- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Þrátt fyrir að vera algengasta málmtegund jarðar hefur ál aðeins verið hagnýtt sem hreinn málmur frá miðri 19. öld. Efnablöndur úr áli hafa þó komið við sögu mannsins frá örófi alda.
Fundist hafa kerbrot í Asíu frá því 5000 árum fyrir Kristsburð, gerð úr efnasamböndum leirs og áls. Þá er vitað að Egyptar og Babýlóníumenn til forna blönduðu ýmis konar lyf með efnasamböndum úr áli og að Forn-Grikkir og Rómverjar notuðu álsölt við fatalitun og til að stöðva blæðingar þegar bundið var um sár.
Þrátt fyrir að vera algengasta málmtegund jarðar hefur ál aðeins verið hagnýtt sem hreinn málmur frá miðri 19. öld. Það var breski efnafræðingurinn Humphrey Davy sem uppgötvaði frumefnið ál eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu árið 1807 að súrál væri efnasamband súrefnis og óþekkts málms sem hann nefndi aluminum. Hann reyndi árum saman að framleiða hreint ál með rafgreiningu en tókst aldrei.
Það var ekki fyrr en 1825 sem danska eðlis- og efnafræðingnum Hans Christian Ørsted tókst fyrstum manna að leysa álklóríð upp í blöndu kvikasilfurs og kalíummálms. Með því að eima kvikasilfrið burtu náði hann að framleiða fyrsta álmolann. Þessi árangur varð þýska eðlisfræðingnum Frederich Wöhler hvatning til að halda áfram tilraunum og tveimur árum síðar fann hann upp aðferð til að vinna ál úr álklóríði með kalíummálmi án kvikasilfurs.
Frakkinn Sainte-Claire Deville endurbætti aðferð Wöhlers árið 1854 og notaði natríum í stað kalíums. Þrátt fyrir þessa áfanga hafði þó ekki tekist að finna leið til að vinna ál úr jarðvegi á hagkvæman máta og því var málmurinn afar dýrmætur. Álstangir voru t.d. sýndar við hlið frönsku krúnudjásnanna á Heimssýningunni 1855 og Napóleón III var sagður hafa látið heiðursgesti sína snæða af áldiskum meðan aðrir máttu gera sér silfurborðbúnað að góðu!
Kaflaskil urðu árið 1886 þegar tveir rétt rúmlega tvítugir menn, búsettir í sitt hvorri heimsálfunni, duttu niður á aðferð sem leysti vandann. Bandaríkjamaðurinn Charles Martin Hall og Frakkinn Poul Hérault, sóttu þá samtímis um einkaleyfi á aðferð sem byggðist á því að leysa súrál upp í bráðnu krýólíti og vinna síðan ál úr blöndunni með rafgreiningu. Þar með var grunnurinn lagður að þeirri aðferð sem notuð hefur verið æ síðan. Um svipað leyti fann Þjóðverjinn Siemens upp rafalinn og Austurríkismanninum Karl Josef Bayer hugkvæmdist aðferð til að vinna súrál úr báxíti.
Þegar hér var komið sögu þróuðust mál hratt og það kom í hlut hins unga Bandaríkjamanns, Charles Hall, að sjá draumana rætast. Honum tókst að fjármagna uppsetningu lítillar verksmiðju í Pittsburg og var þar aðeins einn starfsmaður auk hans til að byrja með, Arthur V. Davis að nafni. Árið 1888 framleiddu þeir félagar fyrsta verksmiðjuframleidda álhleifinn. Á grundvelli uppfinningar sinnar stofnaði Hall The Reduction Company of Pittsburg sem síðar breytti nafni sínu í The Aluminum Company of America, síðar Alcoa. Árið 1889 var ferli Héroults notað í Sviss við framleiðslu hjá Aluminium Industrie, nú Alcan. Fram til aldamóta spruttu upp álfélög m.a. í Bandaríkjunum, Sviss, Frakklandi og Skotlandi.
Þótt tekist hefði að finna upp aðferð til að framleiða ál voru menn mjög hikandi framan af varðandi nýtingu þess auk þess sem það var enn ekki samkeppnisfært í verði. Smám saman tókst að þróa framleiðslutæknina og gera álið ódýrara. Framleiðendur tóku við sér og nýttu sér þetta nýja efni til framleiðslu á ýmsum hagnýtum hlutum eins og eldunaráhöldum, álpappír, köplum og til framleiðslu á íhlutum í bílvélar sem þá voru í örri þróun.