- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir stöðu áliðnaðar að umfjöllunarefni sínu í Morgunblaðinu, framsýnina þegar ný atvinnustarfsemi skaut rótum hér á landi og mikilvægi þess að samkeppnishæfni íslensks orkuiðnaðar haldist. Í leiðaranum segir orðrétt:
Álverum hefur verið lokað víða um heim á liðnum árum og nú síðast bárust fréttir af því að Alcoa, sem rekur álverið á Austurlandi, hefði lokað nokkrum álverum og væri þar með búið að minnka framleiðslugetu sína í álbræðslu um 45% frá árinu 2007.
Álver Alcoa hér á landi mun vera með þeim hagkvæmari og því ekki ástæða til að óttast um framtíð þess þrátt fyrir þessar nýjustu lokanir fyrirtækisins. Vandinn kann á hinn bóginn að vera töluverður hjá öðrum hér á landi og skemmst er að minnast þess að þegar kjaradeilur í Straumsvík stóðu sem hæst fyrir skömmu var útlit fyrir að slökkt yrði á ofnum álversins og þá hefði verið óvíst hvort eða hvenær kveikt hefði verið á þeim á nýjan leik.
Þó að ekki hafi verið slökkt á álverinu er þó ekki hægt að líta svo á að öll álver hér á landi séu komin fyrir vind, enda markaðsaðstæður erfiðar. Full ástæða er að hafa áhyggjur af framtíðinni í þessum efnum.
Einn þeirra sem hafa lýst áhyggjum af þessu er Viðar Garðarsson sem ritar pistla um viðskiptatengd málefni á mbl.is. Hann fjallar þar um hættuna af því að álverinu í Straumsvík verði lokað og bendir á að hún sé raunveruleg. Og það er ekki lítið í húfi, því að hann bendir á að í Straumsvík starfi um 450 manns og með afleiddum störfum megi ætla að um 1.500 fjölskyldur hafi hagsmuna að gæta vegna atvinnu sem tengist álverinu. Hafnarfjarðarbær hafi einnig mikilla hagsmuna að gæta og hið sama gildi um þjóðarbúið í heild sinni, en töluverður hluti útflutningstekna þjóðarinnar verður til í Straumsvík.
Viðar varpar því fram að „ein helsta orsök þess að álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík á í verulegum rekstrarvandræðum núna, sé ákvörðun sem tekin var í tengslum við nýjan orkusamning milli Landsvirkjunar og álversins árið 2010. Þá var ákveðið að slíta tengingu raforkuverðsins við heimsmarkaðsverð á áli“.
Landsvirkjun hefur hampað þessum samningi, en hætt er við að horft verði til hans á annan hátt fari svo að álverinu verði lokað vegna þess að raforkuverðið sé komið úr öllu samhengi við aðstæður á markaði.
Viðar heldur áfram í umfjöllun sinni og segir að Landsvirkjun láti sem henni komi málið ekki við. Þar ríghaldi menn í nýtt hlutverk fyrirtækisins sem stjórnendur þess hafi skilgreint sjálfir undir nýrri forystu og athugasemdalaust af hálfu Samfylkingar og Vinstri grænna sem þá voru í ríkisstjórn.
„Athyglisvert er að þetta nýja hlutverk, þar sem arðsemi Landsvirkjunar sjálfrar er sett í öndvegi, og hvernig stjórnendur Landsvirkjunar túlka það, gengur þvert á raforkulög. Í þeim grundvallarlögum er skýrt kveðið á um að heildarhagsmunir þjóðarinnar eigi að ráða för,“ segir Viðar, og heldur áfram: „Þetta mál er komið á það stig að ríkisstjórn og forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar hljóta að beita sér af hörku til að tryggja áframhaldandi starfsemi álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Komi til lokunar, tapa allir.“
Það er mikið í húfi fyrir Íslendinga að hægt sé að halda uppi öflugri starfsemi í ýmsum atvinnugreinum hér á landi og eru iðnaður og stóriðja ekki undanskilin. Með framsýni tókst að skapa nýja atvinnustarfsemi með álvinnslu og hefur hún ekki aðeins búið til störf í álbræðslunum sjálfum heldur leitt af sér fjölda starfa í fyrirtækjum sem veita þeim margvíslega þjónustu. Þetta hefur leitt af sér þekkingu sem skapar grundvöll undir frekari vöxt slíkra fyrirtækja. Það er frekar ástæða til að ýta undir þá þróun en að grafa undan henni með því að skapa þær aðstæður að óhagkvæmt verði að reka álver eða annan iðnað hér á landi.
Þegar sú staða virðist vera uppi sem að ofan er lýst hljóta stjórnvöld að gaumgæfa málin og grípa inn í ef þeim sýnist að óraunsæjar væntingar um verð eða draumkennd sýn á framtíðina séu farin að setja fjölda starfa og miklar útflutningstekjur í uppnám.