- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í áramótablaði Viðskiptablaðs Morgunblaðsins er talað við Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, um þær áskoranir sem framundan eru árið 2018.
„Grunnstefið í efnahagsstefnu stjórnvalda hlýtur að vera að hlúa að og efla samkeppnishæfni atvinnulífsins, enda er það undirstaða þeirrar verðmætasköpunar
sem stendur undir lífskjörum þjóðarinnar,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls í viðtali
„Á síðustu áratugum hafa bæst við nýjar stoðir undir efnahagslífið, ferðamennska og
orkuiðnaður. Það eykur viðnámsþróttinn og dregur úr sveiflum. Það er ánægjulegt að sjá talað um stofnun þjóðarsjóðs fyrir arðinn af orkuauðlindinni í nýjum stjórnarsáttmála. Þar er horft til tuga milljarða á ári og er það afrakstur þeirrar uppbyggingar sem orðið hefur í orkuiðnaði á síðustu áratugum, sem einnig hefur skilað samkeppnishæfu verði til atvinnulífsins og lægsta verði sem þekkist á byggðu bóli til almennings.“
Til þess að styðja við framsækni í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar er mikilvægt að ungu fólki séu sköpuð skilyrði til að mennta sig á þeim sviðum, að sögn Péturs. „Það hefur skort á að næg áhersla sé lögð á iðnnám ásamt verk- og starfsnámi, auk þess að efla tækniþekkingu. Það er löngu tímabært að stjórnvöld geri skurk í þeim efnum og sýnist mér að vilji nýrrar ríkisstjórnar standi til þess – raunar hef ég ekki heyrt nokkurn þingmann mæla gegn því og vonandi að menn láti loks verkin tala í þeim efnum.“
Þá tekur Pétur undir orð hagfræðingsins Lars Christensens um að mikilvægt sé að huga að gagnsæi og samkeppnissjónarmiðum á orkumarkaði, þar með talið að aðskilja fjárhagsleg tengsl Landsnets og Landsvirkjunar. „Ríkisendurskoðun hefur einnig talað um að styrkja sjálfstæði Landsnets og ráðgjafar Copenhagen Economics komust að sömu niðurstöðu í skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun. Ég sé því ekki á hverju það mál strandar.“