- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Áliðnaði á Íslandi hefur vaxið verulega fiskur um hrygg á síðustu árum og er nú í fararbroddi í heiminum bæði í rekstri og umhverfismálum. Hliðariðnaður er á fullri ferð, sbr. mikinn vöxt hjá íslenskum verkfræðistofum og sérhæfðum tæknifyrirtækjum. Ál er málmur sem hefur fleiri notkunarmöguleika en flestir aðrir málmar og ál hefur þá sérstöðu að það er nóg til af því á jörðinni.
Þessi mikli uppgangur áliðnaðar hér á landi hefur farið saman við aukna arðsemi raforkuframleiðslu á sama tíma. Handbært fé frá rekstri Landsvirkjunar, í bandaríkjadal, hefur t.d. fjórfaldast frá árinu 2002. Á sama tíma hefur raforkusala félagsins í GWh aukist um 80% en raforkuverð til stóriðju liðlega tvöfaldast. Hækkun raforkuverðs á Nordpool nemur um 12% á sama tímabili. Ekki verður því betur séð en að áliðnaður hafi staðið vel undir arðbæru raforkuverði hér á landi til þessa. Framtíðarhorfur greinarinnar gefa heldur ekki tilefni til að ætla að nein breyting verði þar á, á komandi árum.
Hagdeild Landsbankans gaf nýverið út greiningu á framtíðarhorfum áliðnaðar í heiminum. Þar er dregin upp afar dökk mynd af horfum í áliðnaði og spurt hvort áliðnaður muni standa undir arðbæru raforkuverði hér ál landi. Þessi mynd Landsbankans af horfum í áliðnaði gengur þvert á spár helstu sérfræðinga í áliðnaði, sem spá árlegri aukningu álnotkunar upp á 2-3 milljónir tonna á ári næstu áratugina og um 30-40% hækkun álverðs á næstu 5 árum. Niðurstaða Landsbankans vekur því furðu og raunar stórfurðulegt að slík spá sé sett fram á grundvelli einnar blaðagreinar, án þess að minnsta viðleitni sé gerð til að afla frekari gagna.
Ef litið er nánar á greiningu Landsbankans vekur það fyrst athygli á hversu takmörkuðum upplýsingum hún byggir. Raunar virðist einungis vera byggt á einni blaðagrein í Financial Times frá því í október síðastliðnum þar sem borin er saman verðþróun á áli, járngrýti og kopar. Út frá þessari umfjöllun dregur Landsbankinn þá ályktun að áliðnaður í heiminum eigi við vanda að stríða sem sé „meiri og langvinnari en sú efnahagskreppa sem heimurinn berst nú við.“
Lítum aðeins á þróun áliðnaðar á undanförnum árum og horfur á næstu árum. Frá árinu 2000 hefur frumframleiðsla áls aukist um 20 milljónir tonna á ári, farið úr um 25 milljónum tonna í 45 milljónir tonna. Flestar spár gera ráð fyrir að árið 2020 verði álframleiðsla komin í 65-70 milljónir tonna. Það samsvarar árlegum vexti upp á 2-3 milljónir tonna. Raunar er gert ráð fyrir svipuðum vexti áfram allt til ársins 2035. Er þar meðal annars horft til hversu fjölbreyttra nota ál hentar og ekki síst aukinnar áherslu á álnotkun í samgöngum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngutækjum.
Álverð hefur hins vegar vissulega lækkað nokkuð á þessu ári. Meðalverð það sem af er ári er um 15% lægra en meðalverð ársins 2011 og er nú um 23% lægra en meðalverð ársins 2008, er álverð stóð hvað hæst. Í greiningu Landsbanka er þróun álverðs borin saman við þróun á járngrýti og kopar. Varðandi járngrýti er rétt að hafa í huga að hér er um að ræða hráefni í stálvinnslu. Arðsemi stálvinnslu ræðst þá af því hvort tekst að koma verðhækkunum á járngrýti út í verðlag eða ekki. Ef horft er á stálverð hefur það lækkað um nærri 40% frá meðalverði ársins 2008 á sama tíma og verð á járngrýti hefur tvöfaldast. Á sama tíma hefur verð á súráli, helsta hráefnis til álframleiðslu, haldist stöðugt í hlutfalli við álverð. Miklar hækkanir á járngrýti, langt umfram verðþróun á áli, verður því frekar túlkað sem alvarlegt veikleikamerki í stáliðnaði en sem eitthvert sjúkdómseinkenni áliðnaði, líkt og lagt er út af í greiningu Hagdeildar.
Ýmsar rangfærslur og undarlegar ályktanir má týna til í greiningunni. Framleiðendur í öðrum löndum eru t.d. ekki að draga úr framleiðslugetu sinni, líkt og þar er haldið fram. Hins vegar hefur orðið nokkur tilfærsla á framleiðslunni. Gömlum og ósamkeppnisfærum álverum, t.d. á meginlandi Evrópu, hefur verið lokað og önnur ný hafa risið í þeirra stað. Á heildina litið hefur t.d. framleiðsla í Evrópu og Miðausturlöndum aukist um 3 milljónir tonna á ári, frá því yfirstandandi efnahagskreppa brast á. Þessa dagana er t.d. verið að ræsa nýtt 750 þúsund tonna álver í Saudi Arabíu. Sem kunnugt er hafa öll álfyrirtækin þrjú sem hér standa haft áhuga á að auka framleiðslu sína. Unnið er að stækkun á Grundartanga og í Straumsvík. Bygging álvers í Helguvík er hafin, þó svo verkefnið hafi vissulega dregist nokkuð. Auk þess hefur Alcoa lýst yfir áhuga á stækkun á Reyðarfirði. Það er skýrt merki þess að fyrirtækin telji starfsemi sína hér á landi vel samkeppnishæfa á þessum markaði til lengri tíma litið.
Af ofangreindu má sjá að því fer víðsfjarri að horfur í áliðnaði í heiminum séu jafn dökkar og Landsbankinn telur. Áliðnaður hefur, líkt og flestar aðrar atvinnugreinar, þurft að kljást við slæmt ástand markaða vegna þess efnahagssamdráttar sem orðið hefur á liðnum 4 árum. Erlendum greiningaraðilum ber hins vegar langflestum saman um að langtímahorfur greinarinnar séu afar góðar. Það hlýtur að mega gera þá kröfu til greiningardeildar stærsta banka landsmanna að hún sýni af sér vandaðri vinnubrögð en þessi þegar fjallað er um eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.
Þorsteinn Víglundsson. Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls.