- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Þó að Century Aluminium hafi bókfært ríflega 16 milljarða króna virðisrýrnun vegna Helguvíkur er fyrirtækið ekki búið að gefa verkefnið upp á bátinn. Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar Guðmundsson forstjóra Norðuráls í Viðskiptablaðinu í dag.
Hann segir félagið hafa fullan hug á að kanna hvort ekki verði hægt að halda áfram með verkefnið síðar. Álverð hefur hækkað um 20% á skömmum tíma.
Í fréttinni segir ennfremur:
Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, tapaði 168,5 milljónum dollara á fjórða ársfjórðungi síðasta árs eða um 18,2 milljörðum króna. Á fjórða ársfjórðungi 2015 nam tap Century Aluminium 43,1 milljón dollara eða ríflega 4,5 milljörðum króna.
Á öllu árinu 2016 nam tap Century Aluminium 252,4 milljónum dollara samanborið við 59,3 milljóna dollara tap árið 2015. Þrátt fyrir tap batnaði lausafjárstaða fyrirtækisins töluvert á milli ára. Hún var 132,4 milljónir dollara í fyrra samanborið við 115,4 árið 2015.
Rekja má stærsta hluta taps móðurfélagsins á síðasta ári, eða 152,2 milljónir (16,4 milljarðar króna), til virðisrýrnunar í tengslum við álversuppbyggingu í Helguvík.
Ástæðan fyrir því að móðurfélagið hefur nú fært Helguvíkurverkefnið niður í sínum bókum er væntanlega sú að í byrjun desember komst alþjóðlegur gerðardómur að þeirri niðurstöðu að HS Orku bæri ekki að standa við ákvæði raforkusamnings, sem undirritaður var við Norðurál Helguvík í apríl árið 2007.
Bæði Norðurál og HS orka sendu frá sér tilkynningu vegna þessa þann 1. desember.
Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir í samtali við Viðskiptablaðið að úrskurður gerðardómsins í desember hafi vissulega valdið vonbrigðum.
Hann segir að þrátt fyrir úrskurðinn og virðisrýrnunarpróf móðurfélagsins vegna Helguvíkurverkefnisins sé félagið ekki hætt við að reisa álver í Helguvík.
„Við höfum fullan hug á því að kanna hvort við getum ekki aflað okkur orku en það getur tekið tíma,“ segir Ragnar. „Við leigjum lóð í Helguvík af Reykjaneshöfn og höfum staðið í skilum með öll gjöld af henni. Við ætlum að halda þessari lóð áfram.“
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu.