- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Pétur Blöndal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samáls. Hann mun hefja störf í næsta mánuði.
Pétur tekur við af Þorsteini Víglundssyni sem tók nýverið við stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Pétur hefur gegnt starfi ritstjórnarfulltrúa á Morgunblaðinu frá 2006 og stýrt menningardeild blaðsins, auk þess að ritstýra Sunnudagsmogganum um árabil. Hann er stjórnarformaður Stofnunar um fjármálalæsi, auk þess að vera stundakennari við HÍ og sitja í stjórn Forlagsins. Hann var áður forstöðumaður kynningarmála og fjárfestatengsla hjá Íslandsbanka og stýrði almannatengsladeild
auglýsingastofunnar Góðs fólks. Pétur er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.
Samál eða Samtök álframleiðenda á Íslandi eru samtök álfyrirtækja á Íslandi og voru stofnuð 7. júlí 2010. Markmið samtakanna er að vinna að hagsmunum og framþróun íslensks áliðnaðar og efla upplýsingastreymi og fræðslu um áliðnaðinn. Nánari upplýsingar um samtökin má finna á vefsíðunni www.samal.is.
Aðild að Samáli eiga allir íslenskir álframleiðendur, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál og Norðurál. Stjórnarformaður er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, en einnig eiga sæti í stjórn Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa á Íslandi og Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls.
„Það er spennandi áskorun að takast á við þetta starf, enda er áliðnaðurinn ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs,“ segir Pétur. „Það sýnir vel mikilvægi áliðnaðarins fyrir íslenskt þjóðarbú að hann skapar yfir 220 milljarða í gjaldeyristekjur og heildarkostnaður sem til fellur hér á landi er um 100 milljarðar. Það starfa um 2.100 manns hjá álfyrirtækjunum og áætlað er að um 5 þúsund manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti. Áliðnaðurinn á Íslandi hefur sýnt mikinn metnað, ekki síst á sviði öryggis-, mennta- og umhverfismála og ég hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu.“