- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Eftir að sögulegt samkomulag náðist um COP21, þá þurfa evrópskir bílaframleiðendur að hafa sig alla við til að standa undir markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum hætti. Hingað til hefur verið horft til þess að bæta nýtingu bílvéla og upp að vissu marki að minnka vélarnar. Þó að rafmagnsvæðing bílaflotans muni gegna stóru hlutverki til framtíðar, þá er oft horft framhjá augljósri lausn sem felst í að létta bifreiðarnar. Hvort sem vélarnar ganga fyrir dísel eða rafmagni, þá skilar léttleikinn öllum bifreiðum lengra.
Ál hefur árum saman verið notað til að létta bifreiðar: flestir bílar hafa álfelgur og íhluti úr áli í vélum. Fyrirtæki á borð við Audi, Jagúar og Land Rover voru brautryðjendur og framleiddu bifreiðar að fullu úr áli fyrir áratugum síðan. Upp á síðkastið hefur svo orðið æ meira um að bílaframleiðendur tileinki sér hönnun úr áli til að létta bifreiðarnar. Nú er algengt að ál sé notað í hurðir, vélarhlífar, stuðara, þakkanta og margt fleira. Hönnunin er ólík, en á þó eitt sammerkt: álhlutir eru mun léttari en sambærilegir hlutir úr stáli.
Samkvæmt nýlegri rannsókn Ducker World Wide er útlit fyrir að notkun áls í bifreiðar muni aukast verulega til ársins 2025. Í rannsókninni er áætlað að hlutfall áls í bifreiðum sem framleiddar eru í Evrópu fari í tæp 200 kíló fyrir árið 2025, en nú er það um 150 kíló. Þetta hefur mikið að segja í baráttunni við losun CO2 og fyrir bættri nýtingu eldsneytis. Ef notkun áls í bifreiðum fer upp í 200 kíló, þá dregur það úr losun CO2 um 16 grömm á hvern kílómetra. Meðaltal losunar fyrir 2014 er 123 g/km, sem þýðir að hærra hlutfall áls í bifreiðum mun hjálpa bílaframleiðendum í Evrópu að setja sér metnaðafarfyllri markmið til framtíðar.
Létting bílaflotans gerir fólki kleift að ferðast með minni losun gróðurhúsalofttegunda. En til þess að það verði að veruleika, þarf regluverk ESB að hvetja til léttingar bílaflotans ekki síður en innleiðingar nýrrar tækni, s.s. á sviði loftmótstöðu og bættri nýtingu véla. Eins og regluverkið er í dag, þar sem losun miðast við þyngd bifreiða, þá dregur það ekki aðeins úr vægi léttingar þeirra heldur beinlínis refsar framleiðendum fyrir að fara þá leið. Í stað þess að miða losun við þyngd væri eðlilegt að miða við stærð og umfang bifreiðar – þannig mætti leysa úr læðingi léttingu bílaflotans.
Patrik Ragnarsson
Evrópsku álsamtökin / European Aluminium