- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Í raun er ótrúlegt hugsa til þess hversu stórt efnahagslegt spor álfyrirtækjana er,“ sagði Rannveig Rist stjórnarformaður Samáls í ræðu á vel sóttum ársfundi Samáls í morgun.
„Alls námu útflutningsverðmæti frá íslenskum álverum 181 milljarði árið 2016 sem er reyndar nokkru minna en árið á undan. Sterkt gengi krónunnar hefur neikvæð áhrif á okkur eins og önnur útflutningsfyrirtæki en líka lágt álverð sem tók ekki að hækka fyrr en seint á síðasta ári. Horfur eru betri fyrir þetta ár sem og langtímahorfur.“
Rannveig sagði að stærstu framfaraskrefin í efnahagslífi þjóðarinnar á 20. öld mætti rekja til erlendri fjárfestinga, fyrst stofnunar Íslandsbanka með dönsku og norsku hlutafé árið 1904 sem var aðaluppspretta fjármagns fyrir vélvæðingu íslenska fiskiskipaflotans. „Í kjölfar þess má segja að iðnbyltingin hafi borist til Íslands hálfri annarri öld eftir að hún hafði tekið að breyta þjóðfélögum Vesturlanda,“ sagði hún.
Og hún dró fram að önnur umskipti urðu á sjöunda áratugnum. „Við þekkjum öll söguna af Búrfellsvirkjun. Skilyrði fyrir lánveitingu til Íslands fyrir þeirri risaframkvæmd á þeim tíma var orkusölusamningur við álverið í Straumsvík. Þetta var jafnframt stærsta skrefið sem stigið hafði verið í uppbyggingu iðnaðar hér á landi. Ef ekki hefði tekist að reisa Búrfellsvirkjun og koma áliðnaði af stað hér á landi hefði þróunin hér líklega orðið með öðrum hætti. Raforkukerfið hefði byggst upp í smærri skrefum með óhagkvæmari hætti og sú efnahagslega stoð sem nýting raforku til iðnaðarframleiðslu á Íslandi væri hugsanlega ekki fyrir hendi.“
Ójöfn samkeppnisskilyrði á heimsvísu
Rannveig sagði öll álverin hafa fjárfest í flóknari og virðismeiri afurðum og að ekki sæi fyrir endann á þeirri þróun. „Þetta er nauðsynlegt til að tryggja samkeppnishæfni en afurðir okkar eru seldar á heimsmarkaði þar sem gífurlega hörð samkeppni ríkir.
Þar lifa aðeins þeir hæfustu af og umhugsunarefni hversu ójöfn samkeppnisskilyrðin eru. Áhersla hér á landi öryggi, umhverfisvernd, aðbúnað og kjör starfsmanna er með því besta sem þekkist – og öðruvísi viljum við ekki hafa það.
En mikilvægt er að ýta undir samskonar þróun um allan heim.
Það varðar líka miklu þegar litið er til loftslagsmála að allir séu á sama báti – enda er það hnattrænt vandamál en ekki staðbundið. Parísarsamkomulagið var skref í þá átt og greina má nýjan tón hjá kínverskum stjórnvöldum.
Vonandi láta þau verkin tala og taka á loftslagsmálunum, en 90% af allrar álframleiðslu þar í landi er knúin með kolum. Evrópa hefur fyrir löngu tekið forystu með ETS-kerfinu og með því axlar atvinnulífið ábyrgð þótt kerfið sé ekki gallalaust.“
Skortur á starfsfólki með iðnmenntun
Rannveig kom inn á mikilvægi iðnmenntunar og sagði skort á starfsfólki með iðnmenntun áþreifanlegan.
„Menntun og hæfni starfsfólks okkar lykill að samkeppnishæfni okkar. Mikil áhersla er lögð á menntamál í álverum og var ánægjulegt að Alcoa Fjarðaál skyldi hljóta menntaverðlaun atvinnulífsins í janúar síðastliðinn. Hjá öllum álverunum eru reknir stóriðjuskólar og árið 2016 sátu 126 starfsmenn á skólabekk. Þarna haldast þétt í hendur hagsmunir starfsmanna og fyrirtækjanna.
Við erum í reynd að auka framleiðni og verðmætasköpun á grundvelli nýfjárfestinga og stöðugrar uppbyggingar mannauðs. Það þarf ekki endilega fleiri fermetra eða fleira fólk til að ná betri árangri. Aukin hæfni starfsfólks og tæknivæðing er lykilatriði.
Raunar þurfa íslensk fyrirtæki að einbeita sér að því um þessar mundir þegar spenna á vinnumarkaði er mikil og mikið framboð af störfum. Að óbreyttu mun það það verða mikil áskorun fyrir okkur að manna fyrirtækin í náinni framtíð. Skortur á starfsfólki með iðnmenntun er áþreifanlegur og mikilvægt er að markmið um að fjölga nemum sem velja iðn- og tæknimenntun náist.“