- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í kjölfar þess að forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Janne Sigurðsson, hlaut nýlega bandarísku Stevie-gullverðlaunin, sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, hefur Hillary Rodham Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sent Janne heillaóskir. Janne veitti viðtöku kveðju untanríkisráðherrans í móttöku sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga, í dag, föstudaginn 18. janúar.
Janne hlaut verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hún gekk til liðs við Alcoa. Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi, en hún býr á Eskifirði.
Luis E. Arreaga, sendiherra segir það mjög ánægjulegt að með Stevie-gullverðlaununum hefði Janne Sigurðsson verið valin forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Hann segir að af þeirri ástæðu hafi Hillary Rodham Clinton viljað óska Janne innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Í heillaóskabréfi Hillary Rodham Clinton segir:
„Fyrir hönd utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna er mér sönn ánægja af því að óska þér til hamingju með Stevie-gullverðlaunin, þar sem þú varst útnefnd forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Ég fagna framúrskarandi viðleitni þinni til að byggja upp álver Fjarðaáls og gera það að einu fullkomnasta álveri heims (state-of-the-art), þar sem uppfylltar eru ítrustu kröfur um öryggi starfsmanna og umhverfis. Ég er þér einnig þakklát fyrir framúrskarandi virka þátttöku í samfélaginu á Austurlandi með öflugum stuðningi við menningarstarf og viðleitni til að stuðla að umbótum í menntun og umhverfi. Viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna er mikilvægur grundvöllur tvíhliða samskipta landanna. Bandaríkin meta mjög mikils störf þín á Íslandi, sem endurspegla háleitustu hugsjónir í bandarískum atvinnurekstri: sjálfboðaliðastörf, samfélagslega ábyrgð og samfélagsþróun. Vinsamlegast athugaðu að við fylgjumst spennt með störfum þínum í framtíðinni, og sendi ég þér mínar bestu óskir um áframhaldandi velgengni. Með hamingjuóskum og bestu kveðjum, þín einlæg, Hillary Rodham Clinton.“
Á meðfylgjandi mynd má sjá f.v. Gylfa Sigfússon, varaformann Amerísk-íslenska verslunarráðsins, Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og Janne Sigurðsson, forstjóra Alcoa Fjarðaáls á Íslandi