- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Fyrir fáeinum dögum þyrptist fólk á Canaveral-höfða í Flórída til að fylgjast með fyrsta mannaða geimskotinu í níu ár. Öllu tilkomumeiri gerast mannanna verk ekki en að fljúga út í geim. Víst er að geimfararnir og pabbarnir Robert Behnken og Douglas Hurley hafa fengið nýtt sjónarhorn á tilveruna, þar sem þeir virða jarðarkringluna fyrir sér úr fjarlægð ásamt öðrum geimförum NASA í Alþjóðlegu geimstöðinni.
Allt frá upphafi geimferða hefur ál gegnt lykilhlutverki m.a. vegna léttleika síns og þols, sem nýtist vel í geimskotum og lendingum. Ál er kjarnaefni í Falcon 9 eldflaug SpaceX, en þær eru hannaðar þannig að þær lenda aftur eftir geimskotið og eru áfram brúklegar til að koma geimferjum á loft.
Enn reynist rithöfundurinn Jules Verne því sannspár. Í sögunni af tunglferðinni sem skrifuð var árið 1867 lýsti hann í þaula undraefninu áli, sem eigi eftir að gera mannkyninu kleift að komast til tunglsins. Þetta var rúmum 100 árum áður en Neil Armstrong steig fæti á tunglið og var Verne nærri lagi um ýmislegt, svo sem þyngd geimferjunnar Apollo 11 sem var einungis um 8 tonn.
Það er þessi léttleiki áls sem hefur gert útslagið í tækniframþróun á fleiri sviðum. Til að mynda hefur það flýtt fyrir rafvæðingu bílaflotans, en rafbílar á borð við Teslu komast fyrir vikið lengra á hleðslunni, það leiðir rafmagn og það einangrar vel sem lengir endingartíma matvæla, drykkjarvara og lyfja og dregur úr orkusóun í byggingum.
Og ál er útbreiddara en margur heldur. Í skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Samál kemur fram að tæp 90% Íslendinga segjast nota ál í daglegu lífi. Á meðal þess sem fólk nefndi voru símar, tölvur og raftæki, bílar og reiðhjól, umbúðir, álpappír og álbakkar, drykkjardósir, pottar og pönnur og ýmis eldhúsáhöld. Þar voru ekki nefndar flugvélar og enginn geimfari hefur lent í úrtakinu, því geimferjur bar ekki á góma.
Almennt er erfitt að svara skoðanakönnun án þess að ál komi við sögu í símum eða tölvum. Það er raunar burðurinn í framleiðslu Apple. Og maður þyrfti virkilega að vanda sig ætlaði maður að sneiða algjörlega hjá áli í lífi sínu – jafnvel einn dag. Af áli sem notað er til framleiðslu í Evrópu fer mest í bifreiðar og hverslags samgöngutæki. Hlutfall áls í bifreiðum hækkar stöðugt, því með léttingu bílaflotans koma bílaframleiðendur til móts við kröfur stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ál er mikið notað í mannvirki og byggingar, en álklæðningar á byggingum geta dregið úr orkunotkun um 50%. Svo eru það umbúðir og óendanlega fjölbreytt flóra af vörum af öllu tagi.
Það er áhugavert að Evrópusambandið flytur inn um 50% af öllu áli sem notað er til framleiðslu á meginlandinu. Þar af kemur mest frá Noregi og Íslandi, en til þeirrar framleiðslu eru notaðir endurnýjanlegir orkugjafar og er álframleiðsla hvergi loftslagsvænni. Af því áli sem framleitt er innan ESB er um 70% endurunnið, en endurvinnsla áls eykst jöfnum skrefum og er Evrópa þar í fararbroddi í heiminum.
Í fyrrnefndri skoðanakönnun var fólk spurt hversu mikið það teldi að væri endurunnið af drykkjardósum úr áli hér á landi. Ef til vill geta lesendur þessarar greinar svarað þeirri spurningu fyrir sig þegar hér er komið sögu.
Í könnuninni giskuðu 11,4% á að 90-100% af drykkjardósum úr áli skiluðu sér til endurvinnslu og 19,6% giskuðu á 80-90%. Þau hittu naglann á höfuðið. Tæpur fjórðungur aðspurðra taldi hinsvegar að það væru undir 50%, sem verður að teljast fjarri lagi. Endurvinnsluhlutfallið er rúm 90% hér á landi og eftir því sem ég kemst næst eru drykkjardósir úr áli sú afurð sem heimtist best til endurvinnslu í heiminum.
Ál má nefnilega endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum og fyrir vikið er það eftirsótt til endurvinnslu. Endurvinnslan skapar verðmæti og dregur úr losun gróðurhúsalofttgunda, en til endurvinnslu áls þarf einungis um 5% af orkunni sem fór í að framleiða það upphaflega.
Þegar Falcon 9 eldflaugin verður orðin úrelt má einfaldlega endurvinna álið úr henni í nýja eldflaug eða geimferju. Og stefna svo fólki á Canaveral-höfða.
Pétur Blöndal,
framkvæmdastjóri Samáls.
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2020.