- Samál Samtök álframleiðenda
- Borgartúni 35
- IS-105 Reykjavík
- Iceland
- Framkvæmdastjóri, Guðríður Eldey Arnardóttir er með síma 8200766
- samal@samal.is
Hvað sem líður niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í Glasgow má öllum ljóst vera að straumþunginn er mikill í loftslagsmálum. Segja má að verkefnið sé tvíþætt, það snúist annarsvegar um orkuöflun og orkuskipti á heimsvísu og hinsvegar um nýsköpun og þróun sem leiðir til nýrra ferla og nýrrar tækni. Í báðum tilvikum gegnir atvinnulífið lykilhlutverki.
Eins og fram kom í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í Silfrinu um helgina kallar þetta í raun á nýja iðnbyltingu – og hann leyfði sér að vera bjartsýnn: „Það er ekkert útilokað að þróunin verði miklu hraðari en við sjáum fyrir vegna þess að framvindan er ekki alltaf línuleg. Um leið og ný tækni er orðin til, þá verður hún innleidd hraðar, nýsköpunin er mikil og gróskan í þessum efnum.“ Hann nefndi sem dæmi að Airbus væri að þróa vetnisknúnar flugvélar, sem lagt væri upp með að kæmu á markað 2035, en losunin er mikil frá flugi á heimsvísu. „Þetta er dæmi um hvernig fyrirtækin eru á fleygiferð að finna lausnir sem henta markaðnum og taka á þessum málum.“
Ekki var síður áhugavert að hlusta á Stefán Gíslason, stofnanda og eiganda Environice, taka undir með Sigurði og kalla eftir skýrari hvötum og ramma frá stjórnvöldum. Hann benti á að hugarfarsbreyting hefði orðið í atvinnulífinu í okkar heimshluta fyrir fáeinum árum og það hefði í raun tekið fram úr stjórnvöldum, þ.e. viljinn væri orðinn meiri þar til að ganga hraðar. „En þá er atvinnulífinu ákveðinn vandi á höndum, því ef ein atvinnugrein, eitt fyrirtæki eða eitt ríki þess vegna, tekur ákvarðanir og stígur hraðari skref en aðrir, þá er búið að raska samkeppnisstöðunni. Á meðan geta hinir bara haldið áfram að gera eins og þeir voru vanir að gera, þess vegna fyrir minni kostnað. Þannig að samtalið er óskaplega mikilvægt og ríkin þurfa að setja ramma.“
Miklu varðar að þjóðir heims axli ábyrgðina sameiginlega og að tekið sé á vandanum á hnattræna vísu, enda er loftslagsvandinn ekki staðbundinn. Evrópusambandið hefur fyrir löngu gert sér ljóst að það er engin lausn að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda staðbundið í Evrópu með því að hrekja iðnað úr álfunni. Kolefnisfótspor iðnaðar er almennt lægra í Evrópu en í öðrum heimsálfum, þannig að ef iðnaðurinn hrekst þaðan þá dýpkar loftslagsvandinn. Það væri því eins og að pissa í skóinn sinn. Þess vegna var búinn til kolefnislekalisti um atvinnugreinar sem mikilvægt er að halda innan Evrópu og tryggja samkeppnishæfni þeirra greina og er áliðnaður þar á meðal.
Hér á landi stigu stjórnvöld markvisst skref sumarið 2019 með undirritun viljayfirlýsingar með stóriðjunni á Íslandi, álverum og kísilverum, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur, um að leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040. Jafnframt fólst í yfirlýsingunni að kannað yrði til hlítar hvort „carbfix“ eða gas í grjót væri raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til að draga úr losun koldíoxíðs (CO 2 ) frá stóriðju á Íslandi. Rannveig Rist, forstjóri Isal, fagnaði þessu frumkvæði stjórnvalda: „Þetta er krefjandi og viðamikið brautryðjendaverkefni og til þess að árangur náist þurfa allir að leggjast á eitt.“
Það var því mikill áfangi þegar Rio Tinto og Carbfix lýstu því yfir að samstarf hefði tekist um að fanga kolefni frá álveri Isal við Straumsvík og binda það varanlega í steindir í bergi í grennd við álverið. Er það í fyrsta sinn sem álver beitir Carbfix-tækninni við föngun og förgun kolefnis. Ivan Vella, yfirmaður álframleiðslu innan Rio Tinto, sagði tækni Carbfix ryðja brautina fyrir Isal að minnka enn frekar kolefnisfótsporið sem álframleiðslan í Straumsvík skilur eftir sig. „Þá munum við ennfremur horfa til tækifæra til að nýta Carbfix-tæknina til að draga úr kolefnisspori í allri starfsemi Rio Tinto þar sem við vinnum þegar að annarri tækniþróun, svo sem í ELYSIS-samstarfinu [við Alcoa, Apple og kanadísk stjórnvöld] sem miðar að kolefnishlutlausri álframleiðslu.“
Þróun á grænni tækni og umhverfisvænum framleiðsluferlum stendur yfir í atvinnulífinu og mun sú vegferð halda áfram. Hér á landi hefur atvinnulífið sammælst um mikilvægi þess að gera betur og var það undirstrikað í fyrstu útgáfu af Loftslagsvísi atvinnulífsins, sem kynntur var fyrr á þessu ári. Ljóst er að atvinnulífinu er alvara og ef Íslendingar ætla að vera í forystu á þessu sviði, þá þurfa stjórnvöld að stíga inn í það samstarf af fullum þunga. Hvatarnir þurfa að vera nægilega skýrir og skilvirkir, þannig að ekki bara lausnirnar verði til heldur að þær verði innleiddar. „Þetta þarf að vinnast í miklu samstarfi,“ sagði Stefán Gíslason í Silfrinu. „Það getur ekki bara einhver einn ýtt á takka.“
Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 2021