Er ál glópagull?

Það er ákaflega mikilvægt að halda því til haga að íslensk raforka er ein af auðlindum þjóðarinnar. Í dag er mikil eftirspurn eftir sjálfbærum ómengandi orkugjöfum og mun sú eftirspurn aukast enn meira í vegferð orkuskiptanna.

Það hefur verið talað um það í neikvæðu samhengi að Íslendingar framleiða mesta raforku í heimi miðað við höfðatölu. Reyndar hækkar það hlutfallið talsvert hversu fá við erum í víðfeðmu landi, en engu að síður framleiðum við mikla raforku. Það er ekkert óeðlilegt við það enda raforkan ein af okkar mikilvægu auðlindum. Allar þjóðir nýta auðlindir sínar sér til hagsældar og hluti af nýtingu sjálfbæru raforkunnar á Íslandi er sala hennar til álveranna.

Það eru staðlausir starfir að halda því fram að álverin á Íslandi kaupi raforkuna ódýrt. Það er líka sérkennileg hagfræði að halda því fram að starfsemi álvera á Íslandi skili þjóðinni óverulegum ávinningi. Tölurnar tala sínu máli:

Áætlað keyptu íslensku álverin á árinu 2023 raforku fyrir 68,3 milljarða króna. Tvö þúsund manns vinna hjá íslensku álverunum og eru laun þeirra talsvert yfir meðal launum í landinu. Álverin greiddu 25,3 milljarða í laun og launatengd gjöld á síðasta ári, 9,4 milljarða í opinber gjöld og keyptu innlendar vörur og þjónustu fyrir 57,3 milljarða á síðasta ári.

Rekstur álveranna er hagnaðardrifinn eins og allur almennur rekstur og hefur skilað arði til eigenda sinna rétt eins og rekstur Landsvirkjunar skilaði þjóðinni 30 milljörðum í arðgreiðslum núna nýlega, en þessi mikli hagnaður Landsvirkjunar er fyrst og fremst tilkominn vegna samninga við álverin um raforkukaup.

Samningur við fyrsta álver Íslands lagði grunninn að orkuöryggi þjóðarinnar. Bygging Búrfellsvirkjunar lagði grundvöllinn að Landsvirkjun og viðskipti við álverin á Íslandi hafa skilað þjóðinni tekjum og samfélagslegum ávinningi á þeim svæðum þar sem þau hafa verið reist. Íslensk álver vilja ekkert fremur en starfa í sátt við samfélagið og eru stöðugt að leita leiða til þess að gera betur, nýta orkuna betur og jafna eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Álið hefur stundum verið kallað græni málmurinn. Eftirspurn eftir áli vex stöðugt enda er álið lykillinn að orkuskiptunum, eins léttur málmur og það er með frábæra eiginleika til endurvinnslu. En ekki síður skiptir það máli að álframleiðsla á Íslandi er með eitt lægsta kolefnisspor í heimi. Að því leytinu til er álið okkur heimsbyggðinni gulls ígildi.

 

Guðríður Eldey Arnardóttir

Greinin birtist á vef Heimildarinnar 5. júní 2024

Sjá einnig