- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Norðurál hefur verið að færa sig yfir í virðismeiri vörur og afurðir, m.a. álblöndur fyrir bílaiðnaðinn. Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar Guðmundsson forstjóra Norðuráls í Viðskiptablaðinu í tilefni af því að Norðurál varð í 9. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki árið 2016. Hér má lesa viðtalið við Ragnar í Viðskiptablaðinu:
Norðurál er í dag í eigu Century luminum sem er með höfuðstöðvar í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum en fyrirtækið rekur fjögur önnur álver í Bandaríkjunum. Norðurál er eitt stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi og er stofnkostnaður þess um 900 milljónir Bandaríkjadala og brúttóársvelta er um 500 milljónir dollara. Á síðasta ári voru um 290.000 tonn af áli framleidd á Grundartanga.
„Reksturinn hefur gengið mjög vel að undanförnu og einkennst af stöðugleika og ákveðnum vexti í okkar starfsemi. Það hefur verið svona hægur en góður stígandi í þessu og það hefur haldist vel á starfsfólki hjá okkur. Starfsemin hefur bara gengið vel í alla staði,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls.
Hann segir þó að þrátt fyrir það hafi fyrirtækið þurft að horfast í augu við ákveðnar áskoranir að undanförnu. Álverð hafi verið lágt en þar spili aukning í álframleiðslu í Kína stórt hlutvert.
„Álvöruverðið hefur verið lágt að undanförnu og við höfum því þurft að gæta aðhalds varðandi allan kostnað og höfum nú líka verið að færa okkur yfir í virðismeiri vörur og afurðir sem gefa þá hærra afurðaverð. M.a. er um að ræða framleiðslu á ákveðnum álblöndum, vörum þar sem búið er að blanda öðrum efnum út í álið en þær henta t.d. vel til framleiðslu á bílfelgur. Við höfum verið að gera þetta í auknum mæli síðustu tvö, þrjú ár og erum núna með um 20% af framleiðslunni. Þó að þetta hafi gengið mjög vel hefur það á sama tíma kallað á mikla vinnu og skipulagningu að ná þessu fram. Við erum svo að horfa til þess að auka enn frekar framleiðslu okkar á virðismeiri vörum og erum að skoða fjárfestingar í því skyni,“ segir Ragnar.
Í dag heyrast gjarnan óánægjuraddir í viðskiptalífinu frá fyrirtækjum sem kvarta undan óhóflegu eftirliti og gjaldtöku hins opinbera, en Ragnar segir það þó ekki vera raunina hjá stjórnendum Norðuráls. „Við höfum átt í ágætu samstarfi við þær eftirlitsstofnanir sem snúa að okkur en það er kannski fyrst og fremst Umhverfisstofnun og undir þeirra stjórn er fylgst með umhverfisáhrifum okkar. Við höfum svo sem ekki verið að kveinka okkur neitt sérstaklega undan því þegar verið er að ræða svona starfsemi en við erum auk þess að kaupa rafmagn af opinberum aðilum og því er stærstur hluti greiðslna sem við innum af hendi sem fer til opinberra aðila. Við reynum bara að standa undir þeim kröfum sem eru gerðar til okkar og reynum að gera það vel og af metnaði,“ segir Ragnar.