- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í sögunni af tunglferðinni sem skrifuð var árið 1867 lýsti höfundurinn Jules Verne undraefninu áli, sem eigi eftir að gera mannkyninu kleift að komast til tunglsins.
Þetta var nokkrum áratugum áður en fundin var upp aðferð beggja vegna Atlantsála til að framleiða ál með rafgreiningu og rúmum hundrað árum áður en Neil Armstrong steig fæti á tunglið, en þangað komst hann á tunglflaug úr áli, sem var eins og Verne hafði getið nærri um einungis um 8 tonn að þyngd.
Allt eru þetta uppfinningar, sem hefðu sómt sér vel á Nýsköpunarmóti Álklasans, sem haldið var í hátíðarsal Háskóla Íslands í gær.
Byltingin fólst upphaflega í léttleika álsins, sem greitt hefur fyrir tækniframþróun á fleiri sviðum, til að mynda við rafvæðingu bílaflotans, en rafbílar á borð við Teslu komast fyrir vikið lengra á hleðslunni og verða fýsilegri kostur í stað bíla sem brenna olíu. Það er einmitt við framleiðslu rafbíla sem mestri aukningu er spáð í notkun áls á næstu árum.
Ál býr sömuleiðis yfir þeim eiginleikum að leiða rafmagn, gegnir lykilhlutverki í sólarrafhlöðum og álvírar leysa af koparvíra. Þá einangrar það vel og lengir því endingartíma matvæla, drykkjarvara og lyfja, auk þess sem álklæðningar draga úr orkutapi í byggingum. Loks hefur ál verið skilgreint sem „varanlegt efni“, því það má endurvinna aftur og aftur, án þess að það tapi sínum upprunalegu eiginleikum.
Þessir kostir áls valda því að eftirspurn á heimsvísu eykst um leið og meiri áhersla er lögð á sjálfbærni, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu CRU er búist við að eftirspurn aukist um 40% til ársins 2030, en þar vega þyngst samgöngur, mannvirki, umbúðir og orkugeirinn eða um 75%.
Nú blasir það tröllvaxna verkefni við áliðnaðinum á heimsvísu að líta inn á við og ráðast í að umbylta framleiðsluaðferðum, þannig að komið verði í veg fyrir losun koldíoxíðs. Á nýafstöðnu Iðnþingi var talað um græna iðnbyltingu og fer vel á því að atvinnulífið taki frumkvæðið í þessum efnum.
Stóriðjufyrirtækin á Íslandi hafa þegar markað sér stefnu og skrifuðu undir viljayfirlýsingu sumarið 2019 ásamt stjórnvöldum og Orkuveitu Reykjavíkur um að leita leiða til að ná fram kolefnishlutleysi árið 2040, ásamt því að kanna til hlítar hvort „Carbfix“ aðferðin, sem fangar kolefni og bindur það í grjót, sé raunhæfur kostur. Sú vegferð er hafin, en Rio Tinto hefur samið við Carbfix um uppbyggingu í Straumsvík og jafnframt um þátttöku í stóru tilraunaverkefni í Bandaríkjunum, auk þess sem Norðurál og Elkem hyggja á samstarf við Carbfix á Grundartanga.
Þá vinna Rio Tinto og Alcoa að þróun kolefnislausra skauta í gegnum Elysis, en að því samstarfi koma einnig Apple og kanadísk stjórnvöld. Íslenska sprotafyrirtækið Arctus Aluminium vinnur raunar einnig að slíkri þróun í samstarfi við þýska álfyrirtækið Trimet.
Mikilvægt er að hafa vettvang eins og Nýsköpunarmót Álklasans til að fara yfir það helsta sem er á döfinni í þessum iðnaði og gefst þar innsýn í starfsemi sprotafyrirtækja á þessum vettvangi, sem mörg hver hafa hreiðrað um sig í Tæknisetri, en þar hefur á undanförnum árum myndast sérhæfð aðstaða til rannsókna og þróunar í áliðnaði.
Þá voru kynnt þau nemendaverkefni sem hlutu hvatningarviðurkenningar Álklasans og þykja standa fram úr á sviði áltengdrar nýsköpunar. Áherslur á snjallvæðingu og grænar lausnir voru áberandi í þeim verkefnum og kallast það vel á við áherslu iðnaðarins um þessar mundir.
Víst er það verkefni tröllvaxið að umbylta framleiðsluaðferðum, eins og lagt er upp með í þeirri grænu iðnbyltingu sem hafin er, en um leið verður til jarðvegur fyrir rannsóknaog þróunarstarf. Í því felst forskot á þessari vegferð, hversu öflugur sá orkusækni iðnaður er sem skotið hefur rótum hér á landi – í þennan jarðveg geta frumkvöðlar sótt næringu fyrir nýsköpun og grænar lausnir.
Pétur Blöndal
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 31. mars árið 2022.