- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Hagkvæmni þess að reisa álver á Íslandi byggist svo að segja eingöngu á því, að hér sé hægt að bjóða orkuverð, sem sé samkeppnishæft við það, sem hægt er að fá annars staðar í heiminum," sagði Jóhannes Nordal í fróðlegu erindi hjá Verkfræðingafélagi Íslands árið 1987. Jóhannes lagði gjörva hönd á plóg þegar kom að því að marka og framfylgja stefnu um nýtingu orkuauðlinda sem umbylti lífskjörum á Íslandi.
Heimilin njóta góðs af uppbyggingunni
Ekki aðeins hefur landsframleiðsla á mann vaxið 50% meira á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum frá því uppbyggingin hófst fyrir hálfri öld með Búrfellsvirkjun og álverinu í Straumsvík, heldur er afhendingaröryggi raforku með því besta sem þekkist í þessu fámenna og strjálbýla landi, skapast hafa verðmæt og fjölbreytt störf í iðnaði og almenningur nýtur góðs af uppbyggingunni í orkuverði til heimila sem er með því lægsta sem þekkist á byggðu bóli. Á sama tíma og heimsbyggðin stendur frammi fyrir þeirri gríðarlegu áskorun sem felst í orkuskiptum, þá er orkan hér á landi sjálfbær og endurnýjanleg.
Uppbygging innviða og þekkingar skapar tækifæri til framtíðar. Á þeim grunni er orkustefnan reist sem Þórdís Kolbrún Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra á frumkvæði að, en hún er mótuð þvert á flokka og var afraksturinn kynntur nú á haustdögum. Það er ánægjulegt að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs gengur eins og rauður þráður í gegnum þá skýrslu sem gefin var út.
Hreyfiafl fjölbreyttrar atvinnustarfsemi
Í framtíðarsýn til ársins 2050 er kveðið á um að samfélagslegur ábati af orkuauðlindum sé hámarkaður og þjóðin njóti ávinnings af því. „Orkan er hreyfiafl fjölbreyttrar atvinnustarfsemi þar sem er jafn aðgangur á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Þjóðin býr yfir framúrskarandi þekkingu og framsækni í orkumálum sem skilar sér í gróskumikilli verðmæta- og nýsköpun.“
Þá segir ennfremur: „Ísland er land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðsla er af endurnýjanlegum uppruna. Endurnýjanleg orkuframleiðsla gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Orkan er nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta.“
Samkeppnishæfur orkumarkaður
Margt er jákvætt við stefnuna sem mörkuð hefur verið. Í kafla um sjálfbæra orkuframtíð er undirstrikað að það hefur talist Íslandi til tekna að hafa aðgengi að hreinni orku á samkeppnishæfu verði og hagkvæmt orkukerfi sem hefur verið til hagsældar fyrir íbúa og atvinnulíf.
„Orkukerfið er grundvöllur fyrir margvíslega atvinnustarfsemi sem skapar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Til að Ísland verði áfram samkeppnishæft er mikilvægt að til staðar sé virkur samkeppnishæfur orkumarkaður sem skilar fjölbreyttum og misstórum notendum orku á sanngjörnu verði. Virkur og gegnsær markaður stuðlar að jafnvægi í framboði og eftirspurn og þar með bættu orkuöryggi.“
Í orkumarkaði felst að framboð og eftirspurn verði í stöðugu talsambandi þannig að verðmyndun á orku endurspegli framleiðslukostnað og virði með gagnsæjum hætti. „Ísland býður rekstrarumhverfi sem er samkeppnishæft við nágrannalönd sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.“
Eigendaaðskilnaður Landsnets
Þá er kveðið á um mikilvægt sé að ljúka eigendaaðskilnaði flutningsfyrirtækisins Landsnets þannig að því verði komið alfarið í beina opinbera eigu. „Hlutlaust eignarhald er grundvöllur gegnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði.“
Það er skynsöm orkustefna að skapa orkusæknum iðnaði og atvinnulífi hér á landi samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Þá þarf að horfa til núverandi stöðu á orkumarkaði og hvernig skapa megi næringarríkan jarðveg til lengri tíma, jafnt fyrir þá sem nýta og nota orkuna.
Í grunninn er þetta ekkert flókið. Eins og Jóhannes Nordal orðaði það í fyrrnefndri ræðu þegar hann ræddi orkusölu til stóriðjunnar: „Aftur á móti hafi þeir samningar, sem eru jafnhagstæðir báðum aðilum, ætíð bezta möguleika til þess að standast þegar til langs tíma er litið.“
Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls
(Grein sem birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember)