- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Það er undarlegt að hlýða á fólk sem gerir grýlu úr fyrirtækjum með erlent eignarhald og finnur þeim helst til foráttu að þau eru ekki í eigu Íslendinga. Slíkur hugsunarháttur gengur þvert á þróunina í heiminum, sem verður stöðugt opnari með þróaðri samskiptaleiðum. Um leið er unnið að því beggja vegna Atlantsála að fella niður landamæragæslu og tollamúra, enda ýtir frelsi í viðskiptum undir verðmætasköpun og stuðlar að bættum lífskjörum. Það er ekki aðeins veruleikinn í útlöndum, heldur er Ísland hluti af þeim veruleika. Það gilda ekki önnur lögmál á Íslandi en almennt í heiminum.
Álver á Íslandi á hlutabréfamörkuðum
Borið hefur á þessari umræðu í kringum áliðnað á Íslandi. Þó er því þannig farið, að þau erlendu fyrirtæki sem hér starfa eru öll skráð á hlutabréfamörkuðum og hver sem er getur keypt í þeim hlutabréf. Century Aluminum er raunar skráð í Kauphöllina, ekki þarf lengra að fara, og á meðal hluthafa eru tugir Íslendinga.
Ekki vantar að þessi fyrirtæki leggi sitt af mörkum til íslensks samfélags. Í tilviki álvera á Íslandi streyma árlega gjaldeyristekjur til landsins upp á yfir 200 milljarða og eftir í landinu sitja á bilinu 80 til 100 milljarðar. Það er nær tvöfaldur rekstrarkostnaður Landspítalans, sem er stærsti útgjaldaliður ríkisins á fjárlögum hvers árs.
Hátt í 100 milljarða fjárfestingar
Og í hvað fara þessir fjármunir? Jú, samkvæmt staðreyndaskjali Samáls fara yfir 38 milljarðar króna í kaup á raforku (m.v. uppgefið meðalverð Landsvirkjunar á raforku til iðnaðar), um 25 milljarðar í kaup á vörum og þjónustu og 14 milljarðar í laun og opinber gjöld. Samkvæmt nýlegri úttekt KPMG námu opinber útgjöld áliðnaðarins rúmum sjö milljörðum árið 2014 og ljóst að það framlag fer hækkandi á næstu árum.
Vandi íslensks hagkerfis hefur ekki verið ofgnótt erlendrar fjárfestingar á liðnum árum heldur skortur á henni. Það hefur hinsvegar ekkert lát verið á fjárfestingum í áliðnaði hér á landi, en þær slaga hátt í 100 milljarða frá hruni.
Þekkingin útflutningsvara
Á þessum grunni hefur byggst upp sérhæfing og þekking hjá klasa fyrirtækja í íslenskum áliðnaði sem síðan er orðin útflutningsvara, þar með talið orkufyrirtækjum, verkfræðistofum, endurvinnslufyrirtækjum, skipafélögum og vélsmiðjum. Fyrr á þessu ári var Álklasinn stofnaður formlega og eru tugir íslenskra fyrirtækja og stofnana á meðal þátttakenda í klasanum. Þar er unnið að framfaramálum á fjölbreyttum sviðum áliðnaðar.
Og já, ekki má gleyma því að á síðustu árum og áratugum hafa íslensk fyrirtæki sótt út fyrir landsteinana í ríkum mæli og hefur það mælst vel fyrir hér á landi. Þau eru orðin „alþjóðleg“. Varla höfum við Íslendingar neitt á móti því?
Pétur Blöndal
Framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi.