- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Fátt bendir til að uppbygging orkuiðnaðar á síðustu tveim áratugum hafi hamlað vexti ferðaþjónustunnar, sem hefur vaxið jafnt og þétt á þessu tímabili og hafði árið 2015 þrefaldast frá árinu 2003 þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust, samkvæmt tölum Ferðamálastofu.
Álver hafa með umsvifum sínum markvisst styrkt grunnþjónustu á landsbyggðinni, sem hefur haft mikla þýðingu fyrir uppbyggingu þjónustu við ferðamenn og jafnað sveiflurnar yfir vetrarmánuðina.
Þá hefur uppbygging á virkjunum styrkt innviði um allt land, þar með talið vegasamgöngur, sem nýtist ferðaþjónustunni.
Til dæmis um vel heppnuð samlegðaráhrif af uppbyggingu aflstöðva og ferðamennsku má nefna Bláa lónið, jarðböðin í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun, gestastofur Landsvirkjunar við Búrfell, Kröflu og Fljótsdalsstöð, og móttöku ferðamanna við Kárahnjúkavirkjun. Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar skipta erlendir gestir hundruðum þúsunda á ári hverju.
Jákvætt viðhorf erlendis gagnvart orkuuppbyggingu á Íslandi var staðfest með viðhorfskönnun Iceland Naturally meðal almennings í Bandaríkjunum árið 2014. 67% töldu að notkun Íslands á endurnýjanlegum orkugjöfum yki áhuga þeirra á Íslandi og vörum frá Íslandi. Í sömu könnun kom fram að 49% teldu að endurnýjanleg orka Íslendinga gerði mun líklegra að þeir ferðuðust til Íslands og væri eitt það helsta sem drægi þá til landsins.
Á ársfundi Landsvirkjunar árið 2016 kynnti Hörður Arnarson viðhorfskönnun Gallup þar sem kannað var viðhorf 1.000 erlendra ferðamanna til endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi. Spurt var: „Ertu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi (vatnsafl, jarðvarmi og vindorka)?“ en 97% sögðust jákvæðir. Einnig var spurt „Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir heimsækja gestastofu í vatnsafls- eða jarðvarmavirkjun ef þú kæmir aftur til Íslands?“ en 46% töldu það líklegt.
Loks má nefna að álver á Íslandi lagt ýmsum verkefnum lið á sviði ferðamála. Munar þar mestu um styrki Alcoa Fjarðaáls til Vina Vatnajökuls, hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs. Alcoa Fjarðaál er aðalbakhjarl samtakanna og hafði árið 2014 greitt yfir 400 milljónir í styrki til þeirra frá árinu 2008. Meginmarkmið Vina Vatnajökuls er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf sem geta stuðlað að því að sem flestir geti notið þeirrar náttúru og sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hollvinasamtakanna hafa þau á árunum 2010-2018 styrkt um 200 verkefni fyrir um 600 milljónir króna.