- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
„Það er siðferðislega rétt að ráða fjölbreytt starfsfólk en það er líka bara fjári góð viðskiptaákvörðun,“ segir Gena Lovett, jafnréttisstýra hjá höfuðstöðvum Alcoa í New York, í greinargóðu viðtali sem Sunna Sæmundsdóttir tók við hana fyrir Mbl.is og lesa má hér. Lovett hefur klifið upp metorðastigann innan fyrirtækisins á síðustu árum og oft verið útnefnd sem ein þeirra kvenna sem „vert er að fylgjast með“ í viðskiptum.
Lovett talaði á ráðstefnu um stöðu og þróun jafnréttis á vinnumarkaði undir yfirskriftinni „Aukið jafnrétti - Aukin hagsæld sem UN Women á Íslandi, Festa og Samtök atvinnulífsins efndu til á Hilton Reykjavík Nordica í vikunni.
Þar var fjallað um mikilvægi þess að fyrirtæki setji jafnréttismál á oddinn út frá viðskiptalegum forsendum og samfélagsábyrgð.
Á ráðstefnunni undirritaði Stjórnarráð Íslands yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women). Er þetta í fyrsta sinn sem öll ráðuneyti eins ríkis undirrita þennan sáttmála í sameiningu.
Lovett er með stjórnendur hverra eininga innan Alcoa samstæðunnar í stuttri ól þegar að jafnréttismálum kemur og þarf hver framkvæmdastjóri á reglulegum fundum að tilkynna henni um árangur sinn í jafnréttismálum.
Með þessu segir hún tryggt að jafnréttisáætlun Alcoa verði fylgt.
Í viðtalinu á Mbl.is er ennfremur haft eftir Lovett að jafnréttisstefnu þurfi að flétta í innviði fyrirtækja og að nauðsynlegt sé að allir séu samstíga og vinni með jafnrétti að leiðarljósi. „Stríðið um hæfileikaríkt starfsfólk er oft óvægið. Stjórnendur verða að ná í það allra besta og það verður að leita á öllum stöðum. Við þurfum fjölbreytni til þess að viðhalda samkeppnisstöðu okkar og starfsumhverfið þarf að endurspegla fjölbreytni samfélagsins,“ segir hún.
„Við þurftum að setja okkur markmið um að setja konur í leiðtogahlutverk innan fyrirtækisins. Þetta gerum við bæði vegna þess að konur eru alveg jafn hæfar til þess og karlmenn en einnig vegna þess að mikilvægt er að skapa sterkar fyrirmyndir jafnt fyrir konur sem karla.“
Hún segir hæfileikaríkt starfsfólk verða til með þjálfun og kennslu og nauðsynlegt sé því frá upphafi að taka inn jafn margar konur og karlmenn. Ef af fimm nýjum starfsmönnum er einungis ein kona er strax í upphafi búið að takmarka möguleikann á því að kona verði valin til frekari ábyrgðar innan fyrirtækisins þar sem fleiri karlmenn geta setið eftir þegar farið er að kemba í gegnum hópinn. Þá segir hún segir áframhaldandi stuðning vera nauðsynlegan. „Það er ekki nóg að vera boðið á dansleik heldur þarf þér einnig að vera boðið upp í dans þegar þangað er komið.“
Starfstöð Alcoa á Íslandi er krúnudjásn fyrirtækisins í jafnréttismálum að sögn Lovett. „Við vissum frá upphafi að við vildum sérstaklega ná til kvenna og fá þær til fyrirtækisins.“