- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Vegna mikillar aðsóknar hefur verið lokað fyrir skráningu á ráðstefnu Fjarðaáls sem ber yfirskriftina Mannauðsstjórnun Okkar á milli og þakkar Fjarðaál almenningi þann mikla áhuga sem ráðstefnunni hefur verið sýndur. Í kynningu Fjarðaáls á ráðstefnunni segir:
Mannauðsmál eru okkur öllum afar mikilvæg. Mannauður skiptir höfuðmáli á stórum jafnt sem smáum vinnustöðum, samfélög verða að hlúa að mannauði og sem einstaklingar þurfum við líka að hugsa vel um okkur sjálf sem mannauð.
Alcoa Fjarðaál fagnar tíu ára afmæli með því að bjóða til opinnar ráðstefnu um mannauðsstjórnun, föstudaginn 15. september í Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Ráðstefnan hefst með skráningu kl. 8:30 og lýkur formlega kl. 16:00. Fjarðaál býður upp á kaffiveitingar, hádegisverð og léttar veitingar í ráðstefnulok. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis en gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér. (Uppfært 12. september: Því miður þurftum við að loka fyrir skráningu þar sem fullbókað er á ráðstefnuna).
Ráðstefnan á að vera heilavænleg (brain friendly) og því verða mörg, fjölbreytileg og skemmtileg erindi. Á eftir hverju erindi gefst fundargestum færi á að spyrja fyrirlesara, ræða málin sín á milli og fá sér hressingu. Í lokin verða pallborðsumræður.
Við fáum til liðs við okkur úrval sérfræðinga á sviði mannauðsmála. Starfsmenn Fjarðaáls munu byrja á að segja frá hönnun og mönnun þessa stærsta iðnfyrirtækis á Íslandi. Síðan verður meðal annars fjallað um stefnumiðaða mannauðsstjórnun, árangurs- og frammistöðustjórnun, vinnustaðagreiningar, lykilþætti helgunar, árangursríka endurgjöf og styrkleikamiðaða nálgun, menntun og menningu, liðsvinnu, svefn og heilsu og sáttar- og atferlismeðferð. Á ráðstefnunni munu sérfræðingar Gallup kynna niðurstöður nýrrar könnunar meðal fyrirtækja og stofnana á Austurlandi um stöðu mannauðsmála í fjórðungnum.