- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Rauan Meirbekova kláraði í þessari viku tvöfalda doktorsgráðu. Eina frá Háskólanum í Reykjavík og aðra frá Norwegian University of Science and Technology (NTNU) í Þrándheimi í Noregi.
Þannig hefst viðtal Gunnhildar Jónsdóttur við Rauan í Fréttablaðinu. Þar segir ennfremur:
Hún varði doktorsritgerðina við tækni- og verkfræðideild á fimmtudaginn í HR en þar voru meðal annars mættir aðilar frá Alcoa og Rio Tinto Alcan. „Andrúmsloftið var mjög afslappað og þetta gekk mjög vel. Það er mjög gott að vera búin að þessu og ég hlakka til komandi tíma.“
Rauan er frá Kasakstan og eftir erfiða viku er hún spennt fyrir fótboltaleik helgarinnar. „Ég held að ég mæti á leikinn, ég mun styðja Kasakstan þó að ég óski Íslandi góðs gengis.”
Hún hefur núna ráðið sig í það verkefni hjá Háskólanum í Reykjavík að byggja upp tilraunaaðstöðu og efla efnisfræði sem fræðisvið hjá HR.
„Þetta verður skemmtilegt verkefni, enda mikil starfsemi á sviði efnisfræði hér á Íslandi. Það er ekki mikið kennt á þessu sviði þrátt fyrir að það séu margir sem vinna við það.“ Rauan býst við því að byrja að kenna við skólann á næstu önn samhliða verkefninu.
Rauan er frá Kasakstan og kom til Íslands fyrir sjö árum á vegum verkfræðistofunnar Verkís. Hún hafði hitt fulltrúa frá fyrirtækinu á ráðstefnu erlendis þar sem hún starfaði sem túlkur og var henni í kjölfarið boðið til Íslands. Í kringum 2010 byrjaði hún að skoða doktorsnám á sviði orkumála og setti sig í samband við Guðrúnu Sævarsdóttur, dósent við Háskólann í Reykjavík.
Eftir að hafa stofnað fjölskyldu hér á landi með íslenskum manni og nýkomin með spennandi starf þá sér Rauan ekki fyrir sér að flytja aftur til Kasakstans bráðlega. „Mér líður vel á Íslandi og mig langar til þess að þróa tilraunastofuna, enda er það mjög spennandi verkefni.“