- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Hydro hefur hleypt af stokkunum nýju álveri í Karmøy í Noregi. Minni orku þarf við framleiðsluna en í öðrum álverum. Víðast hvar í heiminum losar orkuvinnslan mest við álframleiðslu og er þetta því byltingarkennd tækni. HRV, sem er í eigu Verkís og Mannvits, var með í verkefninu frá upphafi. Lesa má um vígsluna og skoða myndir á heimasíðu Verkís.
Ástæða þess að orkunýtni nýja álversins er mun meiri en í öðrum álverum í heiminum er sú að kerin og kerskálinn hafa verið bestuð svo ekki þurfi að nota jafn mikla orku við framleiðsluna, að því er fram kemur á heimasíðu Verkís. Talið er að orkuþörf við framleiðsluna verði 15% minni en meðaltalið er í heiminum og hægt verði að framleiða 75 þúsund tonn af áli á ári hverju. Hydro hefur þegar tekist að ná leiðandi stöðu meðal álframleiðenda hvað varðar orkusparnað og minnkun útblásturs við tilraunir sem gerðar voru í kerunum vegna byggingar álversins.
HRV tók þátt í þróun lausna vegna hönnunar skautsmiðjunnar og baðefnavinnslunnar frá frumstigum verksins. Afköst og útlit skautsmiðjunnar, þ.e. hvað varðar uppröðun véla, hönnun húss, raflagna, loftræsingar og byggingar, hafa verið í höndum HRV frá upphafi. HRV tók einnig þátt í útboðsvinnu, innkaupum, móttöku og uppsetningu véla og tækja í skautsmiðju og baðefnavinnslu verksmiðjunnar.
Vígsluhátíðin fór fram í smábænum Kopervik sem er næsti bær við álverið í Karmøy. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, var viðstödd vígsluna ásamt fleirum norskum stjórnmálamönnum. Risavöxnum skærum, sem pakkað hafði verið í umbúðir, var flogið yfir flóann til álversins með flygildi. Þar tók hópur fólks á móti þeim og voru skærin því næst notuð til að klippa á borða sem strengdur hafði verið þvert yfir nýja kerskálann.
HRV, sem er í eigu Verkís og Mannvits, var með í verkefninu frá upphafi. Fyrirtækið var stofnað árið 1996 og leggja verkstæðistofurnar tvær mannskap í þau verkefni sem HRV tekur að sér.