- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Grínistinn Ari Eldjárn segir í samtali við Morgunblaðið að Íslensku bjartsýnisverðlaunin sem hann hlaut í gær hvetji hann til að leita út fyrir þægindarammann og halda áfram að sinna nýsköpun.
„Þetta kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Ari, spurður út í verðlaunin. „Þetta hvetur mann til að gera eitthvað sem er ekki alveg inni í þægindarammanum því mín vinna sem grínisti og uppistandari er rosalega mikil nýsköpun en hún getur staðnað mjög hratt.“
Hann segir skemmtilegt að vera kominn í hóp fjölbreyttrar flóru listamanna sem hefur hlotið bjartsýnisverðlaunin. Hildur Guðnadóttir kvikmyndatónskáld hlaut verðlaunin í fyrra en á meðal annarra sem hafa tekið við verðlaununum eru frænka Ara, rithöfundurinn Sigrún Eldjárn, Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður og Garðar Cortes, sem vann þau fyrstur manna árið 1981, á fæðingarári Ara.
Hér má lesa fréttina á Mbl.is. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein milljón króna í verðlaunafé.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Upphafsmaður þeirra var danski athafnamaðurinn Peter Bröste en ISAL álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá því að Bröste dró sig í hlé árið 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna.
Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Rannveig Rist og Örnólfur Thorsson.