- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Hlutabréfaverð alþjóðlegra álfyrirtækja með starfsemi á Íslandi hefur hækkað mikið á síðastliðnum tólf mánuðum. Um það fjallaði Helgi Vífill Júlíusson í frétt í Morgunblaðinu 8. ágúst sl. Gengi Century Aluminum, sem m.a. á Norðurál, hefur hækkað um 149% og gengi Alcoa, sem m.a. á álver á Reyðarfirði, hefur hækkað um 106%. Á sama tíma hefur verð á áli, sem er annar mest notaði málmur í heimi, hækkað um 10% og ekki verið hærra í 17 mánuði.
Ragnar Guðmundsson, formaður Samáls, samtaka álfyrirtækja, og forstjóri Norðuráls, segir í samtali við blaðið að almennt fari horfur í áliðnaði batnandi. Álverð hafi hækkað, birgðir séu að minnka sem hlutfall af sölu og eftirspurn fari vaxandi.
Bílaframleiðendur nýti til að mynda ál og önnur léttari efni í vaxandi mæli í stað stáls. Í nýja Ford F-150, sem sé mest seldi bíll í Bandaríkjunum, séu notuð tæp 300 kíló af áli að meðaltali. Miðað við söluna í fyrra fari yfir 200 þúsund tonn í að framleiða pallbíllinn. „Það er á við ársframleiðslu góðs álvers,“ segir hann. „Það munar miklu fyrir sölu á áli þegar bílaframleiðendur nýta það í mest seldu bílana sína. Ál er jafnframt mikið notað í rafmagnsbíla til að hafa þá jafn létta og mögulegt er og vega á móti þungum rafhlöðum. Bílarnir frá Tesla eru nánast allir úr áli.“
Í greininni kemur fram að Citi-bankinn telji að eftirspurn eftir áli muni vaxa um 6% á ári þar til áratugnum lýkur. Eftirspurnin verði knúin áfram af því að bílaframleiðendur noti ál í auknum mæli. Alcoa telji að álmarkaðurinn muni vaxa um 7% í ár, að því er fram komi í erlendum fjölmiðlum.
Century Aluminum hagnaðist um 20,3 milljónir dollara, jafnvirði 2,3 milljarða króna, á öðrum fjórðungi samanborið við 29,4 milljóna dollara tap á sama tíma fyrir ári. Í tilkynningu með uppgjörinu er sagt að bættan rekstur megi rekja til hærra álsverðs og lægra raforkuverðs í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Á öðrum fjórðungi hagnaðist Alcoa um 138 milljónir dollara samanborið við 119 milljóna dollara tap á sama tíma fyrir ári.
Fram kom fyrir skömmu í Financial Times að álverð hefði ekki verið hærra í 17 mánuði á sama tíma og birgðir færu minnkandi, álverum hefði verið lokað og að horfur væru á að eftirspurn verði mikil. Fyrirtæki á borð við Alcoa, Rio Tinto og Rusal hafi lokað álverum á síðustu tveimur árum til að takast á við offramboð af áli. Citi telur að ekki verði dregið úr álframleiðslu það sem eftir lifir árs heldur reiknar mun frekar með því að framleiðslan verði aukin.