- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Endurvinnsla áls verður í brennidepli á ársfundi Samáls, samtaka álfyrirtækja Íslandi, sem fram fer að morgni miðvikudags, þann 16. maí. Þar verður m.a. sagt frá niðurstöðu átaksverkefnis í desember sl. sem gekk út á endurvinnslu sprittkerta. Hundruð þúsunda kerta söfnuðust á tímabilinu og voru undirtekir við átakinu svo góðar að aðstandendur ákváðu í kjölfarið að gera sprittkertaenduvinnsluna að varanlegum kosti í flokkun og endurvinnslu hér á landi.
Sveitarfélög samhæfi aðgerðir
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir í samtali við Morgunblaðið að Líf Lárusdóttir verkefnastjóri hjá Gámaþjónustunni fjalli á ársfundinum um niðurstöður átaksins og þann lærdóm sem hægt sé að draga af því. Þá muni hún ræða tækifærin sem séu fyrir hendi, svo sem meiri samhæfingu milli sveitarfélaga. „Hvert sveitarfélag hefur sinn háttinn á þegar kemur að endurvinnslu, og því er mikil þörf á samhæfingu og einföldum lausnum. Annars er viðbúið að fólk ruglist í ríminu þegar það ferðast á milli staða, að ekki sé talað um alla þá ferðamenn sem streyma til landsins,“ segir Pétur.Hann segir að úr sprittkertunum sem söfnuðust í desember hafi verið bræddir álhleifar til endurvinnslu, en einnig hafi íslenskir hönnuðir gert nytjahluti úr endurunnu áli í samstarfi við Málmsteypuna Hellu. Olga Ósk Ellertsdóttir og Studio Portland ræða hönnunina á fundinum, en sýningin #Endurvinnumálið var afmælisopnun Hönnunarmars í ár og verður hún sett upp fyrir ársfundinn í Hörpu. „Þetta átak með sprittkertin tókst ótrúlega vel, segir Pétur. „Tilgangurinn var að vekja fólk til vitundar um mikilvægi endurvinnslu þess sem til fellur á heimilunum. Sprittkertin eru góð dæmisaga um hvernig fanga má endurvinnslustrauma sem liggja um heimilin í landinu og gera gott úr þeim. Endurvinnsla er sterk og vaxandi bylgjuhreyfing í samfélaginu.“
Pétur segir að Samál hafi markað sér þá stefnu að álsporið á Íslandi sé jákvætt á öllum sviðum. „Við viljum að álsporið sé jákvætt, hvort sem er losun, endurvinnsla og hönnun eða rannsóknir og þróun.“
» Framkvæmdastjóri Samáls hleypir af stokkunum átaki með Fiskideginum mikla á Dalvík, sem felst í að safna og endurvinna álpappírinn sem notaður er við að grilla þann fisk sem boðið er upp á.
» Á ársfundinum verður farið yfir stöðu og horfur í íslenskum áliðnaði og einnig á heimsvísu, en þar hafa orðið straumhvörf á síðustu misserum.