- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Ekki er stefnt að því að framlengja raforkuskatt sem rennur út um næstu áramót, en álver hér á landi greiddu 1,6 milljarða í skattinn á síðasta ári, að því er fram kemur í frétt Ingvars Haraldssonar í Fréttablaðinu. Þar segir ennfremur:
„Skatturinn var lagður á tímabundið árið 2009 til þriggja ára sem hluti af samningi áliðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda. Samhliða skattlagningunni skuldbundu álfyrirtækin sig til að fyrirframgreiða tekjuskatt í þrjú ár.
Þáverandi ríkisstjórn ákvað árið 2012 að framlengja skattinn um þrjú ár til viðbótar, út árið 2015. Þar að auki var skatturinn hækkaður úr 0,12 krónum á kílóvattsstund í 0,15 krónur á kílóvattsstund.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, segir mikilvægt að orð standi. Skatturinn hafi upprunalega átt að vera tímabundinn en hafi verið framlengdur þrátt fyrir loforð um annað.
Pétur bendir á að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon hafi ritað Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, bréf áður en ráðist var í 60 milljarða framkvæmdir á álverinu í Straumsvík. Í bréfinu hafi því verið lofað að skatturinn yrði ekki framlengdur eftir árið 2012.
„Við höfum borgað meira en milljarð fram yfir það sem til stóð. Þannig að hann er kominn milljarð fram yfir síðasta söludag. Skatturinn hefur kostað okkur rúma milljón á sólarhring allan þennan tíma, í að verða sex ár“ segir Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Ólafur segir að skatturinn hafi reynst álverinu þungur í skauti þar sem það hafi verið rekið með tapi árin 2012 og 2013.