- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í umræðum um loftslagsmálin vill bregða við að talað sé um aukna losun á Íslandi án þess að það sé sett í hnattrænt samhengi. En þá er hætta á að jarðsambandið tapist.
Það vill gleymast hjá þjóð sem gengur að endurnýjanlegri orku sem vísri, að veruleikinn er annar á heimsvísu. Rekja má 40% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum til beislunar raforku og er sú losun fyrst og fremst til komin vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, orkugjafa á borð við kol, olíu og gas.
Til þess að draga úr losun hafa þjóðir heims lagt áherslu á að beisla endurnýjanlega orku, vatnsafl, jarðvarma, vind og sólarorku. Það er sem sé ekki sama hvaðan orkan kemur.
Íslendingar geta því verið stoltir af framlagi sínu í loftslagsmálum. Á undanförnum árum hefur byggst upp á Íslandi skilvirkt raforkukerfi sem er nánast 100% með endurnýjanlegri orku. Samhliða því hefur byggst upp öflugur orkuiðnaður, þar sem kolefnisfótsporið er með því lægsta sem þekkist á heimsvísu.
Til marks um það má nefna að álver á Íslandi hafa verið í fararbroddi í að draga úr losun með hugviti, tækniþróun og agaðri kerrekstri og hefur losun á hvert framleitt tonn minnkað um 75% frá árinu 1990. Stöðugt er unnið að því að draga enn frekar úr losun og nær það til allra þátta rekstursins.
Í álframleiðslu er mesta losunin á heimsvísu vegna orkuvera sem brenna jarðefnaeldsneyti. Mestur vöxtur hefur verið í álframleiðslu í Kína á undanförnum áratug og er nú svo komið að yfir helmingur alls áls í heiminum er framleiddur þar. Það er varhugavert þegar litið er til þess, að orkan sem nýtt er til álframleiðslunnar í Kína er að langmestu leyti frá kolaorkuverum. Ál sem framleitt er á Íslandi er með um 10 sinnum lægra kolefnisfótspor en það sem framleitt er með kolaorku í Kína.
Álframleiðsla hefur einnig byggst upp í Mið-Austurlöndum á síðustu árum, en þar er að mestu notuð gasorka. Fyrir vikið losar álframleiðsla þar um sjöfalt meira en álframleiðsla á Íslandi.
Þetta skiptir máli í stóra samhenginu. Það er til lítils að draga úr losun á einum stað, ef það þýðir að losunin verður margfalt meiri á öðrum. Þetta er eina og sama plánetan. Loftslagsvandinn er íslenskur í þeim skilningi, að við deilum vandanum með öðrum þjóðum, en hann er umfram allt hnattrænn.
Notkun áls fylgir mikill ábati í loftslagsmálum, þar sem það er léttur og sterkur málmur. Til marks um það má nefna að stöðugt meira ál er notað í bílaframleiðslu til að létta bílaflotann og draga þar með úr losun sem fylgir brennslu eldsneytis. Þá er hátt hlutfall áls í rafbílum á borð við Teslu, þannig komast þeir lengra á hleðslunni. Ál einangrar vel og dregur þannig úr orkunotkun bygginga og lengir endingartíma matvæla. Þá má endurvinna það aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum.
Eftir stendur að það er losun frá álframleiðslu og hjá því verður ekki komist, þrátt fyrir bestu fáanlegu tækni. En það hefur náðst markverður árangur í að draga úr þeirri losun og þegar heildarmyndin er skoðuð, þá er lágt kolefnisfótspor álframleiðslu á Íslandi mikilvægt framlag í loftslagsmálum á heimsvísu.
Pétur Blöndal
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. pebl@samal.is