- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Laufey Lín Jónsdóttir, söngkona og lagahöfundur, hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2023 sem afhent voru á Kjarvalstöðum í dag. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein og hálf milljón króna í verðlaunafé.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. ISAL álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna.
Laufey Lín útskrifaðist frá Berklee tónlistarháskólanum í Boston árið 2021. Hennar fyrsta breiðskífa, Everything I Know About Love, hlaut mjög góða dóma og einróma lof gagnrýnenda. Önnur plata hennar, Bewitched, hefur að sama skapi fengið frábærar viðtökur. Tónlist Laufeyjar einkennist af samblöndu af jazzi og núttímapopptónlist auk þess sem söngrödd hennar þykir sérlega seiðandi.
Tónlist Laufeyjar nær nú til milljóna hlustenda um allan heim í gegnum streymisveitur. Í hverjum mánuði fær hún að jafnaði 150 milljón streymi. Laufey hefur meðal annars komið fram í bandaríska sjónvarpsþættinum Jimmy Kimmel Live og í CBS Saturday Morning. Þá hefur hún gefið út lag í samstarfi við Philharmonia-hljómsveitina í Lundúnum og nú rétt fyrir jólin gáfu þær Laufey og Norah Jones saman út jólalög. Auk þess hefur Laufey verið með vikulega tónlistarþætti á tónlistarrás breska ríkisútvarpsins, BBC Radio 3.
Laufey hélt tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu ári sem þóttu einkar vel heppnaðir. En það var ekki fyrsta skipti sem Laufey vinnur með Sinfóníuhljómsveitinni því árið 2014 lék hún einleik á selló á jólatóleikum sveitarinnar. Þá hefur Laufey einnig haldið tónleika með China Philharmonic Orchestra og komið fram á jazzhátíðum, t.d. Newport Jazz, Ottawa Jazz og Montreux Jazz. Síðast hlaut Laufey tilnefningu til Grammy-verðlauna 2024 fyrir plötu ársins í flokknum Best Traditional Pop Vocal.
Í umsögn dómnefndar segir: „Laufey Lín er glæsilegur fulltrúi íslenskrar menningar, hún er vel menntuð og einbeitt í störfum sínum og hefur náð einstökum árangri á heimsvísu á mjög skömmum tíma. Hún er einstök fyrirmynd fyrir ungt íslenskt tónlistarfólk. Tónlist hennar sameinar strauma úr jazzi og samtímatónlist og hennar einstaka rödd og lagasmíðar hafa skipað hana í fremstu röð ungra tónlistarmanna í heiminum í dag“.
Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.