði kynin hafa áhuga á að afla sér slíkrar menntunar.“
Leggur þú áherslu á að mæla ánægju starfsfólks í fyrirtækinu?
„Já, við gerum vinnstaðargreiningu á hverju ári. Við leggjum áherslu á að mæla helgun.“
Berðu saman fjárhagstölur og ánægju starfsfólks?
„Helgun starfsfólks er forsenda fyrir framleiðniaukningu og þar með fyrir því að bæta fjárhagslegan árangur. Jafnrétti og mannauðsmál eru ekki bara það rétta til að gera heldur líka „góður bisness“. Enginn einn mælikvarði segir alla söguna um árangur fyrirtækisins og við horfum til margra þátta.“
Hvaða áhrif hafa tæknibreytingar í heiminum á þína starfsemi?
„Fjórða iðnbyltingin er á fullri ferð og hefur sannarlega áhrif á okkar iðnað og tækifæri fyrirtækisins. Stafræn tækni og sjálfvirkni er í fókus hjá Fjarðaáli og verður það á komandi árum. Eitt af því sem við eigum eftir að sjá á okkar vinnustað innan tíðar eru sjálfkeyrandi farartæki.“
Áttu skemmtilega sögu af þér sem stjórnanda?
„Fyrir nokkrum árum var ég einu sinni sem oftar með tölu eða erindi á starfsmannafundi. Ég stoppaði fyrir spurningar og ungur maður sem var nýbyrjaður hjá fyrirtækinu rétti þá upp hönd og spurði: „Hver ert þú?“ Það minnti mig á nauðsyn þess að vera sýnilegur og dagana á eftir var ég mikið á röltinu.“