- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Innlend útgjöld áliðnaðar hafa aldrei verið meiri en á síðasta ári er þau námu liðlega 100 milljörðum króna. Þetta kom fram í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar, formanns Samáls, á ársfundi samtakanna sem nú fer fram á Grand Hótel. Kaup á vöru og þjónustu af innlendum fyrirtækjum námu liðlega 40 milljörðum króna, að raforkukaupum frátöldum.
Magnús sagði það vera ánægjulegt hvernig jákvætt viðhorf í garð áliðnaðar hefðu aukist á undanförnum árum , en í nýlegri könnun Capacent Gallup sögðust rúmlega 60% aðspurðra vera jákvæðir í garð iðnaðarins.
Magnús nefndi að ál sé gjarnan nefnt græni málmurinn sökum endurvinnslueiginleika þess, en það má endurvinna endalaust. Talið er að um 75% alls áls sem framleitt hefur verið frá upphafi sé enn í virkri notkun. Þá er ál léttur málmur og leikur lykilhlutverki við að draga úr eldsneytisnotkun og losun farartækja auk jákvæðra áhrifa í byggingariðnaði og matvælaiðnaði
Hann taldi það skjóta skökku við þegar talað væri um að fjárfesting í orkufrekum iðnaði hefði valdið ofþenslu í hagkerfinu á árunum 2004-2007. Innlendur hluti fjárfestinga vegna Kárahnjúka og Fjarðaáls hefði numið 83 milljörðum króna á sama tíma og aukning húsnæðislána nam 780 milljörðum, aukin skuldsetning atvinnulífsins 2.600 milljörðum, heildarfjárfesting 1.500 milljörðum og virðisaukning í Kauphöll Íslands 2.600 milljarðar. Fjárfestingarnar tengdar uppbyggingu Fjarðaáls á Austurlandi væru dvergvaxnar í þessu samhengi.
Þá gagnrýndi Magnús stefnu stjórnvalda og sagði opinbera stefnu um erlenda fjárfestingu virðast andsnúin frekari uppbyggingu á sviði þeirra atvinnugreina sem hvað mestur árangur hefur náðst í, svo sem áliðnaði. Auk þess væri ímynd Íslands sködduð hjá erlendum fjárfestum, m.a. vegna skorts á stöðugleika í rekstrarumhverfi. Samkomulag við stjórnvöld um raforkuskatt hefði verið svikið og mikill óstöðugleiki verið í skattumhverfinu. „Stefna stjórnvalda gagnvart erlendum fjárfestum verður að vera trúverðug og stöðug ef árangur á að nást“ sagði Magnús.