- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Álmarkaðir hafa ekki farið varhluta af því óvissuástandi sem ríkir á heimsvísu, hagvöxtur hefur skroppið saman á meginlandi Evrópu og dregið hefur úr eftirspurn. Ekki er útlit fyrir að markaðir taki við sér fyrr en líður á næsta ár. Horfur til langs tíma eru þó áfram góðar, enda er álið eftir sem áður lykilefniviður í orkuskiptum. Þar vegur þungt að sífellt meira ál er notað í bíla til að létta þá og draga þar með úr losun og að ál er burðarefni í sólarrafhlöðum.
Þegar þessi orð eru rituð ber hæst raforkuskerðingu til íslenskra álvera til að bregðast við orkuskorti, en svo virðist sem æ oftar sé gripið til þeirra örþrifaráða. Skerðingin hittir álverin illa fyrir, enda gilda þar sömu lögmál og hjá öðrum fyrirtækjum. Þegar náðst hefur upp í fastakostnað, þá eru það síðustu tonnin sem gera reksturinn arðbæran.
Það er umhugsunarefni að regluverkið sem atvinnulífið býr við verður æ meira íþyngjandi og kostnaður fer hækkandi. Útlit er fyrir að losunargjöld margfaldist á næstu árum innan ETS-kerfisins og er mikilvægt að þeir fjármunir skili sér aftur í loftslagsvæn verkefni í iðnaðinum, enda krefst það ærins tilkostnaðar að umbylta framleiðsluaðferðum til að draga enn frekar úr losun.
Annars hefur rekstur íslenskra álvera gengið vel og framleiða þau á fullum afköstum. Alcoa Fjarðaál lauk viðamiklu verkefni á árinu sem fólst í endurnýjun kerja og er framleiðslan komin á eðlilegt ról. Þá er Norðurál að ljúka við 17 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála og er búist við að hann komist í gagnið á fyrsta ársfjórðungi. Hátt í tvö hundruð manns hafa unnið að þessari framkvæmd á Grundartanga, auk þess sem unnið er að verkefninu hjá fjölmörgum fyrirtækjum.
Ánægjulegt er að fylgjast með gróskunni í þeim stóra og fjölbreytta klasa fyrirtækja sem myndast hefur í íslenskum áliðnaði, þar sem sprotafyrirtæki dafna og skjóta rótum. Gott dæmi um það er DTE, sem er leiðandi á heimsvísu í efnagreiningu fljótandi málma og þróaði sína tækni á Grundartanga. Áliðnaður stendur traustum fótum og er ein af burðarstoðum íslensks efnahagslífs, skilar verðmætum í þjóðarbúið og dregur úr hagsveiflum.