- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í frétt RÚV kemur fram að íslensk raforkufyrirtæki hafi selt úr landi svokallaðar upprunaábyrgðir raforku, sem kalla má grænan stimpil. Hér má lesa nánar umfjöllun RÚV:
Árið 2017 átti þetta við um alla raforku til stóriðju og að hluta til annarra. Orkan sem notuð er hér er því ekki skráð endurnýjanleg eða umhverfisvæn á pappírum, heldur líkt og hún sé framleidd með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku. Árið 2017 voru aðeins þrettán prósent orku sem notuð er á Íslandi skráð endurnýjanleg. Notendur í útlöndum keyptu græna stimpilinn af 87 prósentum orkunnar. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, gagnrýndi þetta á ársfundi Samáls nýverið.
Hann segir að á sínum tíma hafi Fjarðaál gert raforkusamning við Landsvirkjun og að ein af forsendum þess samnings hafi verið sú að verið væri að kaupa endurnýjanlega orku úr Kárahnjúkavirkjun. „Ef bókhald Evrópusambandsins segir annað þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við séum að fá afhenda þá vöru sem við töldum okkur gera samning um,“ segir Magnús.
Hann tekur fram að Fjarðaál eigi í góðum samskiptum við Landsvirkjun sem sé ekki ein um að selja upprunaábyrgðir úr landi. Samtal um þetta eigi eftir að fara fram og að huga verði að því hvaða áhrif viðskipti sem þessi hafi í raun og veru. „Það má segja að með þessu séu Íslendingar að selja erlendum fyrirtækjum aflátsbréf sem gerir þeim kleift að fresta sínum umbótum í loftslagsmálum. Þetta getur verið ímyndarmál fyrir Ísland og nokkuð sem ég myndi beina til stjórnvalda hvort að við getum verið stolt af því framlagi til loftslagsmála á heimsvísu“ segir Magnús.
Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í orkurétti, segir að með því að selja upprunaábyrgðir úr landi sé mögulega verið að blekkja neytendur í öðrum löndum. Þeir telji sig kaupa hreina orku sem í raun fer aldrei frá Íslandi. „Ég held að þetta snúist um trúverðugleika landsins, erum við land endurnýjanlegrar orku eða ekki?“ segir Hilmar.