- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í nýrri þjóðhagsspá sem birt var í morgun er gert ráð fyrir að heimsmarkaðsverð á áli hækki að jafnaði um ríflega 18,5% á líðandi ári sem er nálægt því sem spáð var í maí.
Í skýrslunni er vitnað í októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem ástæða hækkunarinnar er talin vera umframeftirspurn utan Kína þar sem ál er í auknum mæli notað í framleiðslu bifreiða. Með því koma bílaframleiðendur til móts við kröfur stjórnvalda og almennings um léttingu bílaflotans, sem hefur í för með sér minni brennslu eldsneytis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Álbirgðir hafa lækkað frá því í janúar og hafa ekki verið lægri í vöruhúsi málmmarkaðarins í London (e. London Metal Exchange) frá árinu 2008. Framvirkir samningar benda ekki til að verð lækki sem styður við væntingar um minna framboð vegna samdráttar málmframleiðslu í Kína til að draga úr mengun. Á móti kemur óvissa um eignaverð í Kína sem getur dregið úr innviða- og íbúðafjárfestingu þar í landi.
Á næstu árum er gert ráð fyrir að álverð hækki um 1,6% að meðaltali. Annað hrávöruverð hefur einnig hækkað og hefur þróunin framan af ári verið í samræmi við maíspá. Aðallega er hækkunin vegna stígandi heimsmarkaðsverðs á málmum.