- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Í fimm áratugi hefur byggst upp öflugt fyrirtæki í Straumsvík. Þegar það hóf starfsemi árið 1969 var framleiðslan um 30 þúsund tonn. En á þeirri hálfu öld sem liðin er hefur framleiðslugetan aukist í 212 þúsund tonn og afurðirnar eru að öllu leyti virðisaukandi. Þær hafa færst úr hreinu áli í málmblöndur sérsniðnar að þörfum hátt í 200 viðskiptavina.
Þegar vísir hafði myndast að áformum um byggingu álvers í Straumsvík árið 1959 lýsti Ólafur Thors forsætisráðherra því á Alþingi að meginstefna hans væri „ ....... að koma efnahagslífi þjóðarinnar á traustan grundvöll þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíð- ” inni farið batnandi“. Með framleiðslu áls gafst Íslendingum fyrst kostur á að nýta eigin orkuauðlindir til verðmætasköpunar.
Síðbúin iðnbylting
Um þetta má fræðast í nýútkomnu og fróðlegu riti um sögu álversins í Straumsvík til ársins 2000, sem kom út í tilefni 50 ára afmæli álframleiðslu á Íslandi í fyrra. Bygging álversins var skilyrði fyrir því að Ísland fékk erlent lánsfjármagn til að reisa Búrfellsvirkjun, sem aftur varð grundvöllur stofnunar Landsvirkjunar og er oft talað um að með því hafi orðið síðbúin iðnbylting á Íslandi.
Það er undarleg þjóðremba að amast við erlendri fjárfestingu. Í þeirri fordómalausu lífskjarasókn sem átt hefur sér stað á Íslandi frá aldamótum 1900 blasir við að stærstu framfaraskrefin má rekja til erlendrar fjárfestingar og innleiðingar tækni og þekkingar að utan. Það eru almennt viðtekin sannindi að það sé vísindastarfi til framdráttar að yfirstíga landamæri í samstarfi háskóla, en auðvitað á það einnig við um nýsköpun í atvinnulífi – þar varðar miklu að þjóðir vinni saman og læri hver af annarri.
Í nýlegri úttekt Samtaka iðnaðarins kemur fram að frá því að orkuiðnaður fór að byggjast upp á Íslandi fyrir 50 árum hefur þjóðarframleiðsla á mann vaxið 50% meira hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum. Dregið hefur úr sveiflum að fá fleiri stoðir undir verðmætasköpunina en fiskinn. Það kom bersýnilega í ljós þegar loks fundust not fyrir orkuframleiðslu Blönduvirkjunar við álframleiðslu, en hún hafði runnið ónýtt til sjávar framan af tíunda áratugnum, og eins þegar ISAL réðst í 60 milljarða fjárfestingarverkefni þegar mest lá við árin eftir bankahrunið.
Gróskumikill klasi
Á fimmtíu árum hafa öflug álver skotið rótum hér á landi og í kringum þau dafnar gróskumikill klasi með hundruðum fyrirtækja. Nýsköpunarmót Álklasans verður einmitt haldið í Háskólanum í Reykjavík 19. mars. Útflutningur álvera á Íslandi nam 230 milljörðum árum 2018 og þar af námu innlend útgjöld um 86 milljörðum. Ekki er mér kunnugt um aðrar útflutningsgreinar sem gefa upp innlendan kostnað með þessum hætti.
Út frá meðalverði Landsvirkjunar til iðnaðar má áætla að álverin hafi keypt raforku fyrir um 40 milljarða, en kaup á innlendum vörum og þjónustu námu þess utan 23 milljörðum, laun og launatengd gjöld um 19 milljörðum og opinber gjöld 4 milljörðum. Þá vörðu þau hátt í 200 milljónum í samfélagsstyrki. Það er því misskilningur þegar talað er um að sala á raforku til álvera jafngildi útflutningi á hreinni orku. Meirihluti innlends kostnaðar álveranna fellur til utan raforkuverðs.
Tryggja þarf sjálfbæran rekstur
Mikilvægt er að tryggja sjálfbæran rekstur álversins í Straumsvík til framtíðar. Þar eru störf yfir 500 starfsmanna í húfi og almennt greiða álver hærri laun en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, auk þess sem mikið er lagt upp úr menntun og þjálfun starfsmanna, m.a. með stóriðjuskólum sem reknir eru hjá öllum álverunum, og öryggis- og umhverfismál eru kjarnastarfsemi.
Þegar álverið var rekið með hagnaði var það með hæstu skattgreiðendum á Íslandi og borgaði raunar hæstu skattprósentuna um aldamótin rétt áður en fjárfestingarsamningurinn féll úr gildi. Vonandi tekst í þeim viðræðum sem fram undan eru að tryggja sjálfbæran rekstur ISAL, þannig að fyrirtækið komist aftur á réttan kjöl og þar verði áfram sköpuð verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.
Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2020.