Það blasir við að íslensk stjórnvöld hafa tækifæri til að stíga inn í þróunarverkefnið Elysis, þar s…
Það blasir við að íslensk stjórnvöld hafa tækifæri til að stíga inn í þróunarverkefnið Elysis, þar sem bæði Alcoa og Rio Tinto reka álver á Íslandi, skrifar Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls.

Kolefnislaus álframleiðsla handan við hornið?

Lítil frétt á Reuters vakti athygli víða um heim fyrir tveim vikum. Þá var fyrsti álfarmurinn seldur til Apple sem framleiddur er án losunar koldíoxíðs eða CO2 .

Það er fyrirtækið Elysis sem stendur að þróun á þessari byltingarkenndu tækni, en að baki því standa Alcoa og Rio Tinto. Quebec-fylki á einnig lítinn hlut. Í grunninn felst tæknin í því að rafskautum úr kolefni er skipt út í rafgreiningarferli áls, sem þýðir að ekkert kolefni er til staðar í ferlinu og því myndast ekki CO2 heldur súrefni O2 .

Taka íslensk stjórnvöld þátt?

Þessi byltingarkennda tækni hefur verið þróuð áratugum saman af Alcoa, en straumhvörf urðu í fyrra þegar tilkynnt var um samstarf Alcoa og Rio Tinto í Elysis. Jafnframt að stefnt yrði að því að hefja þróun á kolefnislausri framleiðslulínu og að álið yrði sett á markað fyrir 2024, en lagt er upp með að hægt sé að innleiða tæknina í álverum sem þegar eru starfandi.

Stjórnvöld í Kanada og Quebec taka ásamt Apple þátt í kostnaði við rannsóknir og þróun verkefnisins og leggja til þess 144 milljónir dollara eða um 18 milljarða. Apple notar sem kunnugt er ál í flestar sínar vörur, svo sem iPhone-farsíma, Apple-úr og Mac-tölvur, og hefur unnið að því að lágmarka sitt kolefnisfótspor.

Það blasir við að íslensk stjórnvöld hafa tækifæri til að stíga inn í þetta verkefni, þar sem bæði Alcoa og Rio Tinto reka álver á Íslandi. Ef það gengi eftir, þá yrði hverfandi heildarlosun frá íslenskri álframleiðslu, þar sem orkan hér á landi er endurnýjanleg. Það myndi skapa Íslandi sérstöðu, því heildarlosun álframleiðslunnar verður áfram mikil í löndum sem sækja orkuna í gas eða kol, svo sem í Kína og Mið-Austurlöndum.

Snjallvæðing og sjálfvirkni

Óhætt er að fullyrða að tækifærin eru mörg til að ýta undir rannsóknir og þróun í áliðnaði hér á landi. Byggst hefur upp gróskumikill álklasi á liðnum áratugum og auðvitað felst forskot í því fyrir fyrirtæki í klasanum að hafa aðgang að svo öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum sem eru sýningargluggi út í heim.

Það segir sína sögu að á liðnu ári keyptu álverin þrjú vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja fyrir um 23 milljarða, auk þess sem raforkukaup námu um 40 milljörðum. Alls námu innlend útgjöld álvera á Íslandi um 86 milljörðum.

Því ber að fagna að tvö áltengd verkefni fengu úthlutað styrk úr Rannís nú í desember. Annarsvegar var það sprotafyrirtækið DTE, sem er leiðandi í sjálfvirknivæðingu efnagreiningar á álbráð eða melmi. Yfirskrift verkefnisins er „Snjallvæðing og sjálfvirkni að fjórðu iðnbyltingu“. Annar sproti sem fékk styrk er Álvit, sem vinnur að þróun á nýjum umhverfisvænum kragasalla.

Rannsóknarmiðstöð í áliðnaði

Í sumar skrifuðu fulltrúar stjórnvalda, Orkuveitu Reykjavíkur og stóriðju undir viljayfirlýsingu um að hleypa af stokkunum viðamiklu rannsóknar- og þróunarverkefni um hvort fýsilegt sé að binda kolefnisútstreymi stóriðju í berglögum með Carbfix-aðferðinni, sem einnig er nefnd „gas í grjót“. Ekki fékkst styrkur til verkefnisins úr Horizon 2020 sjóði ESB, en áfram verður unnið að fjármögnun verkefnisins.

Þá er rannsóknarverkefni í gangi hjá Nýsköpunarmiðstöð um þróun á kolefnislausum skautum og með nýlegum styrk Alcoa Foundation hefur myndast vísir að rannsóknarmiðstöð í áliðnaði hér á landi. Álklasinn er einmitt þar til húsa með innan sinna raða á fjórða tug fyrirtækja og stofnana. Í síðustu viku var kynnt ný skýrsla Álklasans „Snjallál, þróun og snjallvæðing í áliðnaði“ og áhersla verður lögð á lausnir í loftslagsmálum á næsta ári.

Framþróunin er ör hjá framleiðslufyrirtækjum um allan heim. Ef rétt er á spilum haldið eru Íslendingar í færum að vera framarlega í rannsóknum, þróun og hagnýtum lausnum í álframleiðslu á heimsvísu, m.a. í snjalliðnaði og loftslagsmálum þar sem gerjunin er mest. Þar hafa Íslendingar sögu að segja.

 

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 18. desember 2019. 

Sjá einnig